17.12.1983
Neðri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt að í þessum umr. hefur verið beint til mín ýmsum spurningum og þeim var beint til mín aftur í nótt mörgum hverjum sem ég hafði þá þegar svarað í máli mínu áður. Hins vegar er rétt að við 1. umr. hafði verið ákveðið að fundi yrði lokið kl. fimm. Ég komst hér að 10 mín. fyrir fimm. Ekki hefur verið möguleiki til að ég gæti talað mjög lengi í þessum umr. og ég hef m.a. gert það af tilliti til annarra þm. sem að sjálfsögðu hafa þurft að koma fram með ýmsar skoðanir í máli þessu.

Ég vil aðeins víkja að aðdraganda þessa máls vegna þess að mikið hefur verið um það rætt. Aðdragandinn er sá eins og kemur fram í grg. með frv. að nefnd skipuð fulltrúum hagsmunaðila semur frv. á s.l. vetri og sú nefnd kemst að þeirri niðurstöðu að auka þurfi heimildir til handa ráðh. til að stjórna veiðunum, bæði til að auka sveigjanleika og einnig til að festa betur í sessi þær stjórnunaraðgerðir sem hafa verið notaðar fram að því.

Það sem fram kemur í þessu frv. er mjög svipað og kemur fram í því frv. nema sú nefnd vildi að vísu ganga enn lengra og gerði að tillögu sinni að ráðh. gæti með reglugerð ákveðið nánast allar landhelgislínur.

Þegar ég sá þetta frv. fannst mér þar vera fulllangt gengið og mjög mikilvægt væri að landhelgislínur væru fastar í lögum eða a.m.k. lægi fyrir ákveðið í reglugerð hvernig þeim skyldi háttað áður en slíkt frv. væri flutt.

Alltaf má deila um hvernig unnið skal að máli sem þessu. Ég fór þá leið að ég ræddi þetta mál og ýmis önnur á fjölmörgum fundum útvegsmanna víðs vegar um land, á Norðurlandi, Austurlandi, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum svo eitthvað sé nefnt, ræddi þessi mál við þá menn sem best þekkja hér til.

Ég ræddi þessi mál einnig ítarlega á fundi LÍÚ á Akureyri og setti þar fram mínar skoðanir. Ég gerði það einnig á ársfundi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Ég gerði það einnig á Fiskiþingi og ég ræddi við ýmsa hagsmunaaðila um þessi mikilvægu mál.

Áður en Fiskiþing kom saman lágu fyrir drög að frv. til að fá nauðsynlegar heimildir. Ég kallaði saman sjútvn. þingsins, kynnti þessi drög og fulltrúar á Fiskiþingi vissu um þessi drög þegar þeir ræddu mál þar.

Strax að loknu Fiskiþingi var samið frv. og drögunum breytt þannig að hægt væri að framkvæma það sem þar var samþykkt. Þar voru saman komnir aðilar af öllu landinu sem mjög vel þekkja til í sjávarútvegsmálum og ræddu þessi mál mjög ítarlega.

Að loknu Fiskiþingi kallaði ég aftur saman sjútvn. þingsins og lagði fyrir nefndirnar ný drög að frv. Það er nú að vísu ekki rétt, það var ekki gert á formlegum fundum. Það var gert þannig að því var dreift til þingflokkanna — mig minnir að það hafi verið á mánudegi — og ég óskaði eftir því að þingflokkarnir tækju þessi drög til umr. og meðferðar til að sjútvn.menn þingsins gætu síðan rætt það á fimmtudegi og þingflokkarnir tekið málið fyrir á miðvikudegi.

Við komum saman á fimmtudegi og ræddum þessi mál. Þeim drögum sem lágu fyrir var dreift og það gert alveg skýrt að náið samráð yrði haft við sjútvn. þingsins og við hagsmunaaðila.

Vel má vera að mönnum finnist þetta vera ófullnægjandi og óeðlileg vinnubrögð. Ég hef setið á Alþingi alllengi og þau ár sem ég hef verið hér hefur ekki verið rík venja að ræða mál þannig við sjútvn. þingsins áður en þau eru lögð fram. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar að hér væri um svo stórt mál að ræða og mikilvægt sem ætti að vera hægt að ná góðri samstöðu um í þinginu að ég taldi það nauðsynlegt. Ég taldi að ég hefði tekið fullt mið af þeim vilja sem kom fram á þessum fundum frá þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem þar voru staddir og höfðu rætt þessi mál í sínum þingflokkum.

