17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

161. mál, málefni aldraðra

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Það gleður mig sannarlega að hér sé farið að ræða um mál sem eru brýnni en flugstöð, sem sagt aðbúnaður aldraðra hér á landi. En ég er nú ekkert sérstaklega ánægð með það 15 millj. kr. framlag úr ríkissjóði sem þarna skal veita þegar litið er til þess sem við vorum að tala um áðan, 600 millj. kr. til flugstöðvar í Keflavík. En ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að greiða fyrir því að þetta frv. komist áfram.

Mig langar til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því, hvort það verði framlag úr þessum sjóði sem mun renna til B-álmu borgarsjúkrahússins eða hvað. Gamla fólkinu skyldum við muna eftir fyrst og fremst, því það er of seint eftir nokkur ár, en það er hægt að geyma flugstöð. Það fólk sem fer í gegnum flugstöð er yfirleitt alheilbrigt, en það má ekki bíða of lengi að búa vel að gamla fólkinu.