16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál gerði ég lítillega að umtalsefni hversu nauðsynlegt væri að taka upp nýjar stjórnunaraðferðir í fiskveiðimálunum. Það hefði kannske verið nauðsynlegt um nokkra hríð en væri aldeilis óhjákvæmilegt eins og stendur. Ég lýsti því yfir að það væri mín skoðun að binda ætti allar veiðar við veiðileyfi og að það yrði væntanlega að taka upp kvótakerfi í mjög verulegum mæli.

Það frv. sem hér liggur fyrir felur í sér möguleika til alls þessa eins og ég lét þá koma fram. En hins vegar er valdaafsal til ráðh. mjög víðtækt og opið þannig að afskipti og ábyrgð þings væru ekki með eðlilegum hætti. Ég benti þá á þann möguleika að þingið markaði með einhverjum hætti meginstefnu með þáltill. sem tæki til þessara þátta en lagaheimildin hvíldi hjá ráðh. um framkvæmdina á grundvelli þáltill. Á því stigi umr. gerði ég kannske ekki miklu nánar grein fyrir þessum hugmyndum. En á sérstöku þskj. flytja ásamt mér hv. þm. Guðmundur Einarsson og Kristín Halldórsdóttir, brtt. sem er ætlað að lýsa þessum viðhorfum og gera þingið virkan aðila í þessu máli.

Þeir möguleikar til stjórnunar sem fyrirhugaðir eru eru eftir sem áður fyrir hendi óbreyttir. Munurinn er sá að skv. þessari till. á ráðh. að leggja fyrir þingið til staðfestingar í þáltill. meginlínurnar að því er varðar framkvæmd stefnunnar.

Í 1. mgr. brtt. er því slegið föstu að ráðh. geti ákveðið hámark þess afla sem veiða má úr einstökum fiskistofnum og sjávardýrum á ákveðnu tímabili eða vertíð. Þetta er óbreytt frá því sem er í frv. eins og það kemur frá hæstv. sjútvrh. Aflamarkið er honum ætlað að ákveða sjálfum, það sé ríkisstjórnarverkefni eða þá verkefni sjútvrh.

Því næst er í 2. mgr. fjallað um það að ráðh. geti enn fremur sett reglur um leyfilega sókn tiltekinna gerða fiskiskipa og með tilteknum veiðarfærum í ákveðna nytjastofna. Þetta er reyndar 3. mgr. í frv. eins og það kemur frá hæstv. ráðh. Þetta gildir um almennar stjórnunaraðferðir, það er óbreytt. Á þessu grundvallast stöðvun á veiðum um hríð úr þorskstofninum ellegar skrapdagakerfi.

Síðan segir:

„Um önnur meginatriði varðandi framkvæmd fiskveiðistefnu skal ráðh. leggja fyrir Alþingi till. til þál. Í þáltill. skulu m.a. tilgreind eftirtalin atriði:

1. Hvort skipta skuli hámarksafla milli ákveðinna gerða veiðarfæra eða gerða fiskiskipa og hvaða meginreglur skuli gilda um þá skiptingu.

2. Hvort úthluta skuli aflamagni á einstök skip og hvaða viðmiðanir eða forsendur skuli gilda um þá úthlutun, m.a. með hliðsjón af fyrri veiðum skipa, stærð þeirra eða gerð. Þá skal gerð till. um hvort heimila skuli flutning eða framsal á aflamarki milli skipa og með hvaða skilyrðum eða eftir hvaða meginreglum.“

Skv. fyrri tölul. liggur þá fyrir hvort sjútvrh. vill notfæra sér heimildir til að skipta aflanum eftir gerðum veiðarfæra eða gerðum fiskiskipa og hvaða reglum hann ætli að beita í þeim efnum.

