16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég mun ekki verða langorður í þessari umr. Ég leyfi mér að vísa til þeirrar ræðu minnar sem ég flutti hér við 1. umr. um helstu efnisatriði og afstöðu mína til þeirra. Ýmislegt hefur skýrst í umr. um fram komið frv. Einnig hefur það komið fram í máli manna að menn gera sér betur grein fyrir því núna en í upphafi umr. um þetta mál, að það er mjög viðamikið og margbrotið og hefði vissulega verið þörf á því að þetta frv. hefði komið fyrr fram á þinginu, svo að það hefði fengið góðan tíma og góða umfjöllun. (GSig: Best að fá það í fyrra.) Ég held að hv. þm. Garðar Sigurðsson ætti að sitja á sér og leyfa mönnum að tala hér a.m.k. meðan þeir eru í ræðustóll. Ég kann ekki við það, hv. þm., að menn fjalli um þetta sem gamanmál. Ég er ekki viss um að sumir umbjóðenda þinna mundu fagna því. En það er náttúrlega þitt mál og þeirra.

Hér hafa í dag verið kynnt álit nokkurra umsagnaraðila, og það hefur verið vitnað til þess að fulltrúar hagsmunasamtaka hafi skýrt hv. sjávarútvegsnefndum frá skoðunum ákveðinna hagsmunasamtaka, og ég vil segja stundum nokkuð langt seilst í þeim efnum, því að vitað er að sumir þeirra sem komu á nefndarfundi og töluðu þar undirstrikuðu það að þeir töluðu þar í persónulegu umboði en ekki í umboði samtaka. (Gripið fram í.) Ég sat nú ekki nefndarfundi en ég hef ástæðu til að halda það, vegna þess að ég er ráðgjafi einna samtaka í þessum mátum, hagsmunasamtaka sem kusu ekki sína menn til að fjalla um þetta fyrr en í dag. Og einn af þeim er í þeirri nefnd sem kom á fund til ykkar.

En hvað sem því líður þá hafa ekki allar umsagnir verið lagðar hér fram, þrátt fyrir þann nefndarfund sem haldinn var hérna rétt áðan, og harma ég það að sjálfsögðu. Ég fékk í dag afrit af umsögn eins aðila sem ekki hefur verið kynnt hér í hv. þingi og kann ég ekki skýringu á því hvers vegna þessi umsögn hefur ekki verið lesin upp. Ég ætla að leyfa mér að lesa umsögn þessa aðila hér upp, með sérstöku tilliti til þess að innan þeirra samtaka sem gefur þessa umsögn eru nokkur af stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi, sem eru í einkaeign, — ég undirstrika það, sem eru í einkaeign. Þessi umsögn er frá Verslunarráði Íslands. Hún er dags. 16. des. 1983 og stíluð til formanns sjútvn. Nd., hr. Stefáns Guðmundssonar, Alþingi, Reykjavík. Ég vona að hv. þm. hafi fengið þessa umsögn því ég vil ekki trúa því að óreyndu, að Verslunarráðið, sem er höfuðvígi einkaframtaksins á Íslandi, njóti ekki sama réttar á hv. Alþingi eins og önnur hagsmunasamtök. Þessi umsögn er svohljóðandi:

„Verslunarráð Íslands hefur að undanförnu haft til athugunar frv. til l. um breyting á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 frá 28. maí 1981.

Frv. gerir m.a. ráð fyrir að sjútvrh. sé veitt víðtæk heimild til að skammta aflakvóta á skip fyrir botnfiskveiðar. Verslunarráðið er í grundvallaratriðum á móti þeirri aðferð við stjórn fiskveiða, þar sem hún tryggir ekki að hagkvæmustu útgerðirnar og fengsælustu áhafnir skipa fái að njóta sín. Verslunarráðinu er ljóst að nauðsynlegt er að grípa til aðgerða við stjórn fiskveiða með tilliti til ástands helstu nytjastofna á Íslandsmiðum og horfa um veiðar á næsta ári. Verslunarráðið tetur þó að ekki sé hægt að afgreiða mál af þessu tagi fyrr en fyrir liggja upplýsingar um afkomu útgerðar og fiskvinnslu nú og hver rekstursstaðan verður eftir að fyrirhuguðu stjórnunarfyrirkomutagi hefur verið komið á, miðað við rekstrarforsendur og áætlaðan afla á skip.

Stjórnun fiskveiða þarf að ákveða með hliðsjón af því að vel rekin fyrirtæki í sjávarútvegi hafi rekstrargrundvöll til lengri tíma litið. Þar sem slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi leggur Verslunarráðið til að afgreiðslu frv. verði frestað fram yfir áramót. Gæfist þá ráðrúm til að undirbúa málið betur.

