16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til að árétta það vegna framkominna röksemda hérna að ég geri mér alveg grein fyrir því að miðað við það verðbólguástand sem við búum við í dag erum við að tala um hærra skatthlutfall en áður og með því að styðja þessa brtt. erum við að leggja það til að hert verði ólin hjá verslunar- og skrifstofufyrirtækjum með svipuðum hætti og gert hefur verið hjá launþegum. Ríkisstj. hóf starfsferil sinn með ákveðnum aðgerðum til að bjarga atvinnulífi, eins og sagt var, og hún hefur marglýst því yfir að þessar aðgerðir hafi borið árangur. Verðbólgan hefur farið lækkandi. Við vonum að ásetningur hennar, þ.e. að bjarga atvinnulífinu, hafi skilað sér og þá sé ég ekkert á móti því að atvinnulífið taki áframhaldandi þátt í því að koma málunum í viðunandi horf.

Eiður Guðnason varpaði fram þeirri spurningu, hvort ríkisstj. vissi nokkuð hvað hún væri að gera. Þeirri spurningu hefur hæstv. fjmrh. þegar svarað. Það gerði hann á fundi í Sþ. fyrir tveim dögum. Hann sagði: Þær upplýsingar sem við fengum, bæði í kosningabaráttunni og í stjórnarmyndunarviðræðunum, voru rangar. –Með leyfi hæstv. forseta: Það var kannske hvað mesta ruglið um það leyti sem við vorum að taka við vegna þess að upplýsingarnar sem við fengum voru rangar. Hann endurtók, með leyfi hæstv. forseta: Þær voru rangar. — Og síðar í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta: Það var ekkert svigrúm til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum eins og við höfðum sagt þegar við byggðum á upplýsingum sem voru rangar.

Ég spurði þess úr ræðustóli við þetta tækifæri: Hvaða tryggingu höfum við fyrir því í dag að ríkisstj. viti nú betur en þá hvað hún er að gera? Og ég vil spyrja að auki: Hvaða tryggingar höfum við fyrir því að þær upplýsingar sem ríkisstj. hefur í höndum í dag séu ekki jafnrangar og þær voru í vor? Við höfum þegar fyrir augunum nokkuð mörg dæmi, sum stór, sum lítil. Upplýsingarnar sem skattstigafrv. var byggt á reyndust greinilega rangar. Upplýsingarnar um orkujöfnunargjaldið reyndust greinilega rangar. Og ég veit um fleiri dæmi sem kannske eru ekki jafnstór, smærri í sniðum, eins og t.d. rafmagnseftirlit o.fl., sem greinilega eru komin inn í fjárlög á grundvelli rangra forsendna. Ég tel mjög nauðsynlegt, lýðræðislega skyldu stjórnvalda, að færa ákveðna sönnun fyrir því að það sem þau eru að gera sé rétt gert og með rétt fengnum upplýsingum.