16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hafði vissa meðaumkun með hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. hæstv. fjmrh., meðan hann var að reyna að krafsa yfir það sem ég hafði sagt. Ég var svo sannarlega ekki að tala um hinar vitlausu forsendur fjárlaga fyrir 1983 þegar ég talaði um að sjálfsagt væri að kynna fyrir þingheimi fjáraustur úr ríkissjóði, svo sannarlega ekki, því að eins og hann réttilega gat um geta forsendur frv. til fjárl. breyst mjög skyndilega. En fyrr má nú vera þegar allir sjóðir, sem eiga að duga út allt árið til reksturs ráðuneyta og stofnana, eru þurrausnir í apríl — maí þannig að fjmrh. sem tekur við er settur í þann vanda að hann verður að búa til ný fjárlög frá degi til dags með aukafjárveitingum. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð við gerð fjárlaga. Ég held að fjári. í ár séu raunhæfari því að þau eru byggð á allt öðrum forsendum og þetta ætti ekki að koma fyrir aftur. Ég hef sem fjmrh. gert ráðstafanir til þess að fjmrh. hafi ekki þetta vald og verði ekki settur í þá aðstöðu að gera fjárlögin á miðju ári upp á nýtt án samráðs við Alþingi Íslendinga eða fjvn., sem ég tel vera umboðsaðila Alþingis á milli funda. Síðan ég komst inn í þessi vinnubrögð hef ég haft fullt samráð við hagsýsluna og við formann og varaformann fjvn. um þær aukafjárveitingar sem ég hef þurft að standa í að veita til þess að endar nái saman á þessu ári. Það er alls ekki þetta sem ég var að tala um heldur aukafjárveitingar í fyrirtæki og þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar bæði í kjördæmi hæstv. fyrrv. fjmrh. og hér í Reykjavík. Ég er að tala um málefni t.d. Landssmiðjunnar. Ég er að tala um ráðstafanirnar við Þjóðleikhúsið daginn áður en hæstv. fyrrv. fjmrh. fór frá embætti. Ég er að tala um fjárveitingar norður á Siglufjörð. Ég er að tala um fjárveitingar á Sauðárkrók. Virðulegur þm. veit nákvæmlega hvað ég er að tala um. Ég gæti haldið svona áfram. Við skulum ekki egna hvor annan upp í þær umr., enda kæri ég mig ekkert um þær. En ég vil bara segja, að ef hæstv. fyrrv. fjmrh. talar um að nú sé verið að ausa fé úr ríkissjóði með því að halda hlutföllum í skattheimtu af verslunar- og skrifstofuhúsnæði þannig að það íþyngist ekki á komandi ári er það mikill misskilningur að við séum að tala um það sama.

En mig langar til að svara ásökunum úr fyrstu ræðu virðulegs þm. í upphafi þessara umr., þ.e. í sambandi við námslánin. Ég veit ekki betur en þau hafi verið aukin á síðasta ári. Það sem átti að duga samkv. fjárl. ársins 1983 dugði alls ekki. Það var ekki fyrr en eftir að hæstv. síðasta ríkisstj. fór frá völdum að í ljós kom krafa upp á nærri 200 millj. frá námsmönnum. Þeir fengu viðbótarupphæð sem nemur 130 millj. Það er ekki verið að draga neitt af þeim, þeir fengu viðbótarupphæð. Við skulum ekki vera að kalla hlutina annað en þeir eru. Í ár eru þeir með meira en 6 eða 8 stærstu framkvæmdaliðirnir. Það eru ætlaðar 400 millj. kr. á fjárlögum 1984 + 228 millj. kr. lántaka. Við skulum átta okkur á því líka að aðkoman að ríkissjóði er skjalfest og fyrrv. hæstv. fjmrh. hefur ekki mótmælt þeirri niðurstöðu, enda treystum við hugsa ég báðir vel því ágæta starfsfólki sem í fjmrn. vinnur. Sú aðkoma gefur ekki tilefni til þess að námsmenn eða aðrir geti byggt tilveru sína á þeim fölsku forsendum sem þau fjárlög og þau vinnubrögð sem áður voru viðhöfð gáfu tilefni til að mættu kannske halda áfram ef óábyrg ríkisstj. héldi áfram völdum, vegna þess að lífskjörum þar var haldið uppi með sífelldum erlendum lántökum til að viðhalda stanslausum innflutningi. Þær voru orðnar, eins og hæstv. fyrrv. fjmrh. veit, á annan milljarð dollara, og mjög há prósenta, sem margoft hefur komið fram hér, miðað við þjóðarframleiðslu, fyrir utan yfirdráttinn í Seðlabankanum sem var á annað þúsund millj. Á sama tíma kemur hæstv. fyrrv. fjmrh. og heldur því fram að viðskilnaður hans við árið 1982 hafi verið 800 millj. kr. hagnaður og talar þá um niðurstöðutölur ríkisreikninga. Hvers lags blekkingamálflutningur er þetta? Ef það er staðreynd að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði í árslok 1982 800 millj. kr. til að spila úr til að byrja árið 1983 með, hvernig stendur á þeim yfirdrætti sem er í maí hátt á annað þús. millj.?

Annars ætlaði ég ekki að gera fjárlög að umræðuefni í sambandi við þann dagskrárlið sem nú er ræddur, en fyrrv. hæstv. fjmrh. gaf mér fyllilega tilefni til að svara þessum atriðum.