17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég hef nú þegar talað tvisvar við þessa umr. og hef því aðeins tækifæri til að gera hér aths. (Forseti: Sem framsögumaður má hv. þm. tala þrisvar.) Ég þakka fyrir. Mér hafði gleymst sú staðreynd. En ég ætla ekki að lengja umr. samt ýkjamikið.

Það er auðvitað hægt að ræða hér um það fram á rauða nótt að víða er pottur brotinn í íslenskum flugmálum og íslenskum flugvöllum, um það blandast engum manni hugur, og flugmálin hafa verið sú grein samgöngumála hér á landi sem hefur verið hvað afskiptust hvað lengst, en þeim ágætu mönnum sem sátu í síðustu ríkisstj. gáfust nú tækifæri hvað eftir annað til að samþykkja flugmálaáætlun, sem er sniðin eftir vegáætlunarforminu, um skipulagðar framkvæmdir í flugmálum. Á því var hins vegar enginn áhugi. Þetta mál fluttu Alþfl.-menn hér aftur og aftur og það náði aldrei fram að ganga. Það var ekki vegna áhugaleysis okkar á þessu máli að það náði ekki fram að ganga. Það var einfaldlega vegna þess að þáv. ríkisstj. setti þessi mál ekki framar en raun bar vitni. Það voru ýmsar aðrar framkvæmdir í flugmálum og afskipti af flugmálum þeirri ríkisstj. kærari og þeim samgrh. sem nú gegnir embætti forsrh.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst afskaplega undarlegt að heyra menn hafa þetta mál í flimtingum talandi um yfirbyggða landganga sem einhvern lúxus eða óþarfa, vitleysu, bull.

Vegna setu minnar í Norðurlandaráði ferðast ég nokkuð mikið og kannske meira en mér gott þykir stundum. Ég hef orðið vitni að óhappi suður á Keflavíkurflugvelli vegna þess að þar voru ekki yfirbyggðir landgangar. Það óhapp var þannig, að fullorðin kona hreinlega fauk þegar hún var að ganga úr flugvélinni inn í flugstöðvarbygginguna. Ég sé enga ástæðu til að fara með það sem eitthvert flimt og spaug þó að byggja eigi flugstöð sem er búin að nútímahætti. Ef einhvers staðar þarf flugstöð með yfirbyggðum landgöngum hugsa ég að það sé einmitt í Keflavík. Þar er býsna vindasamt. (HS: En Vestmannaeyjar?) Það eru sjálfsagt ýmsir fleiri staðir, hv. þm. Helgi Seljan, sem mætti tiltaka í þessu efni.

Hv. þm. Skúli Alexandersson mun hafa talað til mín töluvert áðan. Ég var því miður á fundi að boði forseta Sþ. ásamt öðrum og gat því ekki verið viðstaddur í deildinni. Ég heyrði hins vegar eftir að ég kom hingað að hann gerði töluvert úr því að láðst hefði að taka fram í nál. að meiri hl. n. styddi samþykkt frv. Nú skal ég ekki segja um hvort þetta hefur fallið niður í prentsmiðju eða hvort þetta eru einfaldlega mín pennaglöp, og ég skal með glöðu geði taka það á mig, en samstundis og mér varð þetta ljóst gerði ég ráðstafanir til þess að nál. yrði prentað upp aftur, þannig að það færi ekkert milli mála. Það verður væntanlega lagt á borð hv. þm. áður en langt um líður. Ég skal taka á mig að öllu leyti þessi mistök, en þau verða leiðrétt og þskj. verður prentað upp. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að það fari ein og ein setning á milli stafs og hurðar eða upp fyrir stokk eins og gengur mikið á hér í þinginu þessa daga nú fyrir jól og eins og mönnum er ættað að starfa.

Ég heyrði líka að hann hafði tekið eitthvað nærri sér, að mér skildist, þegar ég talaði um hans alkunnu hæversku. Það var síður en svo ætlan mín, en hafi þau orð með einhverjum hætti sært hann bið ég hann velvirðingar á því.

Ég ætlaði ekki, virðulegi forseti, að hafa þessa umr. af minni hálfu lengri. Ég held að þetta mál sé senn fullrætt hér.