Varðandi einstök efnisatriði frv. vill Verslunarráðið koma eftirfarandi á framfæri:

1. Í jafnveigamiklu og viðkvæmu máli er óeðlilegt að úthlutun aflakvóta á hvert skip sé í höndum eins ráðh. Eðlilegra væri að ríkisstj. í heild stæði að ákvörðuninni.

2. Ef aflakvótar á skip verða teknir upp þyrfti að vera hægt að selja þá á frjálsum markaði án afskipta stjórnvalda, með því skilyrði þó að komið verði í veg fyrir samkeppnishömlur, m.a. að fé úr óskyldum atvinnurekstri eða sveitarsjóðum verði notað til að kaupa upp veiðikvótann.

3. Við úthlutun aflakvóta verði arðsemissjónarmið látin ráða.

4. Útgerð skipa verði tryggður áfrýjunarréttur til óvilhallra aðila ef ástæða er til að ætla að réttur einstakra skipa hafi verið fyrir borð borinn. Verslunarráðið vill að síðustu ítreka andstöðu sína við þetta fyrirkomulag og óska eftir því að afgreiðslu frv. verði frestað.“

Undir þetta ritar framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands.

Ég taldi rétt að þingheimur fengi að heyra þessa umsögn. Þetta er umsögn frá samtökum sem mörg af stærstu einkafyrirtækjum á Íslandi í útgerð og fiskiðnaði eru aðilar að, m.a. er sá aðili sem er nú stærstur í útflutningi frystra sjávarafurða, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, aðill að Verslunarráði Íslands. Þá vek ég athygli á því að í þeirri ráðgjafarnefnd sem skipuð var á sínum tíma er fulltrúi frá sjávarafurðadeild SÍS.

Þetta er sagt hér til áréttingar. (Gripið fram í.) Þessi ráðgjafarnefnd mun vera mynduð þannig að ráðh. tilnefnir ákveðna persónu og það vill svo til að það er fulltrúi sjávarafurðadeildarinnar sem er þar með tilliti til fiskverkunar. En það er kannske ekki aðalmálið.

Ég geri mér grein fyrir því af fenginni reynslu að þetta frv. er fram komið vegna þess að um það hefur orðið samkomulag af hálfu þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn á Íslandi. Það mun vera borið fram af hálfu ráðh. sem stjfrv. En hvað sem því líður hefur það alltaf verið venja á Alþingi Íslendinga að menn væru frjálsir að því að tjá sig um mál á þingi og einnig taka afstöðu samkv. sannfæringu sinni og samvisku. Ég vil aðeins segja það að ég er í flokki allra stétta, Sjálfstfl. Ég væri ekki í þeim flokki ef sá flokkur hefði það ekki sem grundvallaratriði að maður skuli vera frjáls og óbundinn. Sjálfstfl. er ekki klíkuflokkur í heildina séð. Auðvitað eru hópar, sem bindast samtökum innan flokksins, en flokkurinn sem slíkur er fjöldaflokkur þar sem menn eru mjög frjálsir, ég vil segja alfrjálsir, því að annars ættu þeir ekki erindi í þann flokk. Þar skilur á milli Sjálfstfl. og annarra flokka að mínu mati. Þess vegna mun ég, þegar kemur að því að afgreiða þetta frv., auðvitað breyta samkv. þessari meginreglu í pólitískri afstöðu minni.

Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið eðlilegast að fresta afgreiðslu þessa máls þangað til þing kemur saman í jan. n.k. svo að svigrúm hefði gefist til að gera öllum meginatriðum þess mun betri skil. En með tilliti til þess hvaða afgreiðslu þetta mál mun að öllum líkindum fá hér í hv. þingi vil ég gefa eftirfarandi yfirlýsingu um afstöðu mína þegar kemur til atkvgr.: Þar sem ekki liggja fyrir nauðsynleg frumgögn né fastmótaðar hugmyndir um hugsanlega útfærslu veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands samkv. framlögðu frv., 143. máli, þrátt fyrir miklar umr. á Alþingi og eindregnar óskir margra hv. alþm. þar um, og þar sem ekki liggur fyrir hvernig leysa skuli gífurleg óleyst rekstrarvandamál útgerðarinnar, sem munu verða enn meiri við kvótakerfi í veiðum, þá get ég ekki á þessu stigi veitt þessu frv. brautargengi og mun haga atkv. mínu skv. því, með tilliti til þess og einstakra greina frv.