17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það var undarlegt að heyra hv. 11. þm. Reykv. fjalla um flugstöð á Keflavíkurflugvelli sem óarðbæra byggingu, óarðbæra fjárfestingu. Það er líka furðulegt að heyra sama þm. sífellt klifa á því að á Íslandi ríki eymd og volæði. Hv. þm. minnti á í umr. hér fyrir skömmu að heimskt væri heimaalið barn. Ef eymd og volæði er á Íslandi, sem er í hópi einhverra best settu ríkja heimsins í dag, hvað heitir það þá að vera í eymd og volæði í ýmsum öðrum löndum?

Flugstöð á Keflavíkurflugvelli er samastaður hundraða verkamanna, sem skilar gjaldeyristekjum, sem aflar fjár og hefur alla möguleika til að vera arðbær fjárfesting. Það sem er blettur á flugstöðvarmálinu er neitunarvald Alþb. sem um leið er blettur á sjálfstæði Íslendinga. Nú er sú tíð liðin enda hafa orðið breytingar á Alþingi og það ber að fagna slíkri þróun. En ég furða mig enn á því að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir skuli hljóma í þessu máli sem eins konar bergmál úr görnum Alþb.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. kvað dýrt að hafa ekki flugstöðvar á landinu. Það eru allir sammála um það, það er dýrt að hafa ekki húsaskjól þar sem það þarf að nota. Hann lagði áherslu á að blandað væri saman hernaðarhagsmunum með byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sem um er rætt. Það er þó flestra manna mál að þarna sé verið að skilja á milli starfs að hernaðarmálum og almenns starfs í þágu borgara þessa lands og er miklu skynsamtegri útfærsla.

Ég veit auðvitað að samstarf vestrænna ríkja er slíkur þyrnir í augum hv. þm. Ragnars Arnalds að bygging flugstöðvar í samvinnu við þá aðila fellur ekki að hans skapi. En ég hygg að þegar allt kemur til alls sé samviskan á annan veg en á yfirborðinu sýnist því þegar hv. þm. Eiður Guðnason minntist áðan á arðsemi Kröfluvirkjunar og arðsemi flugstöðvar greip hv. þm. Ragnar Arnalds fram í og sagði að Kröfluvirkjun mundi skila arði líka. Hann hefur sem sagt þá trú að flugstöðin muni verða arðsöm bygging og er gott að fá staðfestingu á því þrátt fyrir allt.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er lítil miðað við þann tón sem athafnasamt fólk á Íslandi, sjálfstæð félög og fyrirtæki, hvort sem þar eru við stjórn karlmenn eða konur, hafa skapað, en hún er stór miðað við það músarholusjónarmið sem Alþb. er fast í og það er kannske mergurinn málsins. sú flugstöð sem um er að ræða er 70% stærri eða þar um bil en sú flugstöð sem nú er. Allir þekkja hvernig húsakostur þar er og allir eru sammála um að lágmarksstærð á flugstöð á Keflavíkurflugvelli ætti að vera a.m.k. 50% stærri en núverandi stöð er. Við erum hins vegar um leið að byggja fyrir framtíðina og í rauninni er mjög knappt ætlað að hafa bygginguna ekki stærri en hún er.

Við erum einnig að ræða um byggingu sem á að hlíta lögum landsins. Sú bygging sem starfsfólk á Keflavíkurflugvelli býr nú við í flugstöðinni þar brýtur allar reglur um hollustuhætti, eldvarnir og fleiri mál sem Alþingi Íslendinga hefur sett lög um. Á fimmta hundrað manns vinna í þessari byggingu á sumri hverju, um 250 eru fastir starfsmenn sem vinna árið um kring. Þetta er því stórt fyrirtæki sem skapar mörgum vinnu og miklu máli skiptir.

Ef við aðeins veltum fyrir okkur skipulagi nýju byggingarinnar miðað við þá sem nú er er gert ráð fyrir svipuðu húsrými undir verslanir í þeirri nýju og þeirri gömlu, stærri er nú ekki sá þáttur í sniðum. Það eina sem er nýtt í væntanlegri byggingu er svo kallað flugeldhús sem hefur gott rými enda er þar um að ræða mikið verkefni sem á að vinna. Flugleiðir flytja 160– 190 þús. farþega á ári um landið. Til skamms tíma hafa þeir keypt nær allan mat fyrir þetta fólk erlendis frá. Þarna er verið að flytja inn vinnu, flytja inn markað fyrir íslenskt hráefni. Þarna er um að ræða matreiðslu á hráefni frá mörgum aðilum hvort sem þar er um að ræða sælgætisgerð eins og Ópal, Osta- og mjólkursamsöluna, lambakjöt, fisk og margt fleira. Þetta er þáttur sem vert er að hafa í huga þegar fjallað er um þessa væntanlegu mikilvægu byggingu.

Gert er ráð fyrir því í nýrri flugstöð að yfirbyggður landgangur sé inn í stöðina. Ef nokkurs staðar er ástæða til þess í heiminum og á norðurhveli jarðar að hafa yfirbyggða landganga er það á Íslandi. Þess eru mörg dæmi að farþegar hafi teppst allt að 3–4 klst. um borð í flugvélum á Keflavíkurflugvelli vegna þess að þeir hafa ekki komist frá borði. Við erum þannig að vinna með þessari byggingu fyrir framtíðina og við erum að skapa aðstöðu með þeirri vinnu sem þarna fer fram fyrir íslenskar hendur. Það er arðsöm fjárfesting.