16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Vegna aths. hæstv. núv. fjmrh. um fjáraustur úr ríkissjóði seinustu vikur seinustu ríkisstj. vil ég aðeins taka fram, að þess gerist ekki þörf að hæstv. fjmrh. lesi yfir þingheimi eða mér um hvaða upphæðir hefur þar verið að ræða. Allt eru þetta opinber plögg, sem m.a. liggja fyrir fjvn. nú þegar. Það sem hér er um að ræða eru að sjálfsögðu býsna margar aukafjárveitingar sem veittar voru á fyrstu mánuðum þessa árs fram til þess að fyrrv. stjórn fór frá. Þær aukafjárveitingar áttu sér margvíslegar skýringar og m.a. þær, eins og fram hefur komið, að reiknitölur fjárlaga voru ekki í fullu samræmi við þá verðbólguþróun sem síðar kom á daginn. Raunar var kannske vitað frá öndverðu að reiknitala fjárlaga væri lægri en búast mætti við. Það var raunar alltaf skoðun mín að aldrei væri hægt í fjárlögum að miða gerð fjárlaga við forsendur sem væru nákvæmlega sá raunveruleiki sem við mætti búast. Með því væri tekin of mikil áhætta og það yrði hverju sinni að gera ráð fyrir að reiknitölur fjárlaga væru heldur lægri en væntanleg verðbólguspá hverju sinni, því það versta sem getur komið fyrir nokkra ríkisstj. og nokkurn fjmrh. er ekki að verðbólga sé ívið meiri en fjárlög gera ráð fyrir. Það er ekki annað en það sem hefur gerst undanfarin 20–30 ár og er fullkomlega eðlilegt og raunhæft. Hitt er miklu verra, ef það skyldi einhvern tíma koma fyrir einhvern fjmrh. eða einhverja ríkisstj. að fjárlagaforsendan væri hærri en raunveruleg verðbólguþróun, því að þá væri voði á ferð. Slíkt má aldrei gerast. (Gripið fram í: Er nokkur hætta á því?) Ja, ef menn setja sér það að markmiði að hafa verðbólguforsendu í fjárlögum sem allra næst því sem þeir eiga von á að verði í raunveruleikanum hvað verðbólguþróun snertir, þá taka menn þá áhættu að verðbólgan kynni að verða ögn lægri og þar með er skaðinn skeður.

Þess vegna hef ég alltaf sagt og segi enn: Allt þetta innantóma tal um að forsendur fjárlaga séu ekki raunhæfar og annað eftir því er af því að menn vita ekki hvað þeir eru að tala um. Það er nauðsynlegt, sjálfsagt og eðlilegt að forsendur fjárlaga séu heldur lægri en búast má við að verði í raunveruleikanum því að ella taka menn of mikla áhættu, eiga það á hættu að við sérstaklega góðar aðstæður — hægari verðbólguþróun en menn áttu von á því að varla fara menn að ýta undir verðbólguna meira en hún sjálf gefur tilefni til — lendi menn í hreinum vandræðum með framkvæmd fjárl. Það er það versta sem fyrir getur komið að verðbólgan sé minni en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Þess vegna er þarna alltaf einhver munur á og þess vegna hefur reynslan orðið sú, bæði í minni tíð og í tíð allra fyrri fjmrh., að það hefur verið óhjákvæmilegt að veita svo og svo miklar aukafjárveitingar vegna þess munar sem alltaf er barna fyrir hendi. Ég hygg að núv. fjmrh. eigi eftir að kynnast því að svo verði einnig í hans tíð, þó að hann hafi að vísu verið svo djarfur að lýsa því yfir við 1. umr. fjárlaga að það yrðu engar aukafjárveitingar veittar á komandi ári. Ég vildi ekki gera nemar aths. víð það þegar 1, umr. fjárlaga fór fram, en ég held að sú aths. hæstv. fjmrh. hafi verið það hæpnasta sem hann hefur látið frá sér fara fyrr eða síðar. Ég á eftir að sjá að hann lifi af árið 1984 án þess að veita einhverja aukafjárveitingu.

Það hefur alltaf gerst og mun gerast að aukafjárveitingar eru veittar. Fjvn. fær skýrslu um þessar aukafjárveitingar með jöfnu millibili. Hæstv. fjmrh. væri því svo sannarlega ekki að flytja þingheimi neitt leyndarmál, sem kann að vera milli mín og hans, heldur væri hann bara að gefa upplýsingar um hluti sem allir þm. eiga heimtingu á að fá að vita og núv. fjvn. hlýtur að hafa þegar fengið að vita og menn geta fengið upplýsingar um hjá fjvn.-mönnum.