16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. sjútvn. Í þessu áliti kemur fram sú afstaða mín að Alþingi eigi að setja reglur um aðalatriðin í framkvæmd fiskveiðistefnunnar. Þó að annar skikkur hafi í raun viðgengist hingað til um veiðar á ýmsum minni stofnum þá er komið að því, að ég tel, að Alþingi verður að gera upp við sig hvaða höfuðreglur eigi að gilda um umgengni við þessa stórkostlegu auðlind sem þorskstofninn er. Ég tel að Alþingi eigi einkum að setja reglur um tvennt. Í fyrsta lagi á það að marka höfuðforsendurnar fyrir þeirri reiknireglu sem er notuð við útreikning kvóta á skip og í öðru lagi á það að marka reglur um framsal kvóta, hvort sem þetta framsal verður með eða án endurgjalds.

Varðandi fyrra atriðið vil ég segja það að í viðtölum nefndarmanna við hina ýmsu hagsmunaaðila hefur greinilega komið fram að aðstaða og hagsmunir í þessari grein eru svo ólík milli byggðarlaga, milli landshluta að ég tel ólíklegt að ósveigjanlegur meðaltalskvóti geti orðið þar til þeirrar bótar sem þarf. Ég tel að hann muni skapa jafnmörg vandamál og hann leysir. Við erum að tala um aðgerð sem getur gert menn ríka eða örsnauða með einu pennastriki. Við erum að tala um aðgerð sem getur annaðhvort fært einstaklingum og fyrirtækjum milljónir eða svipt einstaklinga og fyrirtæki milljónum á einni nóttu. Ég tel að það sé óhugsandi að Alþingi geti eða megi framselja umráðarétt þjóðarinnar yfir þessum auðlindum skilyrðislaust. Ég tel að það hafi raunar ekki til þess neitt umboð. Við erum að tala um aðgerð sem þarf að stefna að mjög mörgum markmiðum. Það þarf að vernda fiskstofna, það þarf að vernda byggðarlög, það þarf að vernda atvinnu og það þarf að vernda fjölskyldur. Það þarf að búa svo um hnútana að þetta séu ekki bara kaldir fjötrar og framlenging á því hallærisástandi sem hefur ríkt undanfarin þrjú ár. Það þarf að búa svo um hnútana að það sem verður gert verði í raun og veru til uppbyggingar.

Um seinna atriðið, þar á ég við reglur um meðhöndlun og framsal kvóta, við ég segja það að það eina sem hefur komið fram í viðtölum sjútvn. við hæstv. sjútvrh. í þessu efni er að hann muni ekki leyfa beina sölu kvóta. Það er það eina sem hefur komið fram. Þarna tel ég að Alþingi eigi aftur að marka grundvallarreglur. Þarna erum við að tala um meðferð og úthlutun á svo stórkostlegum auðæfum að það hlýtur að þurfa að setja þar stefnumarkandi reglur um.

Að öðru leyti vil ég vísa til fram kominnar brtt. frá mér og hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og Kristínu Halldórsdóttur. Þar kemur fram sú aðferð sem við leggjum til að eigi að marka stjórnarfarslega meðferð í þessu máli. Ég tel að það sé tími til að vinna mátið. Skv. upplýsingum frá rn. er þess vart að vænta að nánari reglur um þessi mál, kvótaskiptingu eða annað, verði almennilega tilbúnar fyrr en um þetta leyti hvort eð er. Ef sjávarútvegsnefndirnar halda áfram þeirri markvissu og góðu vinnu sem þær hafa unnið núna undanfarið þá er ég ekki í nokkrum vafa um að þær gætu á viðunandi hátt búið til fyrir þennan tíma reglur sem Alþingi og rn. gætu sætt sig við. Og ég tel að það gæti gerst án þess að verða til nokkurra óþæginda fyrir útgerðina eða aðra sem í hlut eiga.