25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

453. mál, dýpkunarskip

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Ég hef á þskj. 20 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi kostnað vegna ýmissa framkvæmda í tengslum við Blönduvirkjun. Tilefni þessarar fsp. eru fyrst og fremst fréttir í blöðum og umræður um það, að allur hafi þessi kostnaður farið mjög úr böndum og nemi nú allt að 10% af virkjunarkostnaði. En um þetta hafa fregnir verið nokkuð á reiki og því hef ég talið brýnt að bera fram fsp. til að fá skýr og greinargóð svör hæstv. iðnrh. varðandi það um hverjar fjárhæðir hér er að tefla. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Hverju nemur kostnaður við framkvæmdir sem átt hafa sér stað í tengslum við virkjun Blöndu, en eru í raun fyrir og í þágu bænda og landeigenda á svæðinu? Til nánari skýringar skal getið að hér er átt við ræktun, jarðakaup, byggingar fjárhúsa og gangnamannakofa, vegagerð og annað af þeim toga sem framkvæmt hefur verið.

2. Hvaða aðilar hafa fengið greiðslur og hve mikið hefur komið í hlut hvers?

3. Hvaða aðilar munu fá greiðslur vegna sölu vatnsréttinda?“