16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Við sem höfum verið að vinna að því hér í dag að greiða fyrir framgangi þessara umr. höfum talið það meginforsendu þess að árangur næðist að viðræður færu fram milli sjútvn. og þeirra sem eru á nokkuð annarri skoðun en meiri hl. sjútvn. Mig langar þess vegna að spyrjast fyrir um það hjá formanni sjútvn. — Má ég sjá þetta plagg aðeins. (Gripið fram í: Já, ég ætla að leiðrétta smávegis.) Leiðrétta hvað? (Gripið fram í: Ég ætla að leiðrétta.) Er það „áður en þing kemur saman“? Er það það? (Gripið fram í: Já, þegar þing kemur saman.) Hafa það þannig? (Gripið fram í: Já.) Er nokkur merkingarmunur á? (Gripið fram í: Aðeins munur.) Já. Það er rétt að meiri hl. nefndarinnar fái tækifæri til að ganga frá þessu í réttum búningi. (Gripið fram í: Efnisatriði skipta ekki máli.)

Formaður nefndarinnar var önnum kafinn við annað, en ég ætlaði að beina mínum spurningum til hans. Venjan hefur verið sú hér í þinginu, a.m.k. það sem ég þekki til, að þegar reynt er að halda nefndarfundi inni í umr. eða milli umr. til að ná samkomulagi um mál, og það var tilgangur þessa fundar, sé reynt að ná samkomutagi um mál, en ekki kannske fyrst og fremst að meiri hl. nefndarinnar ítreki sínar skoðanir. Það vissu allir að þeir eru traustir fylgismenn eigin skoðana. (Forseti: Hefur þm. eitthvað að athuga við þingsköp?) Já, ég er að koma að því, herra forseti.

Það sem ég hef að athuga við þingsköp er það, að það virtist greinilega koma fram hjá formanni sjútvn. að sjútvn. hefði enga tilraun gert til að ræða við þá flm. þessara till. sem ekki eru í nefndinni. Þeir sem flytja brtt. á öðru þskj., þrír þm., eru ekki í nefndinni og einn af þeim sem eru á hinu þskj. eða tveir eru ekki heldur í nefndinni. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm. Stefán Guðmundsson, áður en haldið verður áfram hér umr., hvort það sé rétt skilið að ekki hafi verið rætt við þessa hv. þm., þeir hafi ekki verið kallaðir til viðræðna við nefndina, og spyrja hvernig standi þá á því að það var ekki gert, ef sá skilningur er réttur.