25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. hafa borist margvíslegar upplýsingar um þetta mál hvernig það er vaxið og hvaða tölur það snýst um. Það er óþarfi að rekja það frekar. Það er alveg ljóst og hefur enginn dregið í efa að sú verkkunnátta, ef þannig má taka til orða og tækniþekking sem er forsenda aðgerða af þessu tagi, er fyrir hendi hér á landi; um það er ekkert að villast. En þetta mál snýst ekki bara um tölur þó að þær séu mikilsverður þáttur málsins þá megum við ekki gleyma hinni mannlegu hlið þessa máls.

Ég vil aðeins við þessa umr. hér koma þeirri skoðun þingflokks Alþfl. á framfæri að það sé tvímælalaust einhver skynsamlegasta fjárfesting á sviði heilbrigðisþjónustu hér á landi, sem hægt sé að ráðast í núna, að taka hér upp hjartaskurðlækningar. Það er hægt að sýna fram á það með tölum hversu fljótt sú fjárfesting skilar sér aftur og hinu megum við heldur ekki gleyma að mannlegur þáttur þessa máls er stór og verður ekki í tölum talinn. Það er sem sé skoðun þingflokks Alþfl. að kappkosta beri að gera það kleift sem allra fyrst að þessi tegund lækninga, hjartaskurðlækningar, geti átt sér stað hér á landi og því er í rauninni ekkert til fyrirstöðu ef menn ákveða að veita til þess því fjármagni sem þangað þarf að fara.