16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er flutt af þeirri ástæðu að mörg helstu samtök og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa komið sér saman um að rétt sé að gera tilraun til þess að leysa þann vanda sem við stöndum nú frammi fyrir vegna minnkandi fiskafla á grundvelli þess að tekin skuli upp kvótaskipting á hvert skip í landinu og er talað um 13 tonn sem viðmiðunarmark í þeim efnum. Það er talið af þessum hagsmunaaðilum nauðsynlegt til að kanna undirtektir hér á Alþingi við þessa hugmynd að þær heimildir sem rúmast í frv. verði lögfestar. Ég hef tekið það fram áður og sé ástæðu til að gera það enn nú, að ég hefði talið að unnt væri að fara aðrar leiðir til þess að halda aflanum á næsta ári innan þeirra marka sem skynsamlegt er. Á hinn bóginn er mér líka ljóst að til þess að svo sársaukafull aðgerð farist vel úr hendi er nauðsynlegt að hún sé unnin í sem bestu samkomulagi við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Bæði sjósóknin og vinnsla sjávarafla hafa svo mikil áhrif á lífið í landinu bæði staðbundið og í heild, að ógerningur er annað, ef kostur er, en að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu og skilningi um þær aðgerðir sem farið er út í.

Ég vil taka það sérstaklega fram í þessu sambandi að hjá hagsmunaaðilum sem komið hafa á fundi sjútvn. deildanna hefur jafnan komið fram að þeir bera traust til sjútvrh. og eru ekki í vafa um að hann muni leggja sig fram um að leysa málin á þessum grundvelli svo vel sem hann getur. Það hefur einnig komið fram hjá mörgum þessara hagsmunaaðila að þeir telja nauðsynlegt að kerfið sé sveigjanlegt og að veruleg völd séu í höndum sjútvrh. af þeim sökum. En um leið er mikið lagt upp úr því að víðtækt samstarf sé haft um málið. Sést það m.a. af því að Alþýðusamband Íslands hefur séð ástæðu til að óska eftir því að fulltrúi fiskverkafólks komi inn í samstarfshópinn, sem ekki hefur áður verið þegar fjallað hefur verið um aðgerðir í fiskveiðimálum, svo mér sé kunnugt um.

Ég vil á hinn bóginn segja að eftir því sem meir hefur verið fjallað um þetta mál kemur í ljós að veiðihorfur á næsta ári eru að sumu leyti ekki jafndapurlegar og ég hafði óttast og maður gat látið sér detta í hug vegna þess hversu hitastig í sjónum hefur verið lágt og aflabrögð léleg á þessu ári.

Eins og ég hef tekið fram bæði á nefndarfundum í sjútvn. Alþingis og raunar hér áður þykir mér mjög vondur kostur að ganga frá þeim lagaheimildum sem felast í því frv. sem hér er til umr. án þess að vita meira um þær forsendur sem væntanlegt kvótakerfi verður reist á. Af þeim ástæðum fannst mér óhjákvæmilegt að láta bóka eftirfarandi í gerðabók sjútvn. Nd.:

„Ég er þeirrar skoðunar að unnt sé að fara aðrar leiðir, sem minni röskun og mismunun valda en kvótakerfið, til þess að draga úr sókn fiskiskipa í þá fiskstofna sem ofveiddir hafa verið og vísa til ályktunar Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda frá 13. des. s.l. í því sambandi. Á þessari stundu hefur ekki verið gengið frá forsendum kvótaskiptingar, útfærslu hennar né framkvæmdaatriðum. Af þeim sökum er ekki hægt að meta hvaða svigrúm kvótakerfið gefur í afbrigðilegum tilvikum né hvernig þau byggðarlög koma til með að standa, þar sem aflabrestur hefur verið tilfinnanlegastur á undanförnum misserum.

Á hinn bóginn virðast helstu hagsmunasamtök sjávarútvegsins önnur en Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda vilja reyna þessa leið, sem veldur því að ég mun greiða fyrir framgangi málsins, enda verður sársaukafullum aðgerðum til að draga úr sókn naumast beitt með árangri án slíkrar samstöðu.