Nú er það hins vegar alveg rétt að við höfum haft tiltölulega lítinn tíma fyrir mál þetta og vissulega hefði verið mun betra að hafa lengri tíma. En ég leyfi mér að fullyrða að ég lagði mig fram um það á fyrstu stigum málsins að hafa fullt samráð við stjórnarandstöðuna.

Hins vegar kom fljótt í ljós að skiptar skoðanir og mismunandi áherslur voru um ýmsa hluti og menn vildu margir hverjir fá meiri tryggingar fyrir því að fullt samráð yrði t.d. haft við hagsmunaaðila. Hagsmunaaðilarnir sjálfir, sem mjög vel þekkja til þessara mála, töldu að mjög varhugavert gæti verið á þessu stigi að festa það beinlínis í lagagrein af þeirri einföldu ástæðu að við höfum mjög mikið samráð við hagsmunaaðila um hinar ýmsu ákvarðanir varðandi loðnuveiðar, síldveiðar og annað slíkt. Þetta samráð var áður fyrr í mjög miklum mæti skriflegt með bréfum. Lögfræðingar töldu að það gæti orðið mjög þungt í vöfum og mjög mikil óvissa í kringum slík skrifleg samráð, hægt væri að draga í efa að réttur aðili hefði mætt og rétt hefði verið að samráðinu staðið því það er út af fyrir sig alveg rétt að það samráð sem haft er í landinu á ýmsum vettvangi er mjög mismunandi.

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að komin er mjög ákveðin reynsla á samráð innan sjávarútvegsins og þeir aðilar sem hafa tekið þátt í því eru ánægðir með það.

Ég vil einnig taka fram að ég skipaði ráðgjafarnefnd í sjávarútvegsmálum fljótlega upp úr fundi LÍÚ á Akureyri þar sem ég skýrði frá því að ég teldi nauðsynlegt að gera það vegna hinnar mjög erfiðu stöðu í sjávarútveginum. Það er algjörlega rangt að þessi nefnd sé valin af einhverju handahófi mínu. Í henni er forstjóri Þjóðhagsstofnunar, en Þjóðhagsstofnun kemur mjög mikið inn í vandamál sjávarútvegsins. Þar er varaforstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jakob Jakobsson. Þar er fiskimálastjóri, sem stjórnar Fiskifélagi Íslands, sem er mjög mikilvæg stofnun sjávarútvegsins. Þar eru formaður Landssambands ísi. útvegsmanna, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og formaður Sjómannasambands Íslands. Frá fiskvinnslunni er Sigurður Markússon sem er forstjóri hjá sjávarafurðadeild Sambandsins og einnig stjórnarmaður í sambandi ísl. fiskframleiðenda. Ég ræddi hans tilnefningu við fulltrúa vinnslunnar en þeir eru mjög margir. Þarna eru skreiðarframleiðendur og saltfiskframleiðendur, margir í frystiafurðum, lagmeti o.s.frv. Fyrir hana hefur einnig mætt Eyjólfur Ísfeld og einnig hefur mætt frá LÍÚ Þórhallur Helgason sem var í nefndinni sem samdi upphaflega frv. Ég vil því algjörlega mótmæta því að þarna séu menn sem ég hafi valið af einhverju handahófi og þá sem persónur. Þetta eru allt saman menn sem voru fyrir í þessu samráði og ég hafði að sjálfsögðu samband við þessi samtök. Ég leyfi mér að fullyrða að allir þessir menn hafa mikið traust meðal aðila í sjávarútveginum enda allir þar í æðstu forustu. Það hlýtur að vera eðlilegt að slíkir menn séu sérstaklega kallaðir til þegar við svo vandasöm mál er að etja.

Þessir aðilar hafa m.a. ritað grg. sem þm. hafa séð, um það sem þeir telja nauðsynlegt að komi inn í lög. Þessir aðilar hafa einnig komið fram með ábendingu um aflamark á næsta ári. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur verið haft eins mikið samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá ákvörðun. Sjútvrh. ber að taka hana samkv. lögum.

