16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af því sem hv. 3. þm. Reykn. sagði endurtaka yfirlýsingu mína um það, að ég mun beita mér fyrir að lög um orkujöfnunargjaldið, sem nú er til umr., verði endurskoðuð í því augnamiði í fyrsta lagi að fella það niður ef tök eru á, en í öðru lagi að breyta því og lækka eftir nýjum álagningarreglum, réttlátari en þær sem nú gilda, sem m.a. hann hefur sýnt fram á að taka engu tali í framkvæmd eins og nú er komið sögu.

Ég mun leggja fram frv. um orkujöfnunargjald, jöfnun húshitunarkostnaðar, í upphafi framhaldsþings eftir áramót. Ég hygg að þær lagareglur sem þar verða fluttar fram muni einnig snerta þessar aðferðir og þessa gjaldtöku, ég vænti þess. Fyrir þessu mun ég beita mér. Á þessari stundu get ég ekki tekið annað fram, en minni á að engu þessu verður breytt í átt til linunar skattlagningar nema við í leiðinni sjáum fyrir fjárhag orkuveitustofnana okkar í landinu. Það má líka vera ljóst.

Það er trú mín að við getum fundið bærilegri leið í þessu efni en við höfum búið við um hríð, en eins og nú er komið mátum, þar sem húshitunarkostnaður er að stiga fjölda heimila í landinu, verður að leiða til linunar á þeim óbærilegu byrðum. Einnegin verður það að bera það í skauti sínu, á því er enginn vafi. En ég held að menn geri sér grein fyrir að á þessu verður að ráða bót og finna nýjar leiðir þar sem þó alls er gætt, afkomu orkuveitustofnunar og afkomu heimilanna.