Ég legg áherslu á að þessi tilraun sé aðeins gerð til eins árs. Framhaldið hlýtur að ráðast af þeirri reynslu sem þá verður fengin. Raunhæfasta leiðin til að mæta þeim vanda sem nú blasir við vegna aflabrests í þorskveiðum, sem við sjáum ekki fram úr, er að auka rannsóknir á landgrunninu með það fyrir augum að finna nýtanlega fisk- og skelfiskstofna og að huga betur að gæðum þess fisks sem komið er með að landi.“

Þetta er sú bókun sem ég lét færa inn í gerðabók sjútvn. Nd.

Eins og fram hefur komið í ræðu hv. 6. þm. Reykv., Guðmundar H. Garðarssonar, er samþykkt þessa frv. fyrsta skrefið í þá átt að skipta með valdboði, getum við sagt, öllum þeim gæðum sem sjórinn býr yfir eða gefur okkur á næsta ári. Þetta er auðvitað mjög stórt skref og ég held að allir þm. og raunar hagsmunaaðilar geri sér grein fyrir því, að á þessari stundu er ógjörningur að segja til um það hvort þessi tilraun tekst, að koma saman kvótakerfi um fiskveiðar á næsta ári, þannig að sæmileg samstaða náist um það. Til þess er of mörgum spurningum ósvarað.

Ég vil þar í fyrsta lagi nefna að talað hefur verið um að loðnuveiðiskip hafi ekki þorskveiðileyfi á næsta ári. Mér er sagt að það hafi verið skilyrði fyrir loðnuveiðileyfi nú í haust. Ef það er misskilningur, þá er hitt víst, að sú hugmynd hefur komið fram.

Ég hygg að 51 skip sé með loðnuveiðileyfi nú. Af þeim voru 47 að þorskveiðum á þessu ári og nemur heildaraflamagn þessara skipa 37 þús. tonnum. Þar af er þorskur 20.5 þús. tonn.

Ég vil einnig benda á það, að á þessari stundu hafa menn ekki gert sér grein fyrir hversu langur tími það er sem einstök skip hafa haft ýmsar frátafir, sem menn hafa hugsað sér að bæta upp með einhverjum tilteknum hætti, og um sérstakar ástæður getur verið að ræða hjá enn fleiri skipum.

Ég vil enn fremur vekja athygli á þeim sérstaka vanda sem við stöndum nú frammi fyrir, ef hugmyndin er að setja sjávaraflann í kvóta og skipta honum á einstök skip, að gert er ráð fyrir um 70 þús. tonna samdrætti í þorski, en mjög óverulegar breytingar borið saman við þetta eru á öðrum fisktegundum. Þetta hlýtur auðvitað að valda því, að ógjörningur er annað en að meta sjávarafla til verðs með einum eða öðrum hætti. Hætt er við að samkomulag um hversu mikils virði ein fisktegund sé borið saman við aðra sé langt undan þegar þess er gætt, að það fer mjög eftir landsfjórðungum hver samsetning aflans er. Þarna er auðvitað um mjög viðkvæmt mat að ræða sem mér er ekki kunnugt um að enn hafi verið gerð nein tilraun til að nálgast endanlega lausn á.

Ég vil enn fremur benda á það, að í þeim hugmyndum sem fram hafa komið hafa ýmsir látið sér detta í hug að úthafsrækjuveiði sé almenningur opinn öllum og standi utan við kvótaskiptingu á einstök skip. Á hinn bóginn hljóta þau skip sem stundað hafa rækjuveiði á s.l. árum að fá minni úthlutun á botnfiskkvóta af þeim sökum. Þá vaknar náttúrlega sú spurning í því sambandi hvernig taka eigi á slíkum vanda: Er þá ekki nauðsynlegt að ákveða þessum skipum einhvern ákveðinn þorskkvóta þann tíma sem þau voru á rækjunni, ef þau eiga ekki að hafa meiri rétt en önnur skip til að stunda slíkar veiðar á næsta ári?

