17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég flutti nokkra tölu við 1. umr. málsins og ég þarf ekki að hafa mjög langt mál um það nú. Þessar umr. hafa hins vegar að mörgu leyti verið hinar merkilegustu fyrir þann tón sem gefinn hefur verið, merkilegar fyrir þá sök að komið hafa fram ný rök í þessu máli, mótrök gegn þessari byggingu. Flutt hefur verið vönduð, skýr og umfram allt vel rökstudd framsaga af hálfu minni hluta n., hv. 11. þm. Reykv. Hér hefur komið upp hv. 8. þm. Reykv. sem sakir sinnar menntunar talar af meiri þekkingu en ég hygg flestir aðrir hér inni vægast sagt og — (Gripið fram í.) og lýst á skorinorðan hátt. — Nei, hann þarf ekki að vera sjálfhælinn þó hann geri glögga grein fyrir máli sínu, hv. þm. Allt þetta þótti mjög merkilegt innlegg í þessa umr. vegna þess að hingað til hefur sú stefna sem tekin hefur verið í þessum flugstöðvarmálum verið öll á einn veg: sú flugstöð sem menn hafa stefnt að hefur átt að vera sú eina rétta, ekkert annað hefur átt að koma til greina, allt annað hafa verið úrtölur vondra kommúnista sem hafa séð svart í hverju horni. Nú heyrast hér raddir inni. (LJ: Rautt.) Já, eða þá ef hv. formaður fjvn. er farinn að sjá allt rautt úti í fjvn. og þykir engum mikið eftir þær þrengingar sem hann hefur orðið þar við að búa, horfandi svo upp á það hér inni hvernig fé er sólundað á sama tíma og hann verður svo naumt að skammta til hinna ýmsu verkefna úti í fjvn. Ég er ekki hissa á því þó hann sjái þar rautt og svartar flygsur fyrir augum.

Mér hefur þótt þessi umr. mjög merkileg að þessu leyti og væri ástæða fyrir fleiri að hyggja að þegar þeir geta ekki nýtt sér þá kenningu sem hér hefur ævinlega heyrst, að andstaða við þessa gerð byggingar, vilji til þess að hanna og reisa minni og viðráðanlegri flugstöð, væri einhver trúarsetning kommúnista af þeirri einföldu ástæðu að þeir væru á móti vestrænu samstarfi. Þessi tónn hefur reyndar heyrst núna enn einu sinni, m.a. hjá hv. 3. þm. Suðurl. Árna Johnsen sem boðaði hér nýja flugmálastefnu Sjálfstfl., yfirbyggða landganga á hvern flugvöll á Íslandi. Það þótti mér hraustlega mælt miðað við þær aðstæður sem þar eru og miðað við það fjármagn sem hann hefur yfir að ráða til skiptingar á flugvelli landsins því ekki ætla ég honum að láta einungis þar við sitja að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli njóti þessa heldur allir flugvellir landsins og flugstöðin á Keflavíkurflugvelli auðvitað með engan forgang þar að. Annars var hann kominn í þá matreiðslumynd að manni var helst farið að detta í hug að nú ætlaði hann að fara að víkja að kjötsmyglsmálinu fræga, sem nú ríður húsum, en hann sá sig a.m.k. um hönd hafi hann haft það eitthvað í huga.

Ekki ætla ég að fara út í að svara eymdar- og volæðistalinu sem hér hefur verið útbásúnað af hv. 3. þm. Suðurl. Ég sá á hæstv. fjmrh. að honum blöskraði að heyra þessi orð, því svarar hv. 11. þm. Reykv. En ég spyr bara: Hverjir eru með þennan svartnættissöng í dag? (ÁJ: Hefur þm. umboð fyrir 11. þm. Reykv.?) Nei, ég sagði að hann svaraði því, hv. 11. þm. Reykv., ég sagði það. En hins vegar þegar menn tala hér digurbarkalega um að menn sjái svart í hverju horni er ástæða til að minna á hverjir það eru sem sjá það þessar vikurnar og prédika það yfir öllum landslýð.

Vissulega er rétt að með sama áframhaldi verður ekkert sérstakt vandamál fyrir þessa hæstv. ríkisstj. að koma hér á eymd og volæði. Hún stefnir hraðbyri á það markmið sitt, það gengur hratt og vel. Ég veit að það verður ekki eymd og volæði fyrir þá aðila sem sjá frjálshyggju sem einu lausn vandamálanna, fjármagnseigendurna í þjóðfélaginu. Ekki er eymd og volæði hjá þeim því hér stendur vitanlega til númer eitt að færa fjármagn í þjóðfélaginu til stórkostlegar en nokkru sinni hefur verið gert. (EgJ: Samanber tillögu Alþb.) Nú held ég að farið sé að slá út í fyrir hv. 11. landsk. þm. eins og stundum áður allalvarlega og þætti mér vænt um að heyra hann rökstyðja þetta mál sitt á eftir, hafi ég skilið hann rétt að Alþb. hafi verið með einhverja till. í þá átt að færa fjármagn til hinna ríku í þjóðfélaginu.

