17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Þar eð ég var fjarstaddur afgreiðslu þessa máls vegna veikinda vil ég aðeins að fram komi að ég fylgi meiri hl. að málum og legg til að frv. verði samþykkt.

Auðvitað mætti flytja langt mál um þetta, bæði almennt um þessi mál, um þessa byggingu og um þann rökstuðning sem að baki býr. Um bygginguna vil ég aðeins segja að ég held að það hafi býsna mikla þýðingu fyrir landið eins og nú er komið að hafa eðlilega flugstöðvarbyggingu á eina alþjóðaflugvellinum sem við höfum. Flugstöðvarbyggingin sem nú er þar er náttúrlega á engan hátt boðleg eins og hér hefur verið réttilega bent á af hv. þm. Eiði Guðnasyni. Ég get almennt tekið undir hans orð í sambandi við þetta mál.

Það sem ég vildi sérstaklega taka fram í þessu efni er að Framsfl. hefur frá fyrstu tíð verið þeirrar skoðunar að á meðan talið er nauðsynlegt að hafa varnarlið hér í landinu skuli allt gert sem hægt er til að einangra það eins og unnt er. Þess vegna beitti Framsfl. sér fyrir því á árunum 1953–1956 að aðgreina meðferð mála sem snerta samningssvæði varnarliðsins — en það eru kölluð samningssvæði þar sem varnarliðið hefur umsvif á — frá öðrum málum og setja þau undir utanrrn. í sérstakri stjórnardeild.

Á þeim árum var einnig ákveðið að erlendir verktakar sem stóðu fyrir byggingarframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli hyrfu úr landi og Íslendingar tækju þessi mál alfarið að sér. Þá var og ákveðið á þessum árum að radarstöðvarnar fjórar sem þá voru byggðar skyldu vera einangraðar. Þær hafa verið það alla tíð og mér er ekki kunnugt um að í raun og veru hafi sú sambúð valdið neinum erfiðleikum. Teknar voru upp allstrangar reglur, ég vil segja mjög strangar reglur um takmarkanir á ferðum varnarliðsmanna út af Keflavíkurflugvelli og úr radarstöðvunum.

Að mati okkar framsóknarmanna er einn þáttur þessa flugstöðvarmáts alveg sérstaklega þýðingarmikill, þ.e. að aðgreina almenna flugið frá varnarliðinu þannig að varnarliðið hafi sína flugstöð, sína afgreiðslu með sínum málum alveg sér en Íslendingar hafi sína flugstöð atgerlega aðgreinda frá starfsemi varnarliðsins.

Við teljum kannske þetta að mörgu leyti þýðingarmesta þáttinn í málinu þó að margt fleira komi þar til eins og t.d. það að flugstöðin núna er í raun og veru engan veginn forsvaranleg. Gerum t.d. ráð fyrir, eins og stundum kemur fyrir, að það komi kannske tvær eða þrjár stórar farþegaflugvélar sem af einhverjum ástæðum verði að lenda á Keflavíkurflugvelli að vetri til. Þá koma fleiri hundruð manna í flugstöðina, 4–700 manns í einu. Þá er þessi aðstaða engan veginn forsvaranleg. Þetta vita allir sem þekkja til og margt mætti tína til í þessu efni. En ég skal ekki lengja mál mitt, aðeins staðfesta það að ég er fylgjandi því að frv. nái fram að ganga.