17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

50. mál, tímabundið vörugjald

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég stend að sjálfsögðu að því að samþykkja frv. eins og það er lagt fram af hæstv. fjmrh. Þessi tekjustofn er býsna stór. Það er gert ráð fyrir að á næsta ári skili þessi tekjustofn 1140 millj. kr. til ríkisins. Ef samþykkt væri nú að framlengja tekjustofninn aðeins til fjögurra mánaða væri þar með sköpuð óvissa um nær 800 millj. kr. tekjustofn í fjárlagadæminu. Ég held að það væri ósannfærandi fyrir ríkisstj. að standa þannig að málum og þess vegna harma ég að sjálfur formaður fjh.- og viðskn. skuli standa að till. um að framlengja þennan skatt aðeins til fjögurra mánaða.

Það er oft rætt um að ríkið eigi að slaka á klónni í sambandi við skattheimtu og það kann að vera rétt, en menn verða að gæta þess að á sama tíma sem menn tala um að ríkið eigi að slaka á klónni, — ég þarf auðvitað ekki að taka fram að spara þarf í rekstri ríkisins eins og mögulegt er, — á sama tíma sem menn tala um að minnka tekjur ríkisins, þá verður jafnframt að viðurkenna að menn verða að minnka þjónustu á vegum ríkisins og menn verða að minnka framlög ríkisins til þessa og hins. Ég geri ráð fyrr að við höfum svipaðan áhuga á að gæta aðhalds í ríkisrekstrinum. Ég tel mjög vafasamt og hef alltaf talið að menn tali einhliða í þessum málum, menn tali um að minnka skatta án þess að gera jafnframt grein fyrir því, hvaða þjónusta, hvaða framlög það eru sem á að minnka á vegum ríkisins. Það er vinsælt að tala um að lækka skatta. En það er ekki eins vinsælt að tala um að það eigi að minnka þjónustu á vegum ríkisins eða minnka framlög til ríkisframkvæmda. Mér finnst að það sé því varla hægt að ræða þessi mál nema í samhengi sé. Þetta eru tvær hliðar á einu og sama máli: Ef það á að minnka tekjurnar verður að draga úr útgjöldunum.

Mér finnst að efnahagsprógramm ríkisstj., miðað við mjög erfiða aðkomu og mjög erfið skilyrði, hafi hingað til tekist jafnvel betur en við þorðum að vona þegar verið var að undirbúa þetta prógramm. (Gripið fram í.) Þú ert ekki búinn að átta þig á því, hv. þm., að þetta er málamiðlun á milli leiftursóknar og niðurtalningar. Ég hitti ágætan mann, ég vil ekki nafngreina hann, á götu nýlega, og hann sagði við mig: Ég held að þið hafið hitt nokkuð naglann á höfuðið þarna með þessari málamiðlun á milli leiftursóknar og niðurtalningar. Og hann var samflokksmaður hv. þm. Egils Jónssonar.

Það eru einkum tvö atriði nú sem ég álít að séu langalvarlegust og erfiðust viðfangs í efnahags- og atvinnumálunum. Það er sjávarútvegsdæmið, eins og það er stundum nefnt, sá gífurlegi vandi sem steðjar að sjávarútveginum, og það er á hinn bóginn vandi ríkissjóðs. Auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort það eigi að minnka verðbólgu með því að stofna til aukins halla á ríkisbúskapnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég held að það sé varasamt að reyna að leysa verðbólguvandann, reyna að koma á stöðugleika í efnahagskerfinu, með því að skapa halla í ríkisbúskapnum. Sumar þjóðir hafa virkilega farið flatt á því, eins og t.d. Svíar, þessi ríka þjóð, sem hafa búið við tiltölulega stöðugt verðlag á undanförnum árum, en þar sem hallinn á ríkisbúskapnum er bókstaflega að sliga þjóðina. Þeir gátu leyst þessi mál á tímabili með því að afla fjár innanlands í Svíþjóð til þess að jafna hallann. En svo kom að það dugði ekki til, það hrökk ekki til. Nú þurfa Svíar að afla stórlána í vaxandi mæli erlendis til að jafna hallann á ríkisbúskapnum. Þetta er stórkostlegt vandamál þar í landi. Þess vegna held ég að við ættum ekki að fara þá leið, heldur hina að reyna að haga málum þannig að fjármálum ríkissjóðs sé sæmilega borgið. Ég álít að samþykkt þessa frv. stuðli að því. Og ég vonast einlæglega til þess að stjórnarliðið, að undanteknum þá hv. frsm. n., samþykki frv. og samþykki tekjustofninn út árið. Hitt væri að mínu mati ósannfærandi málsmeðferð.