16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Verðjöfnunargjald af raforku er gamall kunningi og árlega kemur fyrir hv. Alþingi frv. um framlengingu þess gjalds. Ég hef ávallt haft uppi miklar efasemdir um gjaldið og reyndar verið andvígur því í því formi sem það hefur verið lagt á, enda gjaldið meingallað.

Ég held að gallar þess séu æ skýrar að koma í ljós. Í fyrsta lagi má benda á að þetta nafn, verðjöfnunargjald, er ekki rétt, eins og reynslan hefur sýnt. Þetta gjald leggst sem hlutfall ofan á rafmagnstaxta þannig að þeir gjaldendur sem hæsta rafmagnsverðið bera borga hæsta verðjöfnunargjaldið. Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða njóta þessara tekna, en það hefur verið upplýst að taxtar t.d. RARIK eru lægri en taxtar ýmissa rafveitna sem þetta gjald greiða. Sem dæmi má nefna, að ef miðað er við gjaldskrár vegna heimilisnotkunar þann 1. ágúst 1983 hafa ýmsar rafveitur hærri gjaldskrá í heimilisnotkun en Rafmagnsveitur ríkisins og má þar til nefna Eyrarbakka, Hveragerði, Selfoss, Stokkseyri, Sandgerði, Keflavík, Garð, Grindavík, Njarðvík og Vatnsleysu, svo að eitthvað sé nefnt. Ef einnig er athugað meðalverð í smásölu fyrir árið 1982 og borið saman hvernig taxtar hinna ýmsu rafveitna koma út miðað við taxta Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða kemur reyndar í ljós að flestar rafveitur, nema fjórar á landinu, þ.e. Reykjavík, Stokkseyri, Borgarnes og Akureyri, hafa hærri taxta en Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Þannig er ljóst að þó að þetta verðjöfnunargjald hafi áhrif í þá átt að lækka taxta RARIK og Orkubús Vestfjarða hefur það ekki verðjöfnunaráhrif að því er aðrar rafveitur snertir, nema síður sé.

Ég vil einnig benda á að Samband ísl. rafveitna hefur ávallt verið andvígt þessu gjaldi og hefur reyndar lagt fram till. til breytinga á gjaldinu sem þarf að taka til athugunar. Í stórum dráttum leggur það til að gjaldið verði í formi fastrar krónutölu, en ég skal ekki nánar skýra þær till. út.

Auk þess má benda á að sú mikla skattlagning á orku sem tíðkast hjá okkur Íslendingum, 19% í verðjöfnunargjald og 23% í söluskatt, gerir það að verkum að samkeppnisstaða iðnaðar, ekki síst iðnaðar sem notar mikla orku, er að þessu leyti lakari en hjá iðnaði ýmissa annarra þjóða. Þó að orka sé skattlögð að einhverju leyti hjá ýmsum öðrum þjóðum keyrir alveg úr hófi hjá okkur Íslendingum að því leyti, þannig að íslenskur iðnaður situr við lakara borð en iðnaður ýmissa annarra þjóða sem við eigum í samkeppni við.

Ég vil einnig benda á að komið hafa fram ýmsir agnúar í framkvæmd þessarar álagningar. Húshitun er t.d. undanþegin álagningu verðjöfnunargjalds, en rafhitun í iðnaði greiðir t.d. fullt verðjöfnunargjald. Nefna má að dæling í hitaveitum greiðir fullt verðjöfnunargjald, en þegar þessi dæling er innan sama fyrirtækis, eins og t.d. hjá Orkubúi Vestfjarða, er ekki greitt af því verðjöfnunargjald. Þá greiða skip í höfnum, sem nota rafmagn oft til upphitunar, einnig fullt verðjöfnunargjald.

Af þessum ástæðum m.a. hef ég ávallt mælt gegn þessu gjaldi þegar það hefur verið til umr. á hv. Alþingi. Ég hef hins vegar ekki hingað til treyst mér til að bregða fæti fyrir gjaldið með því að greiða atkv. gegn því hér á hinu háa Alþingi. Ástæðan er sú, að frv. í þessa veru hafa ávallt komið fram hér á síðustu stundu og ég geri mér grein fyrir því að verðjöfnunargjaldið er mjög mikilvægur þáttur í tekjuöflun RARIK og Orkubús Vestfjarða. Þess vegna hef ég ekki viljað stefna fjárhag þeirra í hættu.

Ég vil þess vegna af augljósum ástæðum ekki vera harðari við flokksbróður minn, hæstv. núv. iðnrh., en ég var við fyrrv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson að þessu leyti og treysti mér því ekki til að bregða fæti fyrir að þetta gjald verði lagt á að þessu sinni. En ég hef ásamt tveimur öðrum þm., þ.e. hv. þm. Friðriki Sophussyni og Gunnari G. Schram, undirritað nál. með fyrirvara. Það gerum við ekki síst vegna mjög ákveðinnar og eindreginnar yfirlýsingar sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. þegar hann mælti fyrir þessu gjaldi í framsöguræðu og sagði að hann mundi undirbúa a.m.k. áfangalækkun þessa gjalds og e.t.v. niðurfellingu, m.a. með breyttum álagningarreglum, jafnframt því sem rekstrarafkoma Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og annarra raforkufyrirtækja í landinu verði tryggð. Í trausti þess að sú yfirlýsing komi til framkvæmda sem allra fyrst, þ.e. hafinn verði undirbúningur sem allra fyrst að þessari endurskoðun, mun ég greiða atkv. með frv., en vildi gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við þetta mál.