25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi fsp. gefur tilefni til að minna á að það er meira en áratugur síðan umr. hófust um það hvort hefja ætti hjartaskurðlækningar hér á landi. Þannig var það 1971 að seðlabankinn og Gjafasjóður Ásbjörns Ólafssonar stórkaupmanns gáfu fé til tækjakaupa í þessu skyni. Það var álit ráðgjafa heilbrrh. þá að ekki væri tímabært að hefja hjartaskurðlækningar enda ekki komin rannsóknaraðstaða svo fullnægjandi væri vegna þessara aðgerða.

Seint á fyrri ráðherratíð minni í heilbrrn. var þetta mál tekið til rækilegrar athugunar og annaðist nefnd lækna það mál. Tveir þeirra, Ólafur Ólafsson landlæknir og Björn Önundarson tryggingayfirtæknir, töldu að enn um sinn ætti að bíða með að hefja aðgerðir hér en tveir, Grétar Ólafsson og Árni Kristinsson, lögðu til að aðgerðirnar hæfust. Nær samtímis barst bréf frá fjórum læknum, tveim þeim sömu og áður getur, Gunnari H. Gunnarssyni og Þórði Harðarsyni, til ráðh. þar sem ráðlagt var að aðgerðir hæfust á Landspítalanum. Það má því segja að um það leyti, er ég hætti sem heilbrrh. á árinu 1978, hafi sérfræðingar við Landspítala og Borgarspítala talið að hjartaskurðlækningar gætu hafist hér á landi en ráðgjafi ríkisstj. eða landlæknir mælti ekki með því þá.

Á síðustu dögum ráðherratíðar Magnúsar H. Magnússonar var mál þetta tekið til meðferðar í rn. og með bréfi 31. jan. 1980 fól rn. forstjóra ríkisspítalanna að sjá um að undirbúningur færi fram og stefnt yrði að því að byrja hjartaskurðlækningar og opnar hjartaaðgerðir á Landspítala í ársbyrjun 1981.

Á Landspítala mun undirbúningur hafa farið fram eftir því sem hægt var án þess að heimild væri til að kaupa tækjabúnað og senda starfsfólk til menntunar. Stjórnarnefnd ríkisspítala hafði þetta verkefni sem forgangsverkefni sitt við gerð fjárlaga áranna 1981, 1982 og 1983 án þess að fjvn. Alþingis féllist á þetta verkefni sem nýtt verkefni ríkisspítalanna. Um allt þetta veit fyrirspyrjandi því að þetta gerðist í hans ráðherratíð.

31. ágúst 1982 ritaði þáv. heilbrrh. bréf til framkvæmdastjóra ríkisspítalanna þar sem skýrt var frá því að samkomulag hefði náðst milli heilbrrn. og fjmrn. um að í fjárlagafrv. ársins 1983 yrði gert ráð fyrir þeim möguleika að hefja undirbúning að hjartaskurðlækningum hér á landi ef Alþingi féllist á þá till. Niðurstaðan varð síðan sú að Alþingi féllst ekki á þessa till. og því stöndum við í þeim sporum sem við stöndum nú.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt þá ritaði þáv. heilbrrh. bréf til stjórnarnefndar ríkisspítalanna 13. maí 1983 — eða tveimur vikum áður en hann fór úr embætti — þar sem heimilað var að í desembermánuði 1983 verði auglýstar þær stöður sem nauðsynlegar eru vegna hjartaskurðlækninga og ráðið í þær þannig að hjartaskurðlækningar geti hafist á árinu 1984. Þá heimilaði rn. einnig að útboð færi fram á tækjum vegna hjartaskurðlækninga þannig að hægt yrði að kaupa tækin fyrr og um næstu áramót; það eru áramótin 1983 og 1984. Þessi heimild rn. átti sér í rauninni ekki stoð í gildandi fjárlögum og hafði ekki hlotið samþykki fjvn. um nýtingu á nýjum stöðum fyrir ríkisspítalana. Það er því ekki heimild til þess að fara eftir þessu bréfi fyrrv. heilbrrh.

Ég hef rakið þessa sögu í eins stuttu máti og hægt er en það hlýtur að koma til kasta Alþingis, fjvn. fyrst og Alþingis síðar, að taka afstöðu til þess hvort hjartaskurðlækningar fari fram hér á landi og hvenær þær hefjast.

Í fjárlagatill. frá s.l. sumri var gert ráð fyrir því að till. stjórnarnefndar ríkisspítalanna að hjartaskurðlækningar yrðu forgangsverkefni ríkisspítalanna. Það hefur hvorki verið tekið tillit til þeirrar aukningar í starfsemi ríkisspítalanna eða neinnar annarrar í því fjárlagafrv. sem lagt hefur verið fram.