Hér hefur verið margt talað um reisn þjóðarinnar, þann tón sem við ættum að gefa út á við og annað því um líkt. Menn geta endalaust deilt um í hverju reisn þjóðar á að vera fólgin en mér er alveg útilokað að telja það æðsta dæmi um reisn þjóðar hvernig flugstöðin á Keflavíkurflugvelli á að vera. Ég gæti nefnt óteljandi mannvirki sem ég teldi miklu meiri ástæðu til að sýna reisn þjóðarinnar, bæði í menningarmálum, í mátefnum aldraðra, í málefnum sjúkra. Mér dettur ekki í hug að menn séu í raun og veru að meina að þarna sé æðsta draumamarkmið þeirra til að sýna reisn þjóðarinnar. (KSG: Hver nefndi æðsta?) Ja, svo er að heyra þegar gert er að aðalatriði í hverri ræðunni á fætur annarri að þarna hafi menn hið gullna tækifæri til að sýna reisn íslensku þjóðarinnar, þá hlýtur það að verða æðst og helst, enda er þetta algert forgangsmál.

Ég minni á það enn og aftur sem ég sagði við 1. umr. þessa máls að hér er ekki um það að ræða hvort menn eru að byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli eða ekki, heldur í hvaða samhengi það er gert, hvort við erum að taka öll flugmál okkar, flugöryggismálin meðtalin, til gagngerðrar endurskoðunar, veita í það verulega miklu fjármagni og taka þessa flugstöð inn í þá mynd sem einn þáttanna en ekki forgangsþátt, um það snýst málið.

Menn hafa hins vegar valið hér að gera þetta að forgangsmáli m.a. vegna hinnar þjóðlegu reisnar sem þeir kalla svo, en skilja flugvellina úti á landi eftir í því ástandi sem m.a. Egilsstaðaflugvöllur er í, í forarbleytunni þar. Menn hafa ekki treyst sér til að fara út í að endurbyggja þann flugvöll á nýjum stað. — (ÁJ: Hefur þm. ýtt sér á loft þar?) Nei, það hef ég nú ekki gert, enda sé ég ekki hvað það kemur þessu máli við. Hins vegar kann svo að fara ef þessi hv. þm. ræður stefnunni í flugmálum landsins að þannig verði ástatt um Egilsstaðaflugvöll. Ég efast ekki um að hann dreymir um að sjá Austfirðinga ýta á eftir flugvélunum þar miðað við þá reisn sem hann hefur helst í huga varðandi Keflavíkurflugstöðina.

Auðvitað kemur engum á óvart þó að hv. 3. þm. Suðurl., hv. 5. landsk. þm. og fleiri, sem hafa valið sér hina láréttu stöðu gagnvart Bandaríkjunum í þessum málum eins og öðrum, svíði nokkuð undan rökstuddum till. og ábendingum sem hér koma fram frá hv. 8. þm. Reykv., ég er ekki hissa á því.

Ég skal ekki hafa þetta mikið fleira. Hér hefur verið rakið t.d. hve dæmalaus framkoma hæstv. utanrrh. hefur verið í þessu máli og meiri hl. utanrmn. þegar þeir skuldbundu Ísland í þessu efni í sumar. Það sýndi auðvitað bara hvað menn höfðu beðið lengi málþola með þetta hjartans mál sitt, þeir voru gersamlega orðnir málþola með þetta af eðlilegum ástæðum og sjálfsögðum. (ÁJ: Njet-ið er úr gildi.) Njet-ið er úr gildi, segir hv. þm. og telur þar með öll þjóðfélagsvandamál leyst varðandi þetta mál. Það er glöggt að honum stendur þetta mál hjarta nær en flest önnur.

Hér hafa verið ófagrar lýsingar á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Ég efast ekki um að þær lýsingar sem hv. þm. hafa gefið séu sannar. Ég man eftir að nákvæmlega þetta sama var talað um hér fyrir nokkrum árum um Reykjavíkurflugstöðina. Þá var það bara þannig að m.a. vegna öryggismálanna á flugvöllum okkar treystu menn sér ekki að ráðast í nýja flugstöð eins og þá var byrjað að veita peningum til. Menn tóku þá hins vegar þá skynsamlegu afstöðu miðað við allar aðstæður í okkar flugmálum að reyna að lagfæra þar sem allra mest og gera þá aðstöðu sem besta miðað við þann þrönga stakk sem henni er skorinn, og það tókst bara merkilega vel, það sjá allir sem um þá flugstöð fara. En ég veit vitanlega að aðstæður þar og aðstæður á flugvöllum landsins skipta þá litlu máli sem telja hér í fólgna helstu reisn þjóðarinnar út á við sem inn á við.

Nei, eins og kom glöggt fram í máli hv. 11. þm. Reykv. er auðvitað númer eitt um það að ræða hvað menn velja í forgang á erfiðum tímum þegar lítið er til skipta. Valið hefur farið fram, ríkisstj. hefur valið þessa framkvæmd umfram aðrar, í hana skal veitt fjármagni að vild með þeim skilyrðum sem Bandaríkjastjórn að sjálfsögðu setur. Og það er dálítið dýrlegt að heyra menn tala hér um aðskilnaðinn og allt í kringum það á meðan hinn svokallaði aðskilnaður á að byggjast á því að inn í íslenskt efnahagslíf sé dælt erlendu betlifé á þann hátt sem hér er gert.