17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. 6. landsk. þm. vil ég taka fram að a.m.k. í mínum huga er ekki um það að ræða hvort ég er með eða á móti vestrænu varnarsamstarfi. Varnarsamningurinn við Bandaríkin og NATO er staðreynd og við honum verður ekki hróflað, a.m.k. í bili. En þó hann sé staðreynd er samningurinn í sjálfu sér viðurkenning á því með sínum tímatakmörkunum að varnarsamstarfið er ekki óendanlegt. Og þess vegna ekki hvað síst er ég því hlynntur að aðskilnaður á starfi Atlantshafsbandalagsins og starfi íslenskrar flugstöðvar sé alger, þannig að þegar og ef varnarsamningurinn rennur út og ekki er talin þörf á að endurnýja hann séum við ekki með alls kyns óþarfa búnað í þessu húsi sem við höfum ekkert við að gera.

Hönnunarforsendur þessa húss, án þess að við höfum fengið mjög mikið um þær að vita, taka náttúrlega að mjög stórum hluta tillit til þess að þessu húsi er ætlað að gegna ákveðnu hlutverki í ákveðnum tilvikum. Því er ætlað að vera einhvers konar stjórnunarmiðstöð á stríðstímum og ég get ekki séð að þær forsendur samræmist venjulegu almennu farþegaflugi. Án þess að við vitum í raun og veru nokkuð um það hvað við erum um að tala því að þessar upplýsingar hafa aldrei fengist skoðaðar hljóta menn að gera sér grein fyrir því að samblöndun á hernaðarstarfsemi og almennu farþegaflugi er samblöndun tveggja ólíkra verkþátta og aðskilnaður þeirra hefði alla vega fyrir okkar hagsmuni verið heppilegri.

Auðvitað er enginn vandi að byggja flugstöð sniðna að íslenskum þörfum ef rekstur hennar stendur traustum fótum. Fyrir fjh.- og viðskn. var lögð ákveðin rekstraráætlun sem gerð hefur verið. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur farið um hana nokkrum orðum og því verður náttúrlega ekki á móti mælt að þar er gert ráð fyrir ákveðnum tekjuliðum sem í dag eru notaðir til allt annarra þarfa og verka en þessi rekstraráætlun gerir ráð fyrir. Þannig að einhvers staðar verður að taka þann mismun sem upp kemur þegar þessir fjármunir eru notaðir til að standa undir flugstöðinni.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um fjárfestingarmistök og ég hef ekkert legið á því að ég tel þetta hús vera fjárfestingarmistök. Þá er ég ekki að tala um í því tilviki endilega samblöndun þessara tveggja starfsþátta sem við vitum að þarna er um að ræða. Það hefur verið mjög erfitt að fá fram einhverjar tölur um byggingarkostnað annars vegar og hins vegar þær stærðir sem þessi byggingarkostnaður er miðaður við. (KSG: Þið getið fengið þær allar.) Nei, Karl, við getum ekki fengið þær allar, það höfum við nokkurn veginn sannreynt. En á fundi fjh.- og viðskn. fékkst húsameistari til að nefna ákveðnar tölur um fermetraverð í þessu húsi og bar það saman við fermetraverð í væntanlegri K-deild Landspítala Íslands sem hann einnig annast. Þetta voru í raun og veru fyrstu tölurnar sem hægt var að bera saman við eitthvað annað sem maður hafði vitneskju um.

Ég hef aflað mér upplýsinga um byggingu sem er sambærileg við K-deildina á þeim grundvelli sem húsameistari nefndi, því hann bar þarna saman byggingarkostnað án búnaðar, þ.e. byggingu upp komna, frágengna með þeim hætti sem Íslendingar kalla gjarnan tilbúið undir tréverk. Hér er í gangi innan borgarmarka Reykjavíkur bygging á vegum einkaaðila. Sambærilegt fermetraverð í þeirri byggingu er helmingi lægra en í K-deildinni og í flugstöðinni. Það er ekkert í hönnun þessara bygginga sem réttlætir 100% mun í byggingarkostnaði þessara húsa. Það eina sem sá kostnaður getur grundvallast á er annað hvort alröng hönnun, allt of dýr, eða einfaldlega rangar upplýsingar.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gat um föturnar sem hv. 5. landsk. þm. minntist á. Þessi bygging er nú hönnuð með þeim hætti eða það sem maður getur af henni séð að alls ekki er útséð um að ekki verði þörf þar á allmörgum fötum þegar vel rignir því að stór hluti þaks hennar er úr gleri eins og menn þekkja. Ég áskil mér einfaldlega rétt til að koma síðar að þessu máli, þ.e. byggingarkostnaði þessarar byggingar. Ég held að ég láti þennan söng ekki niður detta því að mér finnst í raun og veru óþolandi að við séum að stofna til miklu meiri kostnaðar í byggingum sem þessum en nauðsyn ber til. Við erum að tala hér um svo stórar upphæðir. Ef við tökum þann byggingarkostnað sem nefndur var á fundi fjh.- og viðskn., sem er einhvers staðar á milli 50 og 60% af endanlegum byggingarkostnaði þeirra húsa eða bygginga sem um ræðir, lækkum hann um helming og tökum þá til viðmiðunar þessa sambærilegu byggingu sem ég nefndi erum við að tala um að draga úr kostnaði þessa húss, flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, um 25–30%, við erum að tala um 150–200 millj.

Breyttar tekjuforsendur fjárlaga, þróun tekna milli ára tekur núna úr vasa fjmrh. að því er ég hef heyrt 100 millj. Hv. 3. þm. Suðurl. getur kannske leiðrétt mig ef það er ekki alveg rétt, en mér skilst að sá tekjumismunur sem er á milli framlagðra fjárlaga og þeirra breytinga sem nú verða á þeim nemi eitthvað um 100 millj. Við erum að tala um að draga úr kostnaði sem þessum mismun nemur og jafnvel tvöfalda hann miðað við endanlegan byggingarkostnað þessa húss.

Mér finnst þetta vera það stórir hlutir að menn hljóti að verða að staldra við. Ég er ekki að tala um föðurlandið og her úr landi eða eitthvað því um líkt, ég er bara að tala um krónur. Ég er að tala um að við erum að taka peninga landsmanna og nota þá, sólunda þeim nánast til hluta sem mætti standa miklu gáfulegar og betur að, einfaldlega þannig að þeir kostuðu minna og gæfu þar með meira af sér. Í þessu tilviki, þegar verið er að samþykkja lánsfjárheimild um mjög stórt og mikilvægt atriði, hlýtur hver maður að sjá í hendi sér að þótt uppi séu afskaplega drengileg áform um að taka ekki meira fé að láni á hverju ári en þörf er fyrir hlýtur sú freisting að vera stór, þegar aðgangurinn og heimildin er til þess að taka þetta fé í búskap sem núna býr við mjög þröngan kost, að misnota þessa fjármuni. Ég endurtek að ég áskil mér rétt til þess, þó að þessi umr. líði hjá, að koma oftar að þessu máli og linna ekki látum fyrr en menn hafa virkilega farið ofan í saumana á því með tilliti til þess hvaða krónur og aura við erum hér virkilega að tala um.