Ég geri líka ráð fyrir því, að mjög mikill þungi komi frá ýmsum loðnuveiðiskipum að komast á rækjuveiðar ef botnfiskveiðar verða takmarkaðar fyrir þau, en á s.l. ári stunduðu fjögur loðnuveiðiskip rækjuveiðar.

Við sjáum fljótt ef við íhugum hinar ólíku aðstæður, sem landshlutarnir, einstök fyrirtæki, ég vil segja einstakir menn, sem vinna við þessa atvinnugrein, sjávarútveg, standa frammi fyrir, að það verk sem lagt er á hendur sjútvrh. með samþykkt þessa frv. er nær óvinnandi. Þær kröfur sem til hans eru gerðar um úrlausn þessa verkefnis eru yfirmannlegar. Og ég vil enn ítreka að ég ber fullt traust til hans. Að öðrum kosti hefði ég ekki verið reiðubúinn til þess að greiða fyrir þessu frv.

Ég geri ráð fyrir að ýmsum finnist sá tónn sem í mér er til kvótakerfis svo neikvæður að óskiljanlegt geti talist að ég skuli treysta mér til að greiða atkv. með frv. En þá er þessu til að svara: Þetta frv. er kannske eitt hið mikilvægasta sem lagt verður fyrir þetta þing. Í því felst heimild til aðila sjávarútvegsins til þess að reyna að leysa fiskveiðivandann á grundvelli kvótakerfisins. Jafnmikil áhersla og lögð hefur verið á þetta í þeim röðum er óeðlilegt annað en að þeim sé gefið svigrúm til að ljúka því verki. Það verður síðan að koma í ljós hvort það tekst eða ekki.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn. kom það sjónarmið fram í nefndinni að nauðsynlegt væri að aflakvótar yrðu hreyfanlegir milli skipa, bæði af hagkvæmniástæðum og ef skip væru seld úr landi eða féllu út af skipaskrá. Ég vil leggja mikla áherslu á þýðingu þessa.

Ég held að flestir alþm. séu um það sammála að höfuðógæfa okkar í fiskveiðum sé sú, að fjárfesting hefur verið of mikil og hömlulaus, að skipin eru orðin of mörg, miðað við þann afrakstur sem hafsvæðin í kringum landið hafa gefið af sér, miðað við þær nytjar sem við höfum fram að þessu haft af því. Og sumir telja raunar að skynsamlegasta og eðlilegasta leiðin hefði verið sú, að leggja svo og svo mörgum skipum. Engan hef ég heyrt halda því fram að skynsamlegt væri að fjölga skipum, en það sýnir í raun og veru að um þetta er breið samstaða.

Ég held þess vegna að um leið og gengið er frá þessu kvótakerfi sé nauðsynlegt að hafa inni í því innbyggðan hvata í þá veru, að menn fækki skipum ef svo stendur á, án þess að það bitni á þeim byggðarlögum þar sem skipin eru á næsta ári. Við verðum að athuga það, að kvótinn setur mönnum ákveðin framleiðslumörk sem ekki verður vikið frá. Þess vegna tel ég að þetta sé mjög brýnt.

Um leið vil ég vekja athygli á því, að margir alþm. sem hafa látið í sér heyra eru hræddari við þennan hreyfanleika kvótans en sú samstarfsnefnd, ráðgjafarnefnd um sjávarútvegsmál, er sem skipuð hefur verið. En um þau efni segir hún, þegar hún talar um nauðsynlegar lagaheimildir vegna stjórnunar fiskveiða, að slík löggjöf eigi að rúma þetta: „Heimilt sé að flytja úthlutað aflamark milli skipa að hluta til eða að öllu leyti, eftir því sem hlutaðeigendur koma sér saman um, en slíkur flutningur verði tilkynntur sjútvrn. þegar í stað.“

