17.12.1983
Efri deild: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

50. mál, tímabundið vörugjald

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég greiddi atkv. áðan gegn till. hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ekki af þeim efnislegu ástæðum sem hér voru raktar varðandi upptöku þessa gjalds eftir fjóra mánuði og athugun þess og endurskoðun, heldur einmitt vegna þess að eins og ástandið er núna hygg ég að ef hæstv. ríkisstj. mundi lækka þetta tímabundna vörugjald kæmi það niður á þeim málaflokkum sem síst skyldi. Við höfum séð hverjar afleiðingar hafa haft hjá þessari hæstv. ríkisstj. þær þrengingar sem hér eru í þjóðarbúskapnum og hvaða liðir það eru á fjárlögum sem eru sérstaklega teknir til meðferðar. Það er nefnilega rétt, sem hv. 4. þm. Austurl. kom inn á áðan, að auðvitað er allt tal um skattalækkanaloforð skrum eitt, ómerkilegt skrum í auglýsingaskyni eingöngu, ef ekki fylgir hvað á að lækka í útgjöldunum þar á móti. En það höfum við séð núna fyrir okkur í þessu fjárlagafrv. og meðferð hv. fjvn. á því, hvað það er sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrst og fremst til að skorið verði niður og lækkað. Þar er ekki sparnaðurinn á ferðinni, heldur allt annað. Því treysti ég því ekki, ef ríkisstj. fær ekki fyllilega tekjustofn sinn í tímabundnu vörugjaldi allt árið, að hún ráðist ekki enn frekar á ýmis mál sem hún hefur þegar ráðist nægilega vel á.