17.12.1983
Neðri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessu máli hefur nú miðað það hér í hv. deild að það er komið til 3. umr. og það hefur einnig gerst, sem menn höfðu reyndar beðið nokkuð eftir, að hæstv. sjútvrh. hefur komið í þennan ræðustól og flutt allnokkra ræðu og leitast við að svara í ýmsu því sem hann hefur lengi og mikið verið spurður um. Það er þá góðra manna háttur að þakka fyrir sig. Ég vil fara ofurlítið yfir svör hæstv. sjútvrh. og jafnframt lýsa minni afstöðu til nokkurra af þeim spurningum sem ég hef, eins og áður hefur komið fram, talið mikilvægt að hér yrðu ræddar og leitað yrði svara við.

Eitt af þeim atriðum sem mikið hefur verið spurt um, bæði hér á hv. Alþingi og víðar, í fjölmiðlum og í orðræðum manna á meðal, er hvort heimila skuli sölu á aflaleyfum eða sölu á kvóta. Ráðh. hefur nú lýst þeirri skoðun sinni að hann telji slíkt fyrirkomulag ekki æskilegt, að þar verði um beina sölu að ræða, og ég er honum þar sammála og sýnist það nú enn á sannast að um ýmislegt reynast hv. þdm. sammála ef þeir gefa sér tíma til að láta það koma fram. En það eru auðvitað fleiri hliðar á því hvernig aflakvóti gæti gengið milli manna eða milli skipa eða milli útgerðarstaða en að um beina sölu fyrir beinharða peninga yrði að ræða. Sumir telja eðlilegt að leyft yrði að skipta með einhverju móti á aflakvótum. En ég vil einnig taka vara við þeim hugmyndum og bendi á að þar með opnast fyrir sömu vankantana og ef um beina sölu væri að ræða. Þar með verður hreyfing á aflakvóta milli aðila, hugsanlega milli byggðarlaga eða landshluta, og þarf að gæta vel að því, ef slíkt verður leyft. Það er einnig mjög erfitt að tryggja að um einhvers konar greiðslur undir borðið verði ekki að ræða, ef verið er að heimila flutning á aflakvóta á annað borð milli manna. Ég hefði talið það eðlilegast og raunar alveg nauðsynlegt að aflakvóti yrði á einhvern hátt bundinn við löndunarstað eða atvinnusvæði, þannig að ekki gæti á tiltölulega skömmum tíma raskast verulega atvinnuástand og umsvif á einum stað vegna mikils flutnings á aflakvóta til eða frá staðnum. Væri óæskilegt og mjög hættulegt ef unnt væri að gera slíkt í krafti peningavalds. Þess vegna er það mín eindregin skoðun að varast beri slíkar hugmyndir.

Annað atriði sem ég hef nokkuð rætt í þessu sambandi er smáfiskadráp, þ.e. hvernig unnt verði að tryggja að ekki verði sótt meira í smáfisk en mögulega verður komist hjá og einnig hitt, að sá fiskur sem upp kemur verði nýttur. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að fara ofurlítið ofan í hvað við er átt með smáfiski.

Nú vitum við að stærðarmörk hafa breyst í gegnum tíðina. Þau hafa þokast upp á við úr 43 cm í 47 cm og eru nú 50 cm. Þarna hafa ráðið ferðinni friðunarsjónarmið, en ekki sölumöguleikar á smáum þorski. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, því að verði slíkt aflastýringarkerfi sett á laggirnar er nauðsynlegt að endurskoða með hvaða hætti er aftur hugsanlega hægt að flokka og nýta þann smáfisk sem er vel seljanlegur eða kann að vera það, en hefur verið flokkaður sem smáfiskur hingað til. Það er ekkert sjálfgefið að við eigum að halda okkur áfram við þessi hin sömu stærðarmörk. Vel kann að vera rétt að athuga með hvaða móti er hægt að afla markaða og koma í verð einhverjum stærðarflokkum fiskjar sem liggja undir þeim mörkum sem menn hafa miðað við síðustu árin, þ.e. að því gefnu að eitthvert magn nýtist af slíkum fiski. Ég held að það megi ljóst vera af umræðum undangenginna ára í þessu sambandi að eitthvað af þessum fiski kemur upp á dekk. Hitt er svo annað mál, að hve miklu leyti hann hefur skilað sér í land á undanförnum árum. En það er alveg nauðsynlegt, ekki síst þegar minna er til skiptanna, að allur sá fiskur sem á annað borð er drepinn komi að landi og hann verði nýttur sem best. Þess vegna tel ég þetta vera eitt af þeim stóru atriðum sem þurfa að skoðast jafnhliða. Það þarf með einhverju móti að tryggja að allur nýtanlegur þorskur sé hirtur, en samt má ekki hvetja til veiða á smáum þorski. Það þarf að tryggja að eftir þeim reglum sem settar eru verði farið og það þarf með einhverju móti að koma á sjálfvirku eftirlitskerfi í þessu sambandi. Ég held að það verði ekki betur gert með öðru móti en því, að einhverjir sjái sér beinan hag í því að nýta þennan afla.

