17.12.1983
Efri deild: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

50. mál, tímabundið vörugjald

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt að til lítils er að flytja till. um að lækka og lækka átögur ef ekki fylgja einhverjar aðrar till. á móti. Ég minnist þess að í þinginu í fyrra eða hitteðfyrra voru umr. um rekstur Pósts og síma, eins stærsta fyrirtækis ríkisins, og sífellt verið að gagnrýna þann rekstur, sjálfsagt með réttu að mörgu leyti, en þegar það fyrirtæki gerði ráðstafanir til að hagræða í rekstrinum ættaði allt af göflum að ganga og voru fluttar hér þáltill. til að reyna að koma í veg fyrir það. Menn geta ekki bæði sleppt og haldið og menn geta ekki bæði borðað kökuna og geymt hana. Auðvitað verða menn að hafa það í huga.

En það er eitt atriði sem ekki hefur verið minnst á í þessu sambandi varðandi skattana og það eru skattsvikin sem allir vita að eru útbreidd í þjóðfélaginu. Hvað skyldi vera hægt að lækka skattana mikið ef hver borgaði það sem honum ber að borga? Ég held að það fari ekkert milli mála og sé enginn ágreiningur um það á meðal þm., að skattsvik eru útbreidd meinsemd í þjóðfélaginu. Kannske væri það og raunar ekki kannske — áreiðanlega væri það nýtasta og skynsamlegasta sem þessi ríkisstj. gæti gert að gera nú herferð gegn skattsvikum í landinu og sjá um að menn, eftir því sem hægt er og það er áreiðanlega hægt betur en gert er nú, borguðu það sem þeim ber að borga. Neðanjarðarhagkerfið, svörtu peningarnir, við sjáum þetta allt saman fyrir augunum. Ég skal viðurkenna að það er erfitt að taka á þessu máli og það tekur tíma, en ég skora á hæstv. fjmrh. að beita sér nú fyrir því að á þessu sviði verði gert átak, þannig að hver borgi það sem honum ber að borga. Þar liggur höfuðmeinsemdin. Við skulum ekki gleyma því í umr. um þessi mál.