Ég taldi hins vegar nauðsynlegt við þessar sérstöku aðstæður að láta fara fram endurmat á till. Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnunin hefur lýst yfir sérstakri ánægju sinni með að svo skyldi hafa verið gert. Sú niðurstaða varð síðan mín ákvörðun þannig að mér þykir út af fyrir sig leitt að heyra að menn telji að þessi samráð séu ekki nægilega trygg á sama tíma og þeir aðilar sem þarna eiga fyrst og fremst hlut að máli hafa lýst yfir ánægju sinni með þau. Á samráðsfundi í gær lýsti ég því fyrir þeim með hvaða hætti mál þetta yrði unnið og greindi frá því hér í þingdeildinni og spurði þá hvort þeir teldu ekki þann hátt sem ég sagði að mundi verða hafður á vera fullnægjandi og hvort þeir teldu ekki að okkar samskipti hefðu verið mjög treyst og tryggð með skipum ráðgjafarnefndarinnar. Greinilega kom fram að menn földu að svo væri.

Í fyrsta skipti á þessum fundi mættu fulltrúar frá ASÍ eða fiskverkafólki. Þeir tjáðu sig ekki á þessum fundi enda var það í fyrsta skiptið sem þeir mæta á slíka samráðsfundi. Hins vegar var mikilvægt að þeir skyldu koma þá þegar inn í það og verða þar að sjálfsögðu í framhaldi málsins.

Hér hefur sérstaklega verið spurt um rekstrargrundvöll útgerðarinnar. Ég vil út af fyrir sig lýsa yfir ánægju minni með að menn skuli hafa áhyggjur af þessum rekstrargrundvelli. Ég fagna því. Það er öllum ljóst að á s.l. vori voru samþykkt lög til að gera útgerð í landinu mögulega og rekstur sjávarútvegsins mögulegan.

Það er alveg rétt að afkoma sjávarútvegsins er þrátt fyrir þetta slæm og ekki mjög fallegt fram undan í þeim efnum. Af hverju ætli það sé að hagsmunaaðilar í sjávarútveginum vilja gera tilraun til að fara nýjar leiðir í skipulagi veiðanna og biðja um að fá um það fulla samvinnu við mig og biðja um að til þess séu veittar fullar heimildir til sjútvrn.? Það er vegna þess að þeir sjá það sem eina möguleikann til að geta haldið atvinnugreininni gangandi á næstunni að slík endurskipulagning fari fram. Þeir sjá það sem eina möguleikann til að koma í veg fyrir verulegt atvinnuleysi.

Við skulum taka sem dæmi eitt skip. Helstu rekstrarliðirnir eru laun sjómannanna, olían, viðhaldið og fjármagnskostnaðurinn. Allir eru sammála um að ekki verður gengið lengra í lækkuðum aflahlut sjómanna. Við stjórnum því miður ekki verðlaginu á olíunni erlendis. Við stjórnum ekki erlendum vöxtum sem hvíla af miklum þunga á útgerðinni. Viðhaldið er kostnaður sem erfitt er að ráða við af opinberri hálfu. Eina leiðin er því að draga úr atmennum kostnaði við sóknina og reyna að auka verðmætin og til þess þarf nýjar leiðir. Um það snýst málið.

Hitt er svo annað mál, að jafnvel þótt okkur takist að draga úr sóknarkostnaðinum og auka aflaverðmætin er ekki tryggt að útgerð skipanna í landinu geti átt sér stað með skaplegum hætti á næsta ári. Það er langt í frá.

Menn tala gjarnan um að hið opinbera verði að koma hér inn með einhverjum hætti og aðstoða við útgerðina. Vel má vera að svo verði að gera en við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að við getum aldrei gert það í þeim mæli sem Norðmenn og Kanadamenn gera til dæmis. Upphæð sem samsvarar rúmlega 1/3 af fjárlögum íslenska ríkisins fer til styrktar útgerð í Norður-Noregi. Í Norður-Noregi býr ekki nema helmingi fleira fólk en á Íslandi og landssvæðið er álíka stórt og Ísland. Slíkt getum við ekki gert. Við sjáum ekki fram á það.

Þess vegna þurfum við að leita annarra leiða.