Þegar frv. til l. um ríkismat sjávarafurða var til umr. á þessu hv. Alþingi hreyfði ég þeirri hugmynd, sem ég vil taka fram að er ekki mín upphaflega, að ákveðinn hluti áhafnar á fiskiskipum, sem leggur á sig vinnu við að nýta þennan smáfisk, skyldi fá hann í sinn hlut. Hins vegar skyldu yfirmenn, skipstjóri og aðrir yfirmenn sem ekki taka beinan þátt í þeim störfum sem þarna er um að ræða, ekkert fá í sinn hlut, lítið eða ekkert. Sömuleiðis skyldu útgerðaraðilar fá lítið eða ekkert í sinn hlut. Þetta er ein möguleg útfærsla á þessu sjálfvirka eftirlitskerfi, sem mundi þá þýða að þeir sem sæju sér beinan hag í því að þessi afli væri nýttur sæju um að hann kæmi að landi. Aðrir aðilar, svo sem eins og yfirmenn á skipunum og útgerðaraðilar, litu á þetta fremur sem kostnaðarauka og tímaeyðslu frá öðrum veiðum og mundu því ekki sjá sér hag í því að skip lægju í smáfiskiríi. Útgerðaraðilar mundu hvetja skipstjórnarmenn sína til að forðast slíkt, en áhöfnin, eins og ég sagði áðan, mundi hins vegar tryggja að sá afli sem þrátt fyrir það kæmi upp kæmi í land og yrði nýttur. Því er þannig farið, a.m.k. á togveiðum á mörgum slóðum, að það er óhjákvæmilegt að eitthvað af smáfiski lendi með í aflanum. Það er óhjákvæmilegt. Samsetning fiskjar er einfaldlega þannig á mörgum aflaslóðum. Ég tek þessa hugmynd hér aftur upp og ítreka hana, m.a. vegna þess að hæstv. sjútvrh. hefur ekki svarað því hér hvort um yrði að ræða aflamagns- eða aflaverðmætiskvóta. Það er lykilatriði í þessu sambandi og því þarf að svara og á því þurfa að finnast svör jafnhliða og þetta er skoðað.

