16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæti hér fyrir brtt. við frv. til l. um verðjöfnunargjald sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni. Hún er á þá leið að framan við 1. gr. bætist: Í stað „19%“ í 1. mgr. 1. gr. komi: 12%.

Frsm. nefndi tölur frá seinustu árum um það hversu miklu þetta verðjöfnunargjald hefði skilað í tekjum umfram áætlun. Skv. þeim upplýsingum skilaði þetta gjald 33.5 millj. umfram áætlun á árinu 1982, 146 millj. umfram áætlun á árinu 1983 og skv. upplýsingum sem fram komu við umr. um fjárlög er ætlað að það muni nú skila 136 millj. umfram áætlun fjárlaga 1984. M.ö.o.: með 19% álagningu á raforkuverði til heimilisnotenda mun gjaldið gefa af sér 376 millj., en áætlun fjárlaga nemur 240 millj.

Í tilefni af þessu er tveggja kosta völ. Annars vegar að taka mið af áætlun fjárlaga um tekjustofninn og lækka þá álagningarprósentuna, eins og þessi brtt. felur í sér, eða það kæmi til greina að flytja sérstaka till. um með hverjum hætti þessi raunhæfa áætlun um umframtekjur yrði þá nýtt. Hér er sú leið valin að lækka fremur raforkuverð til heimila og vísa ég af því tilefni til þeirra ummæla frsm. að hann sagði að raforkuverðið væri vissulega nógu hátt nú og vitnaði jafnframt til boðaðra aðgerða hæstv. iðnrh. um að endurskoða þetta gjald síðar meir með það fyrir augum að lækka það eða afnema.