25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

453. mál, dýpkunarskip

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnrh. svör hans og mælast til þess að upplýsingar þessar geti þm. fengið skriflega, eins og hann gaf til kynna.

Mér þótti svar hans ekki magurt. Ég held að flestum þm. og ýmsum fleiri sjálfsagt hafi komið á óvart hversu háar tölur hér er um að tefla, þó að hæstv. fyrrv. iðnrh. kæmi það ekki á óvart. Ég held að það sé alveg leyfilegt að tala um aukakostnað í sambandi við virkjanir þegar um er að ræða byggingar fjárhúsa og gangnamannakofa. Ég held að slíkar byggingar séu ekki bein og sjálfsögð forsenda fyrir því að unnt sé að virkja, þó að svo hafi verið í þessu tilviki.

Vissulega eru þessar tölur háar. Mér sýnist t.d. kostnaður við samningagerð vera töluvert í hærri kantinum, þó megi sjálfsagt um það deila. En það er þó kannske kjarni þessa máls sem ég tók eftir að hæstv. ráðh. sagði: „Umræddir hreppar, sem teljast eigendur heiðalandanna“. Spurningin er um það, hverjir eiga þessi heiðalönd. Er þetta ekki land sem á að vera í eigu þjóðarinnar allrar? Geta einhverjir ákveðnir hreppar eða ákveðnir bændur slegið eign sinni á þetta land með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert? Ég minni í því sambandi á frv. sem þm. Alþfl. hafa flutt hér um þjóðareign á landi, sem taka ekki hvað síst — og helst — til slíkra landsvæða.

En það eru ýmis fleiri atriði í þessum upplýsingum, sem hæstv. iðnrh. gaf, sem ég geri ráð fyrir að hafi komið mönnum töluvert á óvart. Víst eru ýmsir þessara vega nauðsynlegir vegna virkjunarframkvæmdanna, en ég hygg að þeir séu það alls ekki allir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, herra forseti, en ég þakka hæstv. ráðh. svar hans. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar fram.