Þá hefur einnig verið rætt hér um rekstrarstöðu útgerðarinnar í landinu. Hæstv. sjútvrh. hefur verið spurður að því aftur og aftur héðan úr ræðustól hv. Nd. hvaða lausnir væru í sjónmáli á rekstrarstöðu útgerðarinnar. Ráðh. tók svo til orða hér í dag að víst væri þar um dökka mynd að ræða, um 20% taprekstur á togurum nú um stundir, og þetta væri ekki efnilegt, það viðurkenndi ráðh. En miklu meira sagði hann ekki um þessi mál. Jú, hann sundurtiðaði reyndar fyrir okkur í hverju helstu kostnaðarliðir í útgerð væru faldir, þeir lægju í launum, í olíu, í viðhaldi og fjármagnskostnaði. Þetta var fróðleg og rétt sundurliðun. En hún hjálpar okkur ekki mikið við það að fá svörin við því hvað eigi að gera. Hvað á t.d. að gera með nýtt fiskiskip? Við skutum segja að það sé smíðað innanlands á árinu 1980 og þá gæti staða þess hafa verið t.d. um síðustu mánaðamót hjá Fiskveiðasjóði Íslands eitthvað á þá leið að áhvílandi á skipinu væru 170 millj. kr. — við skulum segja 170 millj. kr. til að taka einfalda tölu. Mér þætti ekki ólíklegt að á þessu sama skipi hefðu þar af verið í vanskilum 30–40 millj. kr. með tilheyrandi kostnaði fyrir útgerðina. Þetta gæti verið togari í stærri hópnum, þar sem rekstrarstaðan er jafnvel enn þá erfiðari en hún er að meðaltali. Nú er það upplýst hér að svona skip, sem er kannske með 40 millj. kr. vanskil í fjárfestingarlánasjóðunum, sé nú rekið með 20% halla. Hvert stefnir þá fyrir þetta skip, sem þegar er með vanskil upp á 40 millj. kr. og er um þessar mundir rekið með 20% halla? Hvernig er þetta dæmi, hæstv. sjútvrh.? Þarf ekki einhverjar aðgerðir og það býsna fljótt ef þetta skip á að geta haldið áfram útgerð? Ég hefði haldið það. Það er kannske frumatriðið að svara þessari spurningu, hvernig á að bregðast við rekstrarvanda þessa skips, áður en við förum að tala um hvað mikið eigi að leyfa því að veiða á næsta ári, því mér er stórlega til efs, hæstv. sjútvrh., að þetta skip veiði nokkurn einasta titt á næsta ári ef ekki verður eitthvað að gert í rekstrarmálum þess. Það gæti farið svo að með öllu væri óþarft að vera að fjalla um aflakvóta fyrir þetta skip ef ekkert á að gera í því máli sem ég hef hér rakið. Þannig gæti dæmið litið út fyrir þriggja ára gamalt fiskiskip, þriggja ára gamlan meðalstóran skuttogara smíðaðan á Íslandi.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að skoða ofurlítið þróun fiskverðs á undanförnum við skulum segja 2–3 árum til að horfa á hvert stefnir með fiskverð. Ég er hér með viðmiðun við gengi Bandaríkjadollars á því tímabili sem ég hér rakti. Ég er með viðmiðun fiskverðs í kg við gengi Bandaríkjadollars á þessu tímabili. Ég hef hana svo vegna þess að lánin eru í flestum tilfellum miðuð við gengi þess gjaldmiðils. Þannig er það býsna raunhæfur mælikvarði á stöðu skipsins, miðað við fjármagnskostnað, hvernig fiskverð á Íslandi hefur þróast undanfarin ár miðað við gengi Bandaríkjadollars. Ef við tökum fiskverðið í janúar árið 1981 fengust 3,17 kr. íslenskar fyrir kg eða rétt um 50 cent, 0,51 Bandaríkjadalur á þessum tíma. Það verð fór síðan heldur lækkandi á fyrstu mánuðum ársins 1981. Í maímánuði var það 0,42 Bandaríkjadalir, þokaðist nokkuð upp á við á síðari hluta ársins og var 47 cent í des. árið 1981 eða 0,46 dalir. Síðan fer það aftur lækkandi fyrstu mánuði ársins 1982 og er í júní komið niður í 40 cent og í ágúst ofan í 38 cent. Það kemst aftur upp í 46 cent í janúar árið 1983, en í maímánuði árið 1983 er þetta eina og sama kg af fiski 7,87 kr. og 0,34 Bandaríkjadalir eða 34 cent. Það hefur þarna fallið úr 51 centi í 34. Þannig er staðan í maímánuði, þegar þessi hæstv. ríkisstj. tekur við, og síðan hefur þetta með þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. hefur gert og áttu að verða til að bjarga útgerðinni endað þannig að hún er nú rekin með, í því tilfelli að um skuttogara sé að ræða, 20% halla. Til er í landinu langur listi af skipum sem eru undir hamrinum, sem eiga ekki fyrir skuldum og sem eiga það undir náð og miskunn að verða ekki boðin upp og seld hæstbjóðanda á næstu vikum og mánuðum, þ.e. ef einhver vill kaupa. Þannig er nú ástandið orðið, svo að við ræðum ofurlítið um rekstrarstöðu útgerðarinnar í dag. Og ætla menn svo að segja það hér að það séu einhverjar málalengingar að spyrja spurninga í þessu sambandi, þegar verið er að fjalla um mótun fiskveiðistefnu fyrir næsta ár? Mér er spurn því eins og ég sagði áðan kann svo að fara að öll okkar vinna sé unnin fyrir gýg í tilfellum margra skipa og margra útgerðaraðila ef ekki finnst skjót lausn á þessu máli. Ég tek undir með hæstv. fjmrh. þjóðarinnar, sem einn manna hefur haft kjark til að segja það opinberlega, a.m.k. einn manna úr hópi þessarar ríkisstj., að það sé ósköp einfalt í því tilfelli þar sem viðkomandi aðili á ekki lengur fyrir skuldum og vantar mikið upp á að draga yfir þær einhvers konar strik. Það má auðvitað deila um útfærslu á því, hvort það verði feitt eða mjótt strik og með hvernig penna það verður dregið, en ég held að það sé alveg ljóst að skuldastaða íslenskra fiskiskipa í dag, þeirra nýrri, er þannig, að í ljósi þess ástands sem er í sjávarútveginum og þeirra horfa sem uppi eru um afla á næstu árum koma þessi skip ekki til með að bæta rekstrarstöðu sína þannig að þau ráði við þessar skuldir. Hafi menn verið í vafa um það framan af þessu ári og fram á haustið ættu menn ekki að vera það lengur eftir að spár Hafrannsóknastofnunarinnar litu dagsins ljós. Eftir að þær voru orðnar ljósar ættu þeir hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. ekki að þurfa að vera í vafa um það lengur að þeir þyrftu að leggja til einhverjar aðgerðir. Það hefur hins vegar, eins og ég áður sagði, lítið farið fyrir því enn hér á hinu háa Alþingi í umr. um þetta mál eða í umr. um þjóðmál yfirleitt að þessir menn svöruðu einhverju til um hvað þeir hygðust gera. Ég trúi ekki öðru en margir af hv. þdm., sem ýmist eru hér inni eða fjarverandi, gætu tekið undir þau orð mín að þetta sé í hópi forgangsverkefnanna í þessu máli. (HBl: Það er nú gott að koma því að.) Það er rétt, hv. þm. Halldór Blöndal, ég vona að það hafi komist nokkuð til skila hér að ég legg áherslu á að þetta mál verði hér rætt ásamt með öðru. Auðvitað mundi ég þiggja að hv. þm. Halldór Blöndal aðstoðaði okkur í umr. með sérfræðiþekkingu sinni og lýsti skoðunum sínum og síns flokks t.d. í þessu efni.

