16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Er nú ekki skynsamlegast að bíða þar til hv. sjútvn. hefur um þetta mál fjallað áður en fram er haldið umr.? Ég sé þá ekki hvaða tilgangi þjónar að samþykkja nú að halda fund kl. 12 á miðnætti í n. Ég vona að það sé ekki einhver málamyndafundur sem eigi að halda svona rétt til að geta sagt að fundur hafi verið haldinn. Það leysir engan vanda. (Gripið fram í: Garðar verður þar.) Já, hann verður þar, það er atveg rétt. En það skiptir mestu máli að yfirsýn og viska allra þeirra sem í n. eru fái að ráða í þessum efnum, ef menn hafa áhuga á því að málið nái fram að ganga. Það gef ég sagt hér, og það hlýtur hver maður að sjá og veit ég að hæstv. iðnrh. er þar fremstur í flokki, að málamyndafundur í n. nú á miðnætti er eins og hvert annað grín. Það þjónar engri lausn í þessu máli. (Gripið fram í: Af hverju berst þú gegn foringja þínum?) Ja, — ég á þá svo marga hér í salnum. Aðalforingi minn í þessu máli er eiginlega Guðmundur H. Garðarsson.

Ef hæstv. forseti vill stuðla að því að eðlileg málsmeðferð verði, sem ég veit að hæstv. forseti hefur sýnt hvað eftir annað að hann kýs, er langæskilegast að hv. sjútvn. fái nóttina og snemma morguns til að fjalla um málið og við aðrir dm. getum síðan áttað okkur á þeirri niðurstöðu. En að fara að kalla n. saman klukkan tólf og ætla sér að halda umr. áfram á meðan þjónar engum tilgangi og leysir ekki þetta mál. Það get ég sagt mönnum. (Gripið fram í: Það mætti tala um fundarstjórn á meðan.) Það má tala um ýmislegt á meðan, já, já. — Ég held að það þjóni ekki neinum tilgangi, það er bara leikaraskapur. Við skulum taka á þessu máli af viti, við skulum slíta þessum fundi fljótlega, gefa sjútvn. tækifæri til að átta sig á málinu í nótt og snemma morguns og svo getum við komið á nýjum degi ferskir til að takast á við þetta mál af sæmilegu viti og þannig að það geti haft eðlilegan framgang hér í umr.