Það er út af fyrir sig til lítils að fara með þær nýjustu opinberu tötur um tap útgerðarinnar sem hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði til og hafði fengið í hendur frá Þjóðhagsstofnun. Þær eru frá því í nóv. Þar er talið að tap togaranna sé um 20%. Það er alveg gífurlegt tap og rekstur togaranna er mjög erfiður.

Hins vegar eru margar skýringar á þessu tapi. Fyrst og fremst er það aflaleysið. Það er of mikill sóknarkostnaður, það er mikill fjármagnskostnaður sem fer sem betur fer lækkandi. Minni verðbólga er það sem raunverulega skiptir útgerðina mestu máli. Hin mikla verðbólga hér á undanförnum árum hefur gert greiðslubyrði útgerðarinnar nánast óbærilega vegna þess að upphækkun lánanna er svo þung útgerðinni og vextirnir og hefur gert úrgerðinni mjög erfitt fyrir. Þannig er þessi afkomumynd. Hún er mjög dökk og engin ástæða er til að draga þar neitt úr. Það er vá fyrir dyrum í þeim efnum og þess vegna vilja aðilar í útgerð leita allra leiða til að koma á nýju skipulagi. Ég hef tekið fram að við erum ekki farnir að sjá fyrir endann á því. Ég hef jafnframt sagt hér að verið er að vinna að útfærslu á kvótakerfinu í fullu samráði við hagsmunaaðilana. Ráðgjafarnefndin mun leggja fram ábendingu um slíkt kerfi og málið verður síðan lagt fyrir hagsmunaaðilana.

Ég hef margtekið þetta fram og ætla ekki að endurtaka það hér. Ég hef verið spurður hér um smáfiskadráp. Ég hef svarað því. Ég hef verið spurður hér um hugsanleg kaup og sölu leyfa. Ég hef svarað því. Ég sagði að vísu ekkert um erlendar veiðar. Hvernig dettur mönnum í hug að einhver ætli sér að fara að láta veiðileyfi ganga til útlendinga? Ég verð að segja að ég skil ekki svona spurningar. Við erum að segja upp veiðiheimildum erlendra þjóða. (Gripið fram í.) Svo er verið að spyrja mig um það. Við höfum beitt okkur sérstaklega fyrir því að segja upp þessum heimildum. Svo er verið að spyrja mig hvort ég ætli að fara að standa fyrir því að seldar verði veiðiheimildir til erlendra þjóða. Ég verð að segja að ég skil ekki slíka spurningu, en vænti þess að um það sé fullur skilningur og samkomutag í þinginu að við þurfum á öllu okkar að halda. Ég veit að allir eru þeirrar skoðunar. Við höfum ekkert aflögu handa öðrum og við eigum ekki að þurfa að ræða að frekar. Auðvitað á íslenska þjóðin öll fiskimið. Ég tek undir það og um það hefur aldrei verið pólitískur ágreiningur. (Gripið fram í.) Já, já, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson veit ósköp vel að ég mæli það af heilum hug. Hins vegar er óþarfi að mínu mati að setja slíkt ákvæði inn í þessi lög. Það er nú svo að ekki verður allt ákveðið í lögum sem betur fer. Menn geta ekki tryggt alla hluti í lögum. Hins vegar er mikilvægara en allt annað að það sé skýrt í vitund okkar og vitund þjóðarinnar og menn berjist hart fyrir þeirri vitund og fyrir þeim hugsjónum hvar sem er. Það hafa Íslendingar gert og staðið einhuga um það. Um það ættum við ekki að þurfa að ræða.

Ég hef rætt hér um atvinnuástandið og látið koma skýrt fram að við skipulag veiða er einmitt haft í huga að reyna að tryggja betur atvinnuástandið. Hins vegar er uggvænlegt að minni aflabrögð þýða minni vinnu og þess vegna verðum við að reyna að gera það besta úr.