Það væri fróðlegt að fara ofan í það hér, og mætti gera það allítarlega, á hvaða forsendum og á hvaða vísindalegu niðurstöðum þær spár um afla og þær tillögur um æskilegan hámarksafla á næsta ári eru byggðar sem við höfum hér undir höndum og eru frá Hafrannsóknastofnun komnar. Herra forseti. Ég held þó að það sé ekki ráðlegt að ég leggi út í mjög fræðilega umfjöllun um hversu traustar þessar upplýsingar eru. Þó má öllum vera ljóst að það skiptir auðvitað höfuðmáli ... (HBl: að upplýsingarnar séu réttar.) Það er eins og ákveðnir menn hafa sagt hér: Sumir vilja meina að það sé nógur fiskur í sjónum og þetta sé ekkert vandamál, það sé bara misjafnlega mikil veiði. Aðrir hafa af þessu meiri áhyggjur og til eru þeir sem segja að það sé ekkert vit í því að menn fari fram úr þeim aflamörkum sem helstu sérfræðingar þjóðarinnar í þessum efnum leggja til. En nú liggur það þó fyrir að þessir færustu sérfræðingar okkar eru það hreinskilnir, hv. þm. Halldór Blöndal, sem fleiri mættu vera auðvitað og væri æskilegt, að þeir viðurkenna að slíkar spár séu miklum erfiðleikum bundnar og þar séu margir óvissuþættir. Þeir hafa m.a. viðurkennt að sú aðferð sem þeir hafa mest notað og reyndar nær eingöngu notað við mat sitt á stofnstærð, viðkomu og aðstæðum öllum hvað varðar okkar helstu nytjastofna, svonefnd VP-greining, sé meingölluð og hún sé mjög takmörkuð. Á henni eru m.a. þeir gallar að það er ákaflega erfitt að meta breyttan sóknarþunga, hvernig hann kemur inn í mat með þessari aðferð. Það hefur einnig komið í ljós að með þessari aðferð er lítt eða ekki hægt að gera greinarmun á því hvort göngur berast að frá öðrum veiðislóðum, öðrum hafsvæðum eða hvort við erum eingöngu með í höndum þann nytjastofn sem vex upp í kringum landið. — Mér þykir nú ólíklegt, hv. þm., að fiskur berist í miklum mæli frá öðrum hnöttum. Þó kann það að vera. (KP: Maður veit aldrei hvað mönnum dettur í hug.) Nei, það er rétt, hv. þm. Karvel Pálmason, enda kom þetta frá þér. (HBl: Það er nú ástæðulaust að fortaka það.) Enda kom þetta frá hv. þm. Karvel Pálmasyni. (HBI: Það er ástæðulaust að fortaka að það komi frá öðrum hnöttum svona að órannsökuðu máli.) Ef hv. þm. Halldór Blöndal vill hafa það hér með sem einn möguleika að fiskur berist í nokkru magni frá öðrum hnöttum má hann það mín vegna og það má gjarnan standa í þingtíðindum að hv. þm. Halldór Blöndal hafi gripið fram í og viljað koma því á framfæri, herra forseti, að hér kynni að vera um enn einn skekkjuvaldinn að ræða.