Skv. síðari tölul. er fjallað um það sem kallað er venjulega kvótakerfi og þá um það hvort ráðh. hyggist beita því eða ekki og um það hvaða meginreglu hann ætli að fylgja. Þ.e.: Hefur ráðh. t.d. hugsað sér að miða við afla á s.l. þremur árum að jafnaði á fiskiskip? Hann hlýtur að verða að gera grein fyrir þeirri meginreglu sem ætti að gilda. Hún getur verið einhver allt önnur, hún gæti farið eftir stærð skipa eða hvernig sem það væri. En hugmyndin er sem sagt sú að ráðh. leggi þessar meginlínur sínar fyrir í formi þáltill. til staðfestingar og að þessum meginlínum fengnum hafi hann vald á framkvæmd mátsins. Með þessu móti fær Alþingi tækifæri til að fjalla um og taka afstöðu til þess hvaða meginreglur skuli gilda um framkvæmd stjórnunar af þessu tagi varðandi kvóta á einstök fiskiskip eða skiptingu milli veiðarfæra og þess háttar.

Síðan stendur það óbreytt að hafa skuli samráð við sjútvn. Alþingis um framkvæmd á ákvæðum þessarar greinar og að nefndunum skuli gerð grein fyrir reynslu og árangri aðgerða á hverjum tíma.

Mín skoðun er sú og okkar flm. að með þessu móti verði valdaframsal Alþingis til ráðh. mun eðlilegra, að með þessu móti axli Alþingi með eðlilegum hætti ábyrgð sína, það fái upplýsingar um hvernig hugmyndin sé að framkvæma þessa stefnu í megindráttum án þess að ætla að leggja fingur sína í úthlutun á einstökum aflakvótum. Það er skoðun okkar flm. að þessi framkvæmd sé betri, bæði fyrir þingið og fyrir ráðh. Þingið stendur ábyrgt fyrir stefnumörkuninni í heild, veit hvað það er að gera og ráðh. veit hvaða stuðning hann hefur við sína framkvæmd á fiskveiðistefnunni.

Nú geta menn vitaskuld spurt. Telur þetta ekki málið, er málið ekki tapað eins og það er sett upp hér? Svarið er þetta: Ef ráðh. er tilbúinn með efni slíkrar þáltill. núna fyrir jól tel ég ekkert því til fyrirstöðu að leitast við að afgreiða hana. Ef svo er ekki gæti Alþingi gert það í janúarmánuði. Fram til þess tíma mundi ráðh. hafa fullar heimildir, þ.e. að því er varðar janúarmánuð, að samþykktum lögum með þessari breytingu til að takmarka aflamagn í janúar vegna þess að hann hefur þær heimildir í 1. málsgr. að banna veiðar eða takmarka þær eða setja hámark á þær í heild sinni. Hann hefur því vald á veiðunum með sama hætti og reyndar kannske betri hætti en áður skv. 1. og 2. málsgr. lagagr. eins og hún hljóðar nú, í janúarmánuði, þó ekki yrði tekið upp kvótakerfið í þeim mánuði.

Ég get heldur ekki séð að svo nauðsynlegt sé að kvótakerfið taki gildi 1. jan. þegar fyrir hendi eru möguleikar til að hafa þó þessa stjórn á veiðunum í janúarmánuði sem ég gat um, að ekki geti dugað að það sé tekið upp 1. febr. Enda vita menn náttúrlega að þetta er til umfjöllunar og lagaramminn liggur fyrir. Þetta hafa menn kannske óttast, en þetta er svarið að því er þetta varðar: Ráðh. getur haft mjög mikla stjórn á fiskveiðum í janúar þó að hann geti ekki verið með kvótakerfið þá skv. þessu ef þál. kemur ekki til umfjöllunar fyrr en í janúar. En að öðru leyti getur hann haft mjög mikið vald á því, meira vald en hann hefur haft að undanförnu að því er heildaraflamagn varðar.

Ég skal ekki lengja þessa umræðu frekar. Ég vænti þess, herra forseti og ágæta deild, að menn taki þessa hugmynd til alvarlegrar íhugunar og leitist við að gera upp hug sinn um það hvort hér sé ekki um betri aðferð að ræða. Það er skoðun okkar flm. Þess vegna vænti ég verulegs stuðnings við þessa brtt. eða afbrigði af henni ef menn hafa athugasemdir við hana með því að henni er ætlað að mæta þeirri megingagnrýni sem hér hefur verið höfð uppi á það form sem er í frv. eins og það er úr garði gert af hálfu ráðh. En með þessu er tekið undir að þau stjórnunartæki sem ráðh. gerir ráð fyrir eigi að fást og eigi að vera virk.