16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er vafalaust rétt hjá hæstv. fjmrh. að við höfum ekki mikla aðstöðu til að gera úttekt á fjármálum ríkisins á þeim stutta tíma sem við höfum til að ræða annað mál — að vísu náskylt af því að hér erum við auðvitað að fjalla um part af fjármáladæmi ríkissjóðs. En þegar hann talar um að við getum verið sammála um hvernig aðkoman að ríkissjóði hafi verið þegar þessi stjórn kom til valda vildi ég mega minna hann á að hann og hans málgögn höfðu uppi fullyrðingar um það, þegar þessi stjórn tók við, að það stefndi í 1600 millj. kr. halla á ríkissjóði á þessu ári. Auðvitað var það ekkert annað en hrein blekkingartala, eins og ég rökstuddi í grein í Morgunblaðinu í júnímánuði s.l. Eftir að þessi stjórn tekur við gerist það svo að hún bætir við útgjöldum eða fellir niður tekjur, sem fyrri stjórn hafði ákveðið, að upphæð samtals um 800 millj. (Gripið fram í.) Ef allt er talið eru það um 800 millj. og ef þessar tvær upphæðir eru lagðar saman skyldi maður halda að hallinn væri orðinn býsna mikill. En samkvæmt seinustu upplýsingum er enn gert ráð fyrir að hallinn verði einhvers staðar í kringum 1000 millj. (Gripið fram í.) Ég heyrði nú tölu einmitt frá fjmrn., og það eru ekki nema nokkrir dagar síðan, þar sem var talið að hallinn kynni að verða í kringum 1100 millj. Þessi seinasta tala sýnir að ef ekki hefði verið fallið frá svo mörgum útgjöldum, sem núv. hæstv. fjmrh. hefur gert, og ef ekki hefði verið bætt við svona mörgum nýjum útgjöldum hefði bersýnilega allt stefnt í að ekki hefði orðið ýkjamikill halli á fjárlögum á þessu ári.