17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Í andstöðu við þá lántöku sem gert er ráð fyrir í sambandi við bygginguna á Keflavíkurflugvelli hafa verið tínd til ýmis rök. Því hefur verið haldið fram að þessi bygging væri af því vonda, vegna þess að bandaríski herinn mundi hafa afnot af þessari byggingu ef til styrjaldar kæmi og það væri bundið einhverjum sérstökum skilyrðum í þá átt. Ég verð að játa að ég furða mig á þeim barnaskap að tetja þetta miltið atriði. Dettur nokkrum í hug að byggingar vítt og breitt um landið fái að vera í friði fyrir hernaðarumsvifum ef til styrjaldar kemur? Í till. til þál. sem Alþb. hefur flutt um að hanna minni og hagkvæmari flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli er ekki gert ráð fyrir að sú bygging verði friðlýst. Ég bendi á að nauðsynlegt væri að taka það fram ef menn ætla að slík bygging yrði ekki tekin til hernaðarafnota ef til styrjaldar kæmi. Ég furða mig á þeim barnaskap að ætla að nokkur bygging verði látin í friði ef til slíkra óskapa kemur. Ég tel það ekki rök í andstöðu við þessa flugstöðvarbyggingu þegar gagnrýnt er að svo skuli vera farið að eins og kemur fram í samningi um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Fulltrúar Alþb. og fleiri halda því fram að byggja eigi miklu minni flugstöð. Ég hef hvergi séð hvernig flugstöð þeir vilja hafa og hve hún á að vera lítil, hvort hún á að vera eitthvað stærri en venjulegt íbúðarhús eða ekki. Ég hef sagt frá því að þessi bygging verður langtum minni en ætlað var í upphafi. Vafalaust verður hún of lítil þegar til kemur. Það er mat manna sem gerst hafa vit á að svo verði.

Auðvitað kostar þessi bygging mikla fjármuni og nú er lítið til skiptanna. Ég bendi á að í fyrra fluttum við Alþfl.-menn frv. um að fjármuna til þessarar byggingar yrði aflað öðruvísi en gert er ráð fyrir hér og t.d. þannig, að þeir verktakar sem þiggja ómældan gróða af framkvæmdum fyrir varnarliðið verði látnir greiða hluta af þessu. Veit ég að þeir eiga ótalin hundruð milljóna í bönkum landsins sem gætu runnið til slíkra nota. En ekki hefur náðst samkomulag um að fara þá leið.

Ég fullyrði að sú stöð sem fyrirhugað er að byggja muni standa undir sínum rekstri að því tilskildu að þeir fjármunir sem verða til vegna flugstöðvarinnar renni til þess reksturs.

Það þarf að koma fram að ef menn ætla að standa einir að byggingu flugstöðvar og hún verði minni eru menn að fara fram á að íslenska ríkið greiði margfalt meira til flugstöðvar en verið er að tala um hérna. Og það er ekki aðeins flugstöðin. Þó hún verði eitthvað minni þurftum við einnig að greiða allt er lýtur að aðbúnaði fyrir utan flugstöðina; flugplön, aðstöðu alla utan dyra, bifreiðastæði, lagnir og margt fleira. Ég sé ekki að saman fari að krefjast annars vegar þess að byggð verði flugstöð sem kostar margfalt meira fé en nú er verið að tala um og mótmæla því jafnframt að þessi flugstöð verði byggð. Ég lít á þetta sem hreina rökleysu og vandræðagang í andstöðu við það framtak sem hér er á ferðinni.

Það var nokkuð rætt um það áðan að menn ættu að gefa upp einingaverð á byggingunni. Ég furða mig á síkum óskum, vegna þess að séu slíkar upplýsingar látnar uppi áður en útboð ganga, hvort sem það er til þm. eða annarra, er ég hræddur um að verktakar geti aldeilis matað krókinn og það verði lítil von um að þeir bjóði lægra í þessar byggingar en kostnaðarverð segir til um. Ef svo er einhvers staðar gert í ríkiskerfinu lít ég á það sem spillingu. Ef tölur leka út ... (Gripið fram í: Til þm.?) Til þm. eða annarra. Það eru vissir hlutir sem þeim koma ekki við á ákveðnum tímabilum eða ákveðnum stundum.

Hv. þm. Skúli Alexandersson, 4. þm. Vesturl., ræddi um að það mætti gera margt annað fyrir þessa peninga eða aðra peninga. Auðvitað erum við öll sammála því að byggja þarf upp flugmál á Íslandi. Ég bendi á að við Alþfl.-menn höfum þing eftir þing flutt till. til þál. um mótun opinberrar stefnu í íslenskum flugmálum. Þar segir í 6. gr.:

„Framlag ríkissjóðs til flugmála ár hvert samkvæmt fjárlögum nemi eigi lægri fjárhæð en 1.5% fjárlaga. Því fé verði varið í samræmi við þá áætlun sem gerð var 1976 um áætlunarflugvelli og búnað þeirra og tilgreindar tötur færðar til verðlags hvers árs.“

Ég vænti þess að menn hjálpist þá að við að koma þessari till. í gegn svo að hægt verði að framkvæma allt það sem menn telja svo brýnt og miklu brýnna en það að byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli.

Það var sagt áðan að nær væri að byggja yfir slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli, þó að ég sjái nú lítið samhengi í því. Það er reyndar mín skoðun að gjarnan mætti leggja það slökkvilið niður og koma því undir eina stjórn slökkviliðsins í Reykjavík í stað þess að vera að þessu brambolti með sérslökkvilið fyrir Reykjavíkurflugvöll. Ég bendi á að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli verður fjarri nýju flugstöðinni en slökkviliðið í Reykjavík er nú flugstöðinni í Reykjavík. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það næðist mun betri hagræðing ef fulltrúar í flugráði kæmu því til leiðar að slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli yrði lagt niður og gert að deild í Slökkviliði Reykjavíkur og því falið að sinna þeim verkefnum sem þar er um rætt. En mér finnst alveg út í hött að segja að bygging yfir slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli sé meira virði en bygging flugstöðvar.

Við getum allir verið sammála um að byggja verður flugvelli annars staðar á landinu, en flugstöð á Keflavíkurflugvelli verður að vera til og mun verða til. Ég hlakka til að sjá hv. 4. þm. Vesturl. staddan í þeirri flugstöð og njóta þar í gegnum gluggana tröllslegrar náttúrufegurðar Suðurnesja. (Gripið fram í: Ha, ha.)