16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki efna til mikilla umr. hér því að eins og einn ágætur þm., hv. 5. landsk. þm., hvíslaði að mér þegar ég kom upp í ræðustólinn eru menn búnir að tala sig dauða, en virðulegur þm. beindi til mín einni spurningu og hún var um álit mitt á þeirri brtt. sem minni hl. flytur á þskj. 236 við þetta frv.

Mín afstaða til þessa frv. kemur greinilega fram í þeirri grg. sem ég legg fram með þessu frv. og ætti hv. þm. þess vegna ekki að þurfa að spyrja. En með leyfi forseta ætla ég að lesa hluta af því sem þar kemur fram:

„Í frv. til fjárl. fyrir árið 1984 er gert ráð fyrir að framhald verði á skattlagningu þessari. Af þeim sökum er frv. þetta lagt fram og er það efnislega samhljóða lögum nr. 2011983. Þó er lagt til að skatthluttallið lækki úr 1.4 í 1.1%, en vegna minnkandi verðbólgu er það gert til að koma í veg fyrir að skattbyrðin aukist milli ára.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa meira. Þar kemur fram afstaða mín til till. sem hér er flutt til að breyta því sem ég legg til og hlýtur mín afstaða því að vera ljós, að ég leg til að þessi till. verði felld.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér önnur mál sem hafa komið á dagskrá, en vil þó segja það til þess að svara hæstv. fyrrv. fjmrh., 3. þm. Norðurl. v., að þegar hann talar um að hér sé um fjáraustur úr ríkissjóði að ræða og bendir á ýmis atriði, m.a. niðurfellingu á aukaskatti á ferðagjaldeyri o.fl., er ég fullkomlega reiðubúinn að leggja fram upplýsingar um fjáraustur úr ríkissjóði þó ekki væri nema síðustu vikurnar áður en ég tók við embætti.