16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í þingsköpum er takmarkaður ræðutími manna til þess að fjalla um hvert mál. Þm. hafa rétt til þess að tala tvisvar við 1. umr. og tvisvar við hverja umr. þar á eftir. Við afsöluðum okkur ýmsir hér í þingsalnum við 1. umr. þeim rétti okkar að tala á nýjan leik við umræðuna, til þess að koma til samstarfs við hæstv. forseta og hæstv. ráðh. um að greiða fyrir málinu. Og við afsöluðum okkur þeim rétti í trausti þess að hæstv. ráðh. mundi samviskusamlega og sómasamlega fara í gegnum þær einstöku og mjög mikilvægu spurningar sem til hans hafði verið beint í málinu, og eru að dómi margra okkar veigamikill þáttur í því að gera upp hug okkar til þess hvaða afstöðu við höfum til frv. og þeirra brtt. sem fram hafa komið.

Nú hefur hæstv. ráðh. komið hér upp á nýjan leik og sagt að hann ætli engu við það að bæta sem hann sagði hér í sinni ræðu, m.ö.o. hann ætli ekki að svara þessum spurningum nema þær verði bornar fram á nýjan leik, eingöngu ef einstakir þm. fara að ganga á umræðurétt sinn í þinginu til að endurtaka spurningarnar fyrir hæstv. ráðh. Þar með hefur ráðh. náð því fram að skera niður umræðurétt manna í þinginu um málið til að knýja þá upp til að koma og nota helminginn af rétti sínum við þessa umr. til að endurtaka spurningarnar. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð. Það eru ekki vinnubrögð sem eru líkleg til samstarfs um framgang málsins. Og vegna þess að ég veit að í hugum margra eru svörin við þessum spurningum lykilatriðið um það hvernig menn vilja taka á málinu og hvort menn yfir höfuð vilja greiða fyrir því að málið í þeim búningi sem hér er fái framgang tel ég alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forseti veiti mönnum tækifæri til að bera saman bækur sínar utan fundar um það með hvaða hætti menn taki á því, fyrst hæstv. ráðh. hefur nú ítrekað að hann ætli ekki að veita nein svör fyrr en spurningarnar eru endurteknar hér í almennri umræðu.

Ég ítreka þess vegna ósk mína til hæstv. forseta um það að þessari umr. verði frestað. Það eru nóg önnur mál hér sem deildin getur tekið fyrir ef hæstv. forseti vill halda áfram umr. hér. Þessari umr. verði þá ekki haldið áfram á nýjan leik hér síðar í dag fyrr en mönnum hefur gefist tækifæri til að bera saman bækur sínar. Ef hæstv. forseti og ráðh. hafa áhuga á því að fá góða samvinnu við deildarmenn um þetta þá tel ég að það sé alveg óhjákvæmilegt.