17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Auðvitað má gera ráð fyrir að miklar umr. verði um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli því þetta mál er búið að velkjast fyrir Alþingi og ríkisstjórnum í áraraðir. Það er vissulega há upphæð sem fyrirhugað er að taka að láni og það sker í augu nú þegar verið er að skera niður alla skapaða hluti. En þetta hefðum við getað verið búin að gera þegar betur áraði og þá hefðum við ekki staðið frammi fyrir þessu nú.

Ég vil sérstaklega benda á að Alþb. hefur staðið í vegi fyrir því að þessar framkvæmdir yrðu hafnar. Þó hafa þeir ekki metið þessa byggingu þess virði að hætta þátttöku í ríkisstj., þeir hafa unað við það að undirbúningsframkvæmdir hafi verið á fullu og þeim lokið í þeirra stjórnartíð.

Því hefur verið haldið fram af okkur sem styðjum það að þessi bygging verði að veruleika að hún sé mikils virði af tvennum ástæðum einkum. Í fyrsta lagi að auka á reisn íslenskra flugmála og íslensku þjóðarinnar á þann hátt að byggingin verði myndarleg og aðbúnaður starfsfólks verði betri en raun ber vitni í því flugkoti, eins og ég hef oft nefnt það, sem við búum við nú. Í öðru lagi höfum við talið nauðsynlegt að aðskilja herflug og farþegaflug sem allra mest og það verður gert með þessari byggingu. Ég tel það afar mikils virði og átta mig ekki á hvers vegna Alþb.-menn eru andvígir því að svo verði. Reyndar hafa skoðanir þeirra á þessu máli oft verið harla undarlegar. Í upphafi voru þeir á móti því að byggja flugstöð. Síðar kom það til að þeir vildu byggja flugstöð en ekki eins stóra og aðrir og þeir vildu ekki gera það í samráði við Bandaríkjamenn. Þannig að þeir hafa nokkuð hopað frá sinni fyrri afstöðu sem var á þann veg að byggja enga flugstöð.

Fram kom áðan í ræðu frsm. minni hl. að hætta væri á að erlend samkeppni yrði nokkur í sambandi við útboð. Ég bendi á að því hefur verið svo fyrir komið að verkeiningar eru svo litlar að svo til ómögulegt er fyrir erlenda verktaka að bjóða í framkvæmdir þarna. Það er því öruggt mál að það verða Íslendingar eða íslensk fyrirtæki sem munu sjá um þessar framkvæmdir.

Ég má til með að koma inn það sem haldið hefur verið fram að þessi bygging væri allt of stór. En þeir sem því hafa haldið fram hafa ekki gefið neitt til kynna um það hvernig þeir vildu hafa þessa byggingu. Ég minni á að þegar upphaflega var gerð teikning eða útfærð hugmynd af því hvernig þessi bygging ætti að vera var reiknað með að hún yrði 23.500 fermetrar. Síðan var hún minnkuð um 30%, niður í 16 þús. fermetra og nú er hún komin niður í 12.284 fermetra. Ég býst við að þegar hún verður tekin í notkun verði hún frekar of lítil en of stór. Ég varð var við það áðan að menn hafa ekki lesið grg. þar sem greint er frá því hvað flugstöðvarbyggingin eigi að vera stór, en það er tilgreint hér í athugasemdum við frv. Ég spyr: Hvað vilja menn hafa þessa stöð stóra eða hvað vilja þeir hafa hana litla? Ég kom að því áðan meðan hv. 3. þm. Norðurl. v. var ekki viðstaddur að ég tel að þessi stöð verði frekar of lítil en of stór þegar til kemur. Og ég benti á að hún hefði verið margminnkuð frá því sem upphaflega var áætlað.

Ég minni og á að erlend lán hafa verið tekin til vegagerðar og mig minnir að svo hafi verið gert t.d. þegar Keflavíkurvegurinn var byggður. Ég hygg að það sé ein sú arðbærasta vegagerð sem innt hefur verið af hendi á Íslandi til þessa.

Það varð að umræðuefni hér hvernig ætti að sjá fyrir rekstrarkostnaði við þessa flugstöð. Hvort sem flugstöðin verður eitthvað minni eða þetta stór hlýtur einhver rekstrarkostnaður að verða af henni og einhvers staðar þarf að taka peninga til að greiða það. Mér finnst mjög eðlilegt og ég hygg að flestir Íslendingar telji það eðlilegt að þeir peningar sem aflað er eða sem koma inn vegna starfsemi flugstöðvarinnar verði nýttir til að halda fluginu gangandi. Mér finnst það afar eðlilegt og sjálfsagt. Tekjur af fríhöfninni koma ekki til nema vegna þess að þarna er flugvöllur, tekjur af lendingargjöldum koma ekki til nema vegna þess að þarna lenda flugvélar og mér finnst mjög eðlilegt að þessar tekjur renni til síns heima en séu ekki látnar í aðrar þarfir eins og gert hefur verið til þessa.

Ég vona að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu og áfram verði unnið af krafti við að byggja þessa flugstöð. Ég hef sagt áður að ég teldi það auka á reisn þjóðarinnar að þessi flugstöð verði til. Þær aðfinnslur sem hér hafa komið til tel ég vera einkum af þeim toga spunnar að menn eru á móti vestrænu samstarfi og það blandist inn í það hvort við eigum að byggja þessa flugstöð sem ég ítreka að verður vafalaust of lítil þegar hún á að koma til notkunar.