Þarna er þetta sem sagt haft mjög frjálst. Það eru hagsmunaaðilar sjávarútvegsins sem þar tala og ég held að menn eigi ekki að vera fyrir fram með fordóma í þessum efnum heldur taka það til velviljaðrar athugunar, hvort ekki sé hægt að verða við því. Erlendis tíðkast það a.m.k. í Noregi að skip séu seld ýmist með eða án kvóta. Aflakvótinn er ávísun á verðmæti, og forsendan fyrir því, að maður treysti sér til að gefa eftir sinn aflakvóta getur undir vissum kringumstæðum verið sú, að hann fái fyrir það nokkurt fé og sé þó beggja hagur. Um þetta er hægt að hafa mörg orð, en ég held að alþm. megi ekki vera skelkaðir þegar þeir heyra talað um það að menn eigi að fá greitt fyrir verðmæti sem þeir láta af hendi.

Sjútvn. Alþingis barst erindi frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda sem ég tel rétt að komi í þingtíðindum. Ég ætla að lesa það með leyfi hæstv. forseta:

„Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda mótmætir harðlega fram komnum hugmyndum um kvóta á fiskveiðar á árinu 1984. Í þessu sambandi vill félagið benda á eftirfarandi atriði:

1. Óeðlilegt er að leggja eingöngu til grundvallar aflamagn og aflasamsetningu hvers skips s.l. þrjú ár. Á þessum tíma hefur orðið mikill tilflutningur skipa milli útgerðaraðila, landshluta og verstöðva og samkv. þessari reglu er ekkert tillit tekið til breytingar útgerðarhátta og aðstöðu þeirra skipa sem svo háttar til um.

2. Ekkert tillit er tekið til breytinga á skipsstjórn einstakra skipa né áhafna.

3. Ekkert tillit er tekið til veigamikilla breytinga á fjölmörgum skipum í þeim tilgangi að auka aflahæfni þeirra og kostað hefur verið stórfé til.

4. Ljóst er að þau skip sem hafa stundað siglingar í einhverjum mæli á undanförnum árum og hafa þar af leiðandi verið fjarri veiðum um langan tíma og hafa minni ársafla en skip, sem landað hafa heima, munu ekki geta haldið því áfram í sama mæli vegna aukinnar ásóknar annarra skipa í siglingar og breyttra reglna þar um.

5. Í þeim tillögum sem uppi eru er ekkert tillit tekið til gæða þess afla, sem einstök skip hafa lagt á land, heldur eingöngu farið eftir magni.

6. Þau skip sem fá úthlutað litlum aflakvóta verða nánast verðtaus.

Með tilliti til framanritaðra atriða og fjölmargra fleiri annmarka á tillögunum leggur Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda til að ákvörðun um kvótakerfi verði frestað og að veiðum næsta árs verði stjórnað með auknum veiðitakmörkunum. Enn fremur að árið 1984 verði notað til að skoða og útfæra fleiri kosti.“

Undir þetta bréf ritar Þórhallur Helgason, formaður Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að hafa um þetta fleiri orð. Það er eftirtektarvert að stjórnarandstaðan virðist sem heild vera á þeirri skoðun að þessi tilraun skuli gerð, að farið skuli út í kvótakerfið við stýringu fiskveiða á næsta ári, og þær brtt. sem fram hafa komið eru frá hennar sjónarmiði eðlilegar. Ég skil þær vel, en þær breyta í mínum huga ekki miklu um niðurstöðu málsins, þar sem fyrir liggur að ekki verði í þetta ráðist nema að höfðu mjög nánu samkomulagi við hagsmunaaðila og sjútvn., þannig að þingið verður að þessu leyti ekki sniðgengið.

Á þetta vil ég leggja mikla áherslu og svo að síðustu einnig hitt, að ég treysti mér ekki til að mæla með annarri leið hér á Alþingi en þeirri, sem hagsmunaaðilar sjávarútvegsins sjálfir vilja fara, þó ég sjálfur hefði kosið að öðruvísi yrði staðið að málum. Ég beygi mig sem sagt fyrir því, þar sem ég veit að góð samvinna og gott samstarf þar á milli er lykillinn að því að þetta mál leysist farsællega og að friður takist um þær sársaukafullu aðgerðir sem óhjákvæmilegar eru eins og sakir standa.