16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Nú er það svo að skattheimta er yfirleitt réttlætt með ákveðnum hætti og skattar aldrei lagðir á út í bláinn. Þessi skattur, sem við erum hér að tala um, var upphaflega settur sem nokkurs konar verðbólguskattur. Menn ættuðu sér að ná inn því sem þeir kölluðu verðbólgugróða eða ákveðnum hluta hans í ríkissjóð og réttlættu það með ákveðnum röksemdum. Endurnýjun eða framlenging þessarar skattheimtu er viðurkenning á því annars vegar að ekki sé enn þá búið að innheimta allan þann gróða sem menn töldu sig geta gengið í og hins vegar að röksemdafærslan fyrir þessari skattlagningu upphaflega hafi verið rétt. Fjmrh. getur ekki skotið sér undan ábyrgð á þessum skatti framar. Hann hefur lagt til að endurnýja skattinn og þar með viðurkennt rökstuðning hans. Þetta er eignarskattur með vissu fyrirkomulagi og hann var á lagður með vissum pólitískum rökstuðningi á sínum tíma. Þó að fjmrh. lýsi því yfir að spor hans séu þung við að leggja þennan skatt á er hann samt sem áður með því að flytja þessa till. að viðurkenna réttmæti skattsins. Varla er þess að vænta að hann leggi skattinn á eingöngu til þess að fá tekjur. Sú röksemd er ekki samboðin fjármálayfirvaldi og slíkur rökstuðningur setur spurningarmerki við alla skattlagningu.

Rökstuðningur skattaálagningarinnar er þar með samþykktur af núv. fjmrh. og ríkisstj. með endurnýjun hans. Lækkun skattsins er aftur á móti ríkissjóði mjög dýrkeypt sýndarmennska. Sem dæmi til viðbótar því sem hv. 5. landsk. þm. nefndi áðan má nefna að það kostar ríkissjóð vegna utanfarar krabbameinssjúklinga árlega, miðað við að 20 sjúklingar fari út, um það bil 15 millj. að halda þeirri þjónustu úti. Það er hærri upphæð en verið er að fara fram á og berjast fyrir að fá núna í K-deild Landspítalans. Því lýsi ég því yfir að ég styð fram komna brtt. minni hl. fjh.- og viðskn., en mun aftur á móti áskilja mér rétt til að samþykkja frv. ef sú brtt. verður felld.