25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilsverðu máli og ég vil fyrst lýsa þeirri skoðun minni að ég tel sjálfsagðan hlut að ýta á það svo sem kostur er að hjartaskurðlækningar verði upp teknar á landi hér. Það hefur þegar komið fram í umr. hvaða rök hníga að því að þetta skuli gert, fyrir utan þau fjármunalegu rök sem eru augljós. Það er gífurlegur kostnaður því samfara að senda sjúklinga utan vegna þessara aðgerða; þá er ekki síður læknisfræðilegi þátturinn. Og til viðbótar því sem kom fram hér í umr. áðan þá megum við ekki gleyma því að nú á tímum er verið að þróa nýjar lækningaraðferðir varðandi hjartasjúkdóma og ein af meginforsendunum fyrir því, að það sé hægt hér á landi, er sú að mögulegt verði að grípa til skurðlækninga ef þannig stendur á. Það er ein meginforsendan fyrir því að við getum þróað nýjar aðferðir og ekki síst varðandi kransæðasjúkdóma að til staðar sé aðstaða til hjartaskurðar. Ég vék að kostnaðinum sem er því samfara að senda sjúklinga utan. Hann hefur líklega verið milli 20 og 30 millj. vegna þeirra sjúklinga sem fóru utan á liðnu ári; það eru liðlega 100 sjúklingar.

Ég kom hér í ræðustól fyrst og fremst til þess að lýsa vilja mínum gagnvart þessu máli; ég er fylgjandi því að það verði ýtt hressilega á eftir málinu. Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. mun gera allt sitt til þess og ég vænti þess að ég og minn flokkur a.m.k. liggi ekki á liði sínu í þessu efni.