Ég hef spurt hæstv. sjútvrh. mikið að því, herra forseti, hvernig hann hyggist taka á því máli í þessu sambandi sem varðar siglingar fiskiskipa og sem varðar þær útgerðir sem undanfarin ár hafa að mestu leyti rekið sína starfsemi á þann hátt. — (Gripið fram í: Frá Grimsby.) Já, frá Grimsby m.a. — að sigla með ísfisk á erlendar hafnir og selja hann þar. Og heyrt hefur maður að til séu þær útgerðir sem nánast aldrei landi fiski hér innanlands nema þá í einhverjum undantekningartilfellum. Ég spyr sérstaklega vegna þess að menn hafa af því nokkrar áhyggjur að verði slíkt kvótakerfi sett á kunni að koma upp vandamál ef menn hugsi sér að hafa siglingar jafnóbundnar og þær hafa verið hingað til og að skipum standi það til boða í jafnmiklum mæli og verið hefur að sigla með fisk. Hæstv. sjútvrh. svaraði því til áðan að við yrðum að nýta okkar markaði og auðvitað verðum við að líta til þess einnig að ekki tapist niður verðmætir markaðir, en í ljósi þess mikla samdráttar sem nú er gerð till. um á næsta ári má öllum vera ljóst að atvinnuástand við sjávarsíðuna verður enn viðkvæmara og veikara á næsta ári en verið hefur hingað til. Það er einmitt þess vegna sem siglingar hafa verið mest gagnrýndar á undanförnum árum. Þær hafa verið mikið gagnrýndar vegna þess að það hefur komið fyrir að skip hafa verið í siglingum með fisk á sama tíma og verkafólk er atvinnulaust í landi. Sums staðar hafa verið að þessu nokkuð mikil brögð. Og nú vil ég setja upp dæmi fyrir hæstv. sjútvrh., ef hann heyrir mál mitt, sem er á þá leið: Skip hefur fengið ákveðinn aflakvóta og verið hefur að veiðum við skulum segja um það bil hálft árið og því hefur gengið vei. Það hefur náð nokkuð háu hlutdalli af sínum aflakvóta þegar á fyrstu sex mánuðum ársins. Það eru greindir og hugsandi menn sem standa að útgerð þessa skips, eins og víða er sem betur fer, og þeir setjast niður og fara að skoða sinn gang. Með hvaða móti komum við þeim hluta kvótans sem eftir er í sem best verð? Hvernig gerum við nú sem mest úr því sem við eigum eftir að afla? Og skyldi þá ekki einhverjum detta í hug að það er miklu hærra fiskverð í ýmsum nágrannalöndum og það kunni nú að vera býsna gott ráð, vegna þess að þeir hafa svo rúman tíma til að ná þeim aflakvóta sem þeim er heimilt að taka á þessu ári, að sigta nú með það sem eftir er eins mikið og þeir geta? Þeir reyna því að ná þannig aflasamsetningu að vel seljist og síðan hafa þeir nógan tíma til að velja sér heppilega löndunardaga og sigla með aflann. Að sjálfsögðu er því svo háttað að Landssamband ísi. útvegsmanna fjallar um þetta og gefur til þess leyfi, að því er mér skilst, að menn fái að sigla. En það verður auðvitað ákaflega erfitt fyrir þau samtök að standa gegn því að útgerðir, sem setja á þau mikinn þrýsting og bera við erfiðri afkomu, fái þau leyfi. Við skulum gefa okkur að hér sé um að ræða útgerðaraðila sem ekki eru í beinum tengslum við neinar fiskveiðistöðvar og vinnslustöðvar í landi. Þeir telji sig því ekki hafa neinum sérstökum skyldum að gegna í því sambandi. Þetta sé kannske útgerð í einstaklings- eða félagseigu, sem ekki rekur fiskverkun, sem hefur landað hér og þar á árinu og telur sig ekki skuldbundna á nokkurn hátt til að halda uppi atvinnu í viðkomandi plássi eða plássum á síðari helmingi ársins 1984. Þessir skynsömu menn reikna sitt dæmi heima á sínar vasareikningsvélar og segja sem svo: Það kemur best út fyrir okkur að við siglum með það sem eftir er aflans á síðari hluta ársins. (GSig: Til að eiga fyrir olíu.) Til þess að eiga fyrir olíu. Og nota bene, hv. þm. Garðar Sigurðsson, olían er miklu ódýrari í útlöndum, og kemur það nú til viðbótar að þeir geta gert grand í því að sigla út með lítið í tönkunum og fylla þá í erlendum höfnum.

