16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég átti von á að hæstv. fjmrh. tæki þátt í þessari umr. og lýsti sínum skoðunum á þeirri brtt. sem hér hefur verið lögð fram. En ég sé ástæðu til að bæta nokkrum orðum við það sem þegar hefur verið sagt.

Það er auðvitað mála sannast, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Austurl., að þessi ríkisstj. veit nákvæmlega ekkert hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Og það sem meira er: Þessi hæstv. ríkisstj. veit nákvæmlega ekkert hvað er að gerast núna í fjárlagaafgreiðslunni og lánsfjáráætlun. Við fáum hvert dæmið á fætur öðru um það upp í hendurnar.

Verðjöfnunargjaldið á raforku er ein upphæð í fjárlagafrv. Síðan kemur í ljós að sá skattur á að skila 140 millj. til viðbótar í ríkissjóð umfram það sem segir í fjárlagafrv. samkv. útreikningum þeirra sérfræðinga sem gerst til þekkja.

Þegar farið var að líta á lánsfjáráætlun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar er fyrsti punkturinn sem staðnæmst er við sjóefnavinnslan á Reykjanesi. Og hvað kemur í ljós þar? Jú, það kemur í ljós að reiknað er með 34 millj. kr. í fjármagnskostnað, vexti og afborganir. Það er sú prentaða tala sem stendur í lánsfjáráætlun. En þegar fulltrúar í stjórn fyrirtækisins og ráðuneytisstjóri fjmrn. mæta á fund n. kemur í ljós að þessi tala er 45 millj. Þarna vantar upp á 11 millj., sennilega vegna þess að það hafa verið reiknaðir vextir inn í töluna 34 millj., en ekki afborganir af lánum. Þar við bætist svo að þetta fyrirtæki er þegar búið að semja um verklegar framkvæmdir sem ekki verður undan vikist á næsta ári og sem raunar eru þegar að hluta til í gangi upp á 16 millj. Þessa sér hvergi stað í lánsfjáráætluninni. Þarna eru sem sagt alvarlegar skekkjur. Eins og ég sagði hér fyrst var þetta það fyrsta sem við staðnæmdumst við í lánsfjáráætluninni og ef annað er eftir þessu líst mér ekki á blikuna. Ég geri ráð fyrir að það mætti e.t.v. finna ýmis fleiri dæmi um slíkar skekkjur, þó að ég hafi þau ekki á takteinum á þessari stundu. Það er einfaldlega vegna þess að ekki hefur gefist nægur tími til að skoða þessi mál.

Hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði úr þessum ræðustól áðan: Ég vona að breytingarnar á skattalögunum leiði til lækkunar. Ég vona, sagði þessi hv. þm. Ég held að enn einu sinni viti ríkisstj. nákvæmlega ekkert um á hvaða mið er verið að róa eða þá hver aflinn verður. Það er fullyrt hér, þegar þessi skattalög komu til 1. umr. í Nd., að hér væri um verulegar skattalækkanir að ræða. Einn af þm. stjórnarliðsins, hv. þm. Gunnar G. Schram, hefur opinberlega á prenti borið það til baka, mótmælt því, sagt að ákvæði skattalaganna eins og þau voru lögð fram fyrst væru íþyngjandi. Og gagnrýni stjórnarandstöðunnar og rökstuðningur um að hér væri um skattahækkanir að ræða hefur haft nokkur áhrif. Við eigum eftir að sjá í þessari hv. deild hversu mikil. Hún hefur haft nokkur áhrif til að breyta þessari fyrirætlun ríkisstj.

Varðandi þennan sérstaka skatt, sem hér er til umr., er það alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. minntist á hér áðan og ég gerði raunar grein fyrir við 1. umr. þessa máls, að við Alþfl.-menn vorum þeirrar skoðunar að afnema ætti þennan skatt í tveimur áföngum fyrir tveimur árum og lögðum fram um það tillögur hér. Þær náðu ekki fram að ganga. En nú er það okkar skoðun, að aðstæður allar í íslensku þjóðfélagi séu svo gerbreyttar að ástæða sé til að halda þessum skatti við. Við erum ekki eins geirnegldir og sumir flokkar hafa verið í einstökum atriðum að við getum ekki breytt um skoðun ef aðstæður í þjóðfélaginu breytast. Það er auðvitað nauðsynlegt. Okkar mat er að aðstæður í þjóðfélaginu hafi á tiltölulega skömmum tíma breyst með þeim hætti að það sé réttlætanlegt að leggja þennan skatt á áfram.

Það hefur verið rakið hér ítarlega hvernig efnahagsráðstafanir ríkisstj. ýmsar koma hart og harðast við þá sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi. Það hefur verið rakið ítarlega í þessum umr. Og að því er varðar þá brtt. sem hér er til umr. finnst mér vera spurning um grundvallaratriði. Það er verið að tala um að halda skatthlutfallinu óbreyttu, ekki að lækka það. Mér finnst þetta vera spurning um fólkið eða fyrirtækin. Það er alveg ljóst að ef þessi brtt. verður felld staðfestist það enn einu sinni hér að núv. hæstv. ríkisstj. er ríkisstj. fyrirtækjanna en ekki fólksins í landinu.