19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það orkar ekki tvímælis að nauðsyn er að stjórnvöld hafi heimild til að mæta þeim vanda sem að ber þegar fiskistofn er hættulega ofveiddur og viðkoma hans því í yfirvofandi hættu. Slík heimild er fyrir hendi í lögum nú. sá vandi sem nú er mestur í þessu efni varðar þorskstofninn. Fiskifræðingarnir gera tillögur um minnkun þorskveiða sem þýðir alvarlegan samdrátt í þjóðartekjum.

Fiskifræðingarnir gefa ráð sín á grundvelli sinna rannsókna. Svo gæti virst að ekki lægi kannske ljóst fyrir hvort ástand þorskstofnsins í dag er fremur að kenna líffræðilegum skilyrðum sjávarins en dánartölu fiskanna vegna veiða. En samt sem áður er nú nauðsyn gagngerra aðgerða til verndar þorskstofninum, svo mikið er í húfi. Spurningin er aðeins hvað eigi að gera. Hvaða aðferð á nú að beita? Mikilvægt er að sú aðferð sé rétt til fundin. Þegar það er metið þarf að hafa viss grundvallaratriði hugföst. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Framleiðnin í íslenskum sjávarútvegi er meiri en annars staðar þekkist. Sú staðreynd skapar okkur yfirburði fram yfir aðra. Þrátt fyrir mikilvægi góðs skipakosts og veiðarfæra og tækjakosts er hugur og hönd mannsins það sem er mikilvægast. Sókn og keppni íslenskra sjómanna er og hefur verið drifkrafturinn. Þess vegna er mest um vert að afburðamennirnir sæki sjóinn og fái að njóta sín.

Það er ekki einungis mikilvægt að hver einstök útgerð beri sig heldur varðar það mestu þjóðhagslega. Þetta á ekki síður við eins og ástandið er í dag. Nú er sóknarmáttur fiskiskipastólsins of mikill miðað við þann takmarkaða þorskstofn sem um er að ræða. Það er ekki aðalatriðið að halda öllum skipaflotanum til veiða heldur hitt, að þau skip sem haldið er úti hafi sem bestan rekstrargrundvöll og skili sem mestum arði í þjóðarbúið. Einungis með því móti hafa stjórnvöld möguleika til að mæta með raunhæfum úrræðum þeim erfiðleikum og vandamálum sem óhjákvæmilega hljóta að koma til þegar veiðiskip heltast úr lestinni.

Það fjármagn sem til þessa þarf verður ekki tekið af öðru en því sem sjávarútvegurinn sjálfur