Ég hef, herra forseti, rakið þetta dæmi svona ítarlega til þess að sjútvrh., ef það má verða til þess, leiði hugann að þessu máli því þegar menn eru að tala hér um kvótasetningu er auðvitað nauðsynlegt að menn hyggi að þessu í tíma og þetta komi nú ekki allt í einu flatt upp á menn um mitt næsta ár. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, hv. þm. Halldór Blöndal. Það hefði sjálfsagt verið rétt að flytja um það brtt. En þær hafa nú ýmsar verið fluttar við þetta frv. og margar skynsamlegar, en samt ekki fengið góða meðferð hér. Afdrif þeirra hafa orðið heldur dapurleg. Þess vegna er ég ekki viss um, hv. þm., að það hefði orðið þessum ágæta málstað, þótt góður sé, til mikils framdráttar þó ég hefði flutt brtt. (GSig: Eru komnar nýjar tillögur?) Það eru ekki komnar fram nýjar till. (GSig: Þá getur ekki verið neitt skynsamlegt fyrirliggjandi.) Það voru, hv. þm. Við skulum vera á réttum stað í tímanum. Við erum staddir í 3. umr. þessa máls, ef þm. hefur ekki veitt því athygli. Það er hafin 3. umr. um þetta mál í hv. Nd. 2. umr. lauk hér á 7. tímanum í morgun og þá voru til umr. og lágu fyrir ýmsar skynsamlegar brtt. sem því miður hlutu, eins og ég sagði hér áðan, dapurleg örlög og allt of dapurleg auðvitað miðað við hversu þarfar þær voru. En hv. þm. Halldór Blöndal, sem mér skilst að sitji í sjútvn. af hálfu stjórnmálaflokks sem mun heita Sjálfstfl., getur auðvitað komið því á framfæri í sinni nefnd og við sína félaga, t.d. í sjútvn. hv. Ed., að taka upp þessa skynsamlegu hugmynd og fjalla þá nokkuð um hvort ekki þurfi m.a. að líta til þessara hluta.

Eitt atriði enn væri ástæða til að skoða sérstaklega í því sambandi, hv. þm. Halldór Blöndal, svo að allt sé nú rétt, og það er það, að slíkar siglingar, ef leyfðar verða, kunna að auka enn á ærinn aðstöðumun útgerðaraðila í landinu. Eins og ég hef hér rakið kann vel svo að vera að útgerðarmenn sjái sér mikinn hag í því að sigla með aflann. E.t.v. fer svo að ákveðnum aðilum verði það heimilt á næsta ári án mikilla eða nokkurra takmarkana, en aðrir aðilar, sem m.a. telja sig skuldbundna til að halda uppi atvinnu í sínum heimaplássum eða hjá þeim verkunaraðilum sem þeir eru annaðhvort tengdir á beinan eða óbeinan hátt (Gripið fram í.) treysti sér ekki til þess. Við skulum segja að þeir treysti sér ekki til þess og vilji ekki af mannlegum og siðferðislegum sjónarmiðum sigta með aflann á sama tíma og fiskverkunarfólk er atvinnulaust í landi. Þeir verða því að berjast við það allt næsta ár að landa sínum afla hér heima, kaupa dýrari olíu og fá lægra verð á sama tíma og öðrum verður hugsanlega leyft áfram að sigla úr landi með afla þegar ástæður eru jafnerfiðar og nú ber raun vitni um. Þetta væri einnig ástæða til að athuga í þessu sambandi. — Úr því að hugmyndir mínar hafa hér fengið svo góðan hljómgrunn, eins og fram hefur komið í mjög jákvæðum frammíköllum hv. dm., vænti ég þess að þær verði teknar til skoðunar. (HBl: Ég vona að þm. hætti nú ekki að tala samt.) Þm. á ýmislegt ósagt.

