16.12.1983
Efri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins benda á það að hér er um að ræða fylgifrv. með tekju- og eignarskattsfrv. sem nú hefur borist á borð þm. nái. við frá fjh.- og viðskn. Nd. Hins vegar er það held ég nokkuð ljóst að það stóra frv. sem þetta er fylgifrv. að verður ekki afgreitt hér fyrir jólahlé. Kom það fram á fundi með forsetum og formönnum þingflokka í gær að með því væri ekki reiknað, enda er það ekki í flokki þeirra forgangsmála sem ríkisstj. hefur sett á oddinn að afgreidd yrðu. Það er því ekki einu sinni lögð á það nein megináhersla frá hálfu ríkisstj.

Ég tel hins vegar alveg skaðlaust að afgreiða þetta mál út úr þessari hv. deild til að sýna að við getum komið þessu máli frá okkur út af fyrir sig, það er enginn ágreiningur um það. En rétt er að benda á það, að vitanlega hlýtur lokaafgreiðsla þess út úr þinginu að bíða þess að frv. um tekju- og eignarskatt nái fram að ganga.