Auk þess kostnaðar sem hlýtur að leiða af nýrri starfsemi eins og hjartaskurðlækningum þá hefur komið í ljós að gera þarf umtalsverðar breytingar á skurðstofum Landspítalans til þess að þær geti farið fram og þar að auki þarf að gera ráð fyrir því að nýr tækjabúnaður komi til rannsókna á kransæðum á röntgendeild Landspítalans. Allt þetta verkefni í heild er því stórt kostnaðarverkefni og það er nauðsynlegt að Alþingi og fjvn. taki það til gaumgæfilegrar athugunar áður en afstaða er tekin. Þó heimild kæmi inn í næstu fjárlög til að hefja þessa starfsemi mundi hún ekki geta tekið til starfa fyrr en í ársbyrjun 1985, svo langur er fresturinn til undirbúnings.

Persónulega er ég jákvæður gagnvart því að hefja hjartaskurðlækningar á Landspítalanum sem allra fyrst. En ég tel eins og málum er háttað nú að brýnna sé að verja fjármunum til að gera rannsóknarstarfsemi í sambandi við kransæðaskoðanir öruggari og að næsti tækjabúnaður, sem keyptur verður til spítalans, verði vegna þeirra rannsókna og það tel ég að sé það brýnt verkefni að undan því verði ekki vikist að gera hið allra fyrsta.

Það hefur komið nýlega bréf til mín að gefnu tilefni út af þessum umræðum, frá prófessor Ásmundi Brekkan. Þar ræðir hann um tækjabúnað vegna hjartarannsókna og sendir mér þar yfirlit um hvað hann telji að þurfi að kaupa og grófar kostnaðartölur um þau tæki. Hér er um að ræða röntgentæki, stjórnborðspenna, röntgenlampa ásamt fylgihlutum, skyggnimagnara sjónvarpsbúnaðar ásamt kvikmyndabúnaði, rannsóknarborð með skoðunararmi, vídeobúnað fyrir tengingar við skyggnimagnara og mælaútbúnað; þetta er áætlað á 510 þús. Bandaríkjadali eða í kringum 15 millj. íslenskra króna og er þá ekki reiknað með neinum aðflutningsgjöldum og tollum.

Ég tel að það sé forsenda þess að hægt sé að hefja skurðlækningar við Landspítalann að þessi tæki séu keypt.

Hjartaþræðing hefur ekki farið fram með eðlilegum hætti vegna þess að tækin eru úrelt; það eina sem hefur áunnist á þremur árum er að hlaðist hefur upp biðlisti. Fyrst og fremst verður að eyða þeim lista með því að kaupa þessi tæki. Ég legg á það höfuðkapp við afgreiðslu fjárlaga að þessi rannsóknartæki séu keypt og þetta komi inn í fjárlagafrv. áður en Alþingi gengur frá því. Ég mun ekki sem heilbrrh. sætta mig við að frá fjárlagafrv. verði gengið með þessum hætti. Þar vil ég flytja þá breytingartillögu sjálfur og auðvitað verð ég þá að standa frammi fyrir því hvort hún nær fram að ganga eða ekki. Í framhaldi af því mun ég skipa nefnd — ekki þrýstihóp heldur nefnd sem vill líta á málin frá öllum hliðum og athuga hvað sé skynsamlegt að gera, nefnd sérfræðinga og nefnd þeirra, sem um þessi mál hafa mest fjallað, til þess að ganga frá endanlegu áliti og samanburði á kostnaði við hjartaskurðlækningar — og leggja á það ríka áherslu að sú nefnd ljúki störfum fyrir vorið. Þannig að þessi mál verði tilbúin áður en farið er að vinna að gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1985. Þannig hef ég hugsað mér að halda þessu starfi áfram og legg höfuðáherslu á að koma rannsóknarstarfseminni á stað.

Ég vil að síðustu — það má ræða þessi mál miklu ítarlegar, það er ekki hægt að gera í fyrirspurnatíma — nefna að það eru nokkur önnur mál í starfsemi ríkisspítalanna sem er aðkallandi að sinna og ekki síður aðkallandi að mínum dómi en hjartaskurðlækningar og þar á ég fyrst og fremst við krabbameinslækningar, sem hefur dregist allt of lengi að huga að og hafa setið á hakanum og sömuleiðis á fjvn. eftir að standa frammi fyrir að heimila stöður til þess að stækka og víkka út starfsemi bæklunardeildarinnar.