Það er eitt stórt atriði enn sem mikil ástæða er til að ræða í þessu sambandi og það er hvernig við getum nýtt sem best á allan máta sem fær er það hráefni sem berst að landi og tryggt að allt hráefni sem til fellur komi í land. Hv. þm. Garðar Sigurðsson, sem oft og iðulega hefur fengið héðan úr þessum ræðustól háar einkunnir hjá þm. fyrir mikla þekkingu í þessum efnum, hefur verið mikill talsmaður þeirra sjónarmiða að hægt væri að leysa stóran hluta af vanda íslenskrar útgerðar með því að nýta betur þann afla sem við fáum með því að gera úr honum verðmætari vöru. Og það er annar hv. þm., varaþm. sem setið hefur á hinu háa Alþingi í vetur, sem hefur einnig verið talsmaður þessara sjónarmiði. Hann hefur flutt um það þáltill. sem ég tel mjög þarfa till. Hún hefur komið hér til umr. og fékk jákvæðar undirtektir í hv. Sþ. till. til þál. varðar fullnýtingu fiskafla. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að láta nú þegar endurskoða lög nr. 81 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lög nr. 32 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, og reglugerðir útgefnar samkv. framangreindum lögum með það að markmiði að fiskiskip verði skylduð til að koma með að landi allan fiskafla af öllum tegundum, svo og allan þann fiskúrgang sem til fellur í veiðiferð, enda sé tryggt að allur sá aflafengur sé verðlagður af Verðlagsráði sjávarútvegsins.“

Hér erum við aftur komin að máli sem tengist því sem ég hef nú þegar fjallað hér nokkuð um, sem er nýting smáfisks, en til viðbótar er hér tekið á því, að að bestu manna yfirsýn væri unnt að skapa verðmæti úr ýmiss konar fiskúrgangi sem nú er í flestum tilfellum eða a.m.k. í miklum mæli fleygt í sjóinn. Flm. till. rekur ítarlega í grg. með hvaða hætti væri unnt að nýta þennan afla og gera úr honum verðmæta vöru, enda má hann gerst til þekkja sem sérfræðingur í þessum efnum.

Í tillgr. er gerð um það till. að allur aflafengur sé verðlagður af Verðlagsráði sjávarútvegsins þannig að það sé tryggt að menn fái eitthvað fyrir að koma með þetta hráefni að landi. Í því dæmi sem ég hef þegar talað nokkuð um, sem er nýting smáfiskjar, snýr það þannig við að nýting þess smáfiskjar sem til fellur í veiðiferð getur komið til viðbótar við það aflaverðmæti sem að landi kemur án umtalsverðs aukakostnaðar og það þarf ekki að verðleggja þann fisk nema sem broti nemur af fiskverði á fiski af fullri stærð. Fróðir menn hafa reiknað út að líklega mundi áhöfn skipsins, ef hún fengi ein smáfiskinn í sinn hlut, duga sem svaraði 20% af skiptaverði til að fá nokkuð góðan hlut og nokkuð vel borgað kaup fyrir það erfiði sem hún þyrfti að leggja á sig við að hantéra þennan fisk, ganga frá honum og koma með hann að landi. Þetta mundi þýða að fiskvinnslustöðvar í landi þyrftu ekki að greiða nema sem svaraði 1/5 af fiskverði fyrir þennan hluta aflans og samt högnuðust báðir aðilar; áhafnir skipanna sem kæmu með fiskinn að landi fengju laun, þessum verðmætum væri bjargað fyrir þjóðarbúið og fiskvinnslan í landi fengi þarna ódýrt hráefni til að vinna úr. Eins og ég rakti áðan getur verið um að ræða t.d. þorsk á bilinu 40–50 cm langan, sem þótti a.m.k. hér á árum áður vel nýtanlegur, og ég hygg að enn muni vera hægt að fá fyrir þann fisk nokkuð gott verð á mörkuðum erlendis ef á það væri látið reyna.

Við umr. um fullnýtingu sjávarafla má svo auðvitað bæta því, sem reyndar er alltaf talað um þegar rætt er um sjávarútveg, að fara betur með aflann og gera meira úr hráefninu. Einnig með því móti, herra forseti, mun vera hægt að draga verulega úr því áfalli, sem menn sjá að íslenska þjóðarbúið muni verða fyrir ef af hinum mikla aflasamdrætti verður. Menn hafa nefnt háar tölur í því sambandi. Sumir eru jafnvel svo bjartsýnir að segja að 40 eða 70 þús. tonna aflasamdráttur mundi hverfa ef unnt yrði að tryggja 1. flokks meðferð og 1. flokks varning úr öllu eða sem næst öllu því hráefni sem á land berst.