Hér hefur verið spurt um siglingar. Ég kom ekki að því. Ég vil í því sambandi m.a. geta þess sem kemur fram í bréfi Landssambands ísi. útvegsmanna:

„Þegar litið er til afla skipa sem siglt hafa með afla á erlendan markað kemur í ljós að aflamagn þeirra er minna en ella hefði verið. Vegna þess er nauðsynlegt að ákveða þegar í upphafi að útgerðarmönnum verði frjálst að ráðstafa aflakvóta á þann hátt sem þeir telja sér og skipshöfn sinni til mestra hagsbóta.“

Hér er vissulega um erfitt mál að ræða. En ég vil þó taka fram að við verðum að sinna okkar verðmestu mörkuðum. T.d. er gert ráð fyrir að karfaaflinn á næsta ári sé 110 þús. tonn. Í Þýskalandi eru verðmiklir markaðir sem við höfum alltaf sinnt. Þar höfum við fengið mun betra verð en fyrir frystan karfa og ég geri ráð fyrir að menn reyni að sinna þessum mörkuðum áfram. Það hlýtur að vera okkar stefna að framleiða á markaði þar sem við fáum mest fyrir vöruna. Það er nú ekkert flóknara en það.

Þessar siglingar hafa verið skipulagðar af Landssambandi ísl. útvegsmanna með heimild viðskrn. Sjálfsagt þarf að taka þau mál til einhverrar endurskoðunar eins og stundum hefur verið áður gert, en það liggur ekki fyrir enn þá hvernig það skipulag verður.

Spurt var um eftirlit og ég kom inn á það í mínu svari. Spurt var hvort eingöngu væri verið að tala um kvótakerfið fyrir togara en ekki fyrir báta. Í öllum þeim samþykktum sem hafa komið frá hagsmunaaðilunum er skýrt talað um að það sé bæði fyrir togara og báta. Hins vegar er ekki ljóst á þessu stigi hvað það kvótakerfi verður víðtækt. Við höfum kvóta í ýmsum veiðum. Við höfum kvóta í síld og það eru í sumum tilfellum heildarkvótar. Við höfum kvóta í humar og þar eru heildarkvótar. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort þessu skipulagi verður breytt eða áfram búið við heildarkvóta í einhverjum mæli.

Herra forseti. Ég hef reynt og var búinn að reyna áður í umr. að svara því sem hér hefur komið fram. Út af fyrir sig má endurtaka þær spurningar skipti eftir skipti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég harma það að ekki skyldi takast betri samstaða í þinginu um málið og í reynd — (Gripið fram í.) — og í reynd hvað hv. þm. komu seint fram með sínar brtt. Alltaf hefur verið venja í þinginu að ræða mál við fulltrúa flokkanna í nefndum, það hefur alltaf gengið þannig fyrir sig, og síðan hafa þessir fulltrúar, hvort sem þeir eru í okkar flokki eða öðrum, komið með málin inn á þingflokksfundi hjá okkur. Þannig höfum við fetað okkur áfram. Það gerði ég og ég veit að hv. þm. Garðar Sigurðsson mælir af mjög heilum hug og mér þykir leitt að menn skuti vera að hnýta í hann í sambandi við þetta mál og kalla hann einhvern aðstoðarmann hjá mér eins o hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson leyfði sér að gera. ÓRG. Er það ekki kompliment?) Mér finnst það vera algjör óþarfi. Hv. þm. Garðar Sigurðsson er mjög vel að sér í sjávarútvegsmálum. Hann hefur verið til sjós á hverju einasta ári síðan hann kom hingað og enginn hér í þinginu þekkir betur til fiskimiðanna. Ég hef starfað með honum lengi í sjútvn. ásamt mörgum öðrum og hef haft mikið gagn af því í gegnum tíðina að hlusta á hans skoðanir. Ég verð að segja fyrir mig að mér þykir líka miður að hans flokkur skuli ekki vera tilbúinn að taka mið af þeirri miklu reynslu sem hann hefur. Ég hef gert það í gegnum tíðina og haft mikið gagn af. En um það ætta ég ekki að fara að deila. Menn verða að hafa ýmsar skoðanir í þessum málum. Ég vil segja að mjög mikilvægt er að þetta mál nái fram að ganga. Um það hefur orðið mikil og efnisleg umr. Greinilega hefur komið í ljós hver vilji þingsins er í þessu máli í þeirri atkvgr. sem nú hefur farið fram. Ég vænti þess að málið fái nú greiða afgreiðslu þannig að hv. Ed. fái einnig nokkurt ráðrúm til að fjalla um málið.