16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 28. maí 1981.

Fyrir örstuttu var þetta frv. hér til umfjöllunar í þessari deild og urðu um það þá alllangar og ítarlegar umr. Hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson gerði þá ítarlega grein fyrir frv. og fyrir meginrökum þess að svo rík ástæða sé til slíkra aðgerða sem í frv. er talið. Ég ætla ekki hér í framsögu minni fyrir nál. að fjalla um fiskveiðistefnuna sem slíka. Öllum alþm. er ljóst að það er orðið þröngt um tíma, eigi frv. að ná fram að ganga, sem ég vona vissulega að verði.

Hið alvarlega ástand fiskistofna okkar er ástæða þess að alþm. komast ekki hjá því að taka nú afstöðu í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Okkur Íslendingum ber skylda til að ganga svo um þann auð sem hafið hefur okkur að geyma að takast megi að lifa á vöxtum þess sem hafið gefur. M.a. af þeirri ástæðu er nú talið nauðsynlegra en áður að draga úr sókn og leita nýrra leiða til bætts skipulags í veiðum og vinnslu.

Í nál. segir:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á fundum sínum undanfarna daga og kallað fyrir sig ýmsa hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskvinnslu, auk fulltrúa Hafrannsóknastofnunar. Alls hefur nefndin haldið átta bókaða fundi um málið. Undirritaður meiri hl. hefur orðið sammála um að skila sameiginlegu áliti, en Guðmundur Einarsson skilar séráliti.

Frv. hefur að geyma ákvæði um miklu ótvíræðari og víðtækari heimildir til handa sjútvrh. um stjórn og takmörkun fiskveiða en áður hafa þekkst eða finna má í gildandi lögum. Nefndin telur í sjálfu sér óæskilegt að Alþingi feli ráðherrum víðtækt vald til ákvarðanatöku án skýrra lagafyrirmæla um efnisatriði ákvarðana, en hefur eigi að síður kynnt sér eftir föngum þau rök sem liggja að baki þeirrar tillögu að auka heimildir ráðherra til þess að setja reglur um stjórn fiskveiða eins og nú háttar til.

Gildandi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru nr. 81 31. maí 1976. Á þeim hafa verið gerðar þrjár minni háttar breytingar frá setningu þeirra með lögum nr. 42/1977, 67/1979 og 38/1981. Frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var lagt fram á Alþingi í febrúarmánuði 1976 eftir ítarlega umfjöllun í nefnd sem skipuð var fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og alþm. og hafði nefndin starfað allt frá árslokum 1974. Má segja að samþykkt frv. á Alþingi í maímánuði 1976 hafi verið veigamesti þátturinn í þeirri endurskoðun laga og reglugerðar um fiskveiðar sem gerð var um það leyti sem Íslendingar fengu full yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilandhelgi við Ísland.

Enda þótt vel hafi verið að lögunum frá 1976 staðið og í þeim fjölmörg nýmæli á þeim tíma hefur þróun í fiskveiðum og stjórn þeirra orðið að mörgu leyti önnur en menn hugðu þegar þessi lög voru samþykkt. Ástand fiskstofna, stærri fiskveiðifloti og ný tækni hafa valdið því hér á landi eins og annars staðar að gripið hefur verið til nýrra og virkari stjórnunaraðgerða í veiðum og vinnslu í því skyni að nýta þá nytjastofna, sem eru hér við land, á sem skynsamlegastan hátt. Er nú svo komið að beitt er ýmsum aðgerðum við stjórnun veiða sem engum komu í hug fyrir nokkrum árum. Má sem dæmi nefna þær sóknartakmarkanir sem verið hafa á þorskveiðum undanfarin ár og skiptingu aflakvóta milli veiðarfæra og báta.

Nú hefur það gerst að Hafrannsóknastofnun hefur birt hina „svörtu“ skýrslu sína um ástand fiskstofna við Ísland. Skýrsla þessi lýsir svo alvarlegri hættu á bráðri ofveiði þorsks og fleiri fisktegunda að skjótt verður að bregðast við með auknum takmörkunum á fiskveiðum á næsta ári. Slíkt er talið kalla á hertar stjórnunaraðgerðir og að flestra dómi nýjar aðferðir við stjórnun fiskveiða. Í því sambandi ber að nefna tillögu sérstakrar nefndar sem sjútvrh. skipaði 4. maí 1982 og skilaði áliti (frumvarpi) í janúar s.l. Þar er m.a. að finna tillögu um svokallaðar kvótareglur sem ráðherra fái heimild til að setja og er þeim ætlað að koma í staðinn fyrir „skrapdagakerfi“ og „þorskveiðistopp“ sem beitt hefur verið sem stjórnunaraðgerð í fiskveiðum en flestir telja að dugi ekki við núverandi aðstæður. Þá ber að nefna ályktun 42. Fiskiþings, sem nýlega lauk störfum, en þar er einnig mælt með því að kvótaskipting verði tekin upp að því er varðar allar aðalfisktegundir við Ísland, þ. á m. þorsk. Ályktun Fiskiþings í heild er birt sem fskj. með frv. (þskj. 188) og vísast til þess.

Eins og fyrr greinir í þessu nái. hefur nefndin kallað fyrir sig fulltrúa hagsmunaaðila í fiskveiðum og fiskvinnslu og leitað eftir áliti þeirra á þessu frv. Næstum allir þeir, sem nefndin ræddi við mæltu með samþykkt frv. Fór það saman við ályktun Fiskiþings. Lögðu viðmælendur nefndarinnar yfirleitt áherslu á nauðsyn nýrra stjórnunaraðferða í stað „skrapdagakerfisins“ og mæltu þá með kvótakerfi. Þess ber þó að geta að flestir töldu kvótakerfið að vísu gallað og erfitt í framkvæmd, en þó óhjákvæmilegt að gera tilraun með það í eitt ár eins og frv. sjálft gerir ráð fyrir.

Nefndin er sammála um að kvótakerfi hafi ýmsa ókosti í för með sér sem stjórnunaraðferð í fiskveiðum. Í ljósi þess, sem að framan er greint, og jafnframt þess, að ekki hefur verið bent á aðrar færari leiðir í þessu efni, telur nefndin rétt að kerfi þetta verði reynt í eitt ár. Nefndarmenn leggja áherslu á að endurskoðun á fyrirkomulagi þessu fari fram tímanlega.

Þá er að finna í frv. heimildir fyrir því að rýmka núverandi takmarkanir á dragnótaveiðum, þ.e. að heimilt sé að veiða með dragnót lengur á ári hverju og á öðrum árstímum en nú gildir, en að sjálfsögðu yrðu veiðarnar leyfisbundnar áfram. Á það er sérstaklega bent að skarkolastofninn er ekki nýttur að fullu eins og nú háttar og því sé eðlilegt að rýmka veiðiheimildir um sinn frá því sem nú er. Ákvæði 5. gr. frv. styðja einnig þá hugmynd.

Um einstök ákvæði frv. vill meiri hl. að öðru leyti taka fram eftirfarandi:

Nefndin leggur þunga áherslu á að náið samráð verði haft við hagsmunaaðila um framkvæmd laganna, svo sem tekið er fram í grg. og vill í því sambandi árétta sérstaklega að fulltrúar fiskverkunarfólks verði hafðir með í samráðum þessum.

Nokkrir nm. hafa bent á að aflamagn síðustu fjögurra ára væri betri viðmiðun við útreikning aflakvóta á fiskiskip en afli síðustu þriggja ára eins og Fiskiþing hefur lagt til.

Það sjónarmið kom fram í nefndinni að nauðsynlegt væri að aflakvótar yrðu hreyfanlegir milli skipa, bæði af hagkvæmnisástæðum og eins ef skip væri selt úr landi eða félli af skipaskrá. Ein meginorsök rekstrarvanda sjávarútvegsins væri sú að fiskiskipastóllinn væri of stór. Því væri æskilegt að hafa innbyggðan hvata í kvótakerfinu til þess að skipunum fækkaði.

Nefndin leggur áherslu á að sjútvrh. hafi fullt samráð um framkvæmd laganna við sjávarútvegsnefndir Alþingis, svo sem tekið er fram í 1. gr. frv. Verði jafnan leitað til þeirra um samráð áður en ráðist er í einstök framkvæmdaatriði og fyrir þær lögð öll stefnumótun og útfærsla á ákvæðum laganna.

Einn nefndarmanna, Halldór Blöndal, gerði sérstaka bókun við afgreiðslu málsins sem hann mun gera grein fyrir við 2. umræðu þess.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt. Einstakir nefndarmenn áskilja sér þó rétt til að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.“

Undir nál. rita Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Gunnar G. Schram, Friðrik Sophusson, Ingvar Gíslason og Halldór Blöndal eins og fyrr segir með fyrirvara.

Eins og komið hefur fram hélt sjútvn. átta bókaða fundi um þetta mál. Einnig voru haldnir nokkrir sameiginlegir fundir með sjútvn. beggja deilda til að flýta fyrir afgreiðslu málsins. Þess ber einnig að geta að sjútvrh. kynnti sjútvn. frumdrög að þessu frv. á sameiginlegum fundi með fiskifræðingum við undirbúning málsins.

Ég vil að lokum færa nefndarmönnum sjútvn. bestu þakkir fyrir samvinnuna um að koma málinu fram og vissulega á mjög þröngum tíma.