Því er ekki að neita, herra forseti, að fólk víða í byggðarlögum landsins er mjög uggandi um sinn hag vegna þess ástands sem ríkir í sjávarútvegi. Uppsagnir hafa verið gerðar í stórum stíl og fólk í fiskvinnslu og jafnvel áhafnir á skipum á nú yfir höfði sér atvinnuleysi og er jafnvel þegar orðið atvinnulaust sumt hvert og er það illt. Enn verra er þó það, herra forseti, ef ekki tekst að tryggja með öllum tiltækum ráðum að sá afli sem við þó höfum úr að spila á næsta ári verði til að skapa sem allra mesta atvinnu og sem allra mest verðmæti hér á næsta ári. Það hlýtur að verða viðmiðunarpunktur númer eitt í umr. okkar hér um mörkun fiskveiðistefnu að þetta verði reynt og reynt til þrautar. Því hagar þannig til víða í sjávarplássum að stór hluti aflans kemur á land á skömmum tíma ársins. Þetta hefur auðvitað lengi verið svo. Tilkoma öflugra fiskiskipa eins og skuttogara hefur dregið að nokkru úr þessum sveiflum, en þær eru þó enn fyrir hendi í verulegum mæli. Nú setjast þeir aðilar sem þekkja vel til í útgerð þar sem svona hagar til niður og reikna það út, annaðhvort í huganum eða á blað eða hugsanlega á vasatölvur í ljósi þess mikla aflasamdráttar sem við blasir, hversu lengi þeir verði að ná sínum aflakvóta á næsta ári. Og dæmið lítur þannig út hjá sumum þeirra, t.d. þeim sem hafa stundað netaveiðar undanfarin ár, að þeir sjá sér vel mögulegt að ná þessum afla á 3–5 mánuðum á næsta ári. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þau fiskverkunarhús sem aðallega hafa byggt á afla frá þessum aðilum verða hugsanlega ekki starfrækt nema í 4–5 mánuði á næsta ári. Og hvað munu eigendur þessara húsa gera og hvað munu eigendur þessara báta gera þegar þeir standa frammi fyrir því að þurfa að borga sínu starfsfólki laun í 6–8 mánuði án þess að hafa nokkuð fyrir það að gera? Ætli þeim verði það ekki fyrst fyrir að segja fólkinu upp? Ætli rekstrarstaðan sé þannig hjá þessum aðilum að þeir ráði við að hafa fólk á launaskrá hjá sér í 6–8 mánuði þó þeir vildu það, þó einhverjir þeirra væru nú þannig sinnaðir, sem við skulum vona að væri, að þeir vildu leitast við það?

Ef við lítum til togaranna einnig snertir þetta þá að sjálfsögðu verulega. Þeirra úthald gæti komið til með að styttast úr því sem verið hefur undanfarin ár einhvers staðar á bitinu 320–340 dagar á ári, eftir því hversu hart hefur verið sótt, niður í 260–290 daga.

Þannig yrðu þeir einungis 8–10 mánuði á veiðum með hliðstæðum afleiðingum fyrir þau hús og þær verkanir sem byggt hafa á afla frá togurum. Það er því ósköp eðlilegt að glöggir menn, sem verið hafa undanfarna daga að hugleiða hvaða áhrif þetta gæti haft á fyrirtæki þeirra og atvinnulífið á heimastöðum þeirra, hafi áhyggjur og beri nú nokkurn ugg í brjósti. Hver væru eðlilegustu viðbrögð þessara manna þegar svo er komið? Þau væru auðvitað að leita svara við því hjá þeim aðilum sem skylt er að svara: Hvernig hugsa menn sér að útfæra þetta kerfi á næsta ári? Hvernig verður reynt að komast hjá þeim vandamálum, sem vissulega geta orðið og vissulega blasa við, ef ekki verður á þeim gripið? Það er einmitt það, herra forseti, sem við höfum hér gert. Aftur og aftur höfum við ítrekað að það sé alveg nauðsynlegt að fá hér ákveðin svör, það sé alveg nauðsynlegt, áður en menn hefja þessa göngu, að svör fáist við ákveðnum spurningum. Ég er í hópi þeirra, herra forseti, sem hafa spurt sjútvrh..ítarlegra spurninga, en ég hef ekki fengið jafnítarleg svör.

Ég skal þó viðurkenna það og þakka það, að í dag reyndi hæstv. sjútvrh. að svara nokkrum þeirra spurninga sem við höfum borið fram, en því miður ekki öllum. Og ég ítreka því enn og aftur, herra forseti, áður en ég fer héðan úr þessum ræðustól, að þann greiða held ég að hæstv. sjútvrh. gæti mestan gert þessu máli að koma til dyranna eins og hann er klæddur í dag í þessu þinghúsi og svara í hreinskilni hvernig málin standa á hans bæ. Kannske verður þá svarið eins og það var í umr. á dögunum, að málin væru í mikilli óvissu. Mér er nær að halda, eftir þá umr. sem hér hefur farið fram, að það sé helsta svarið sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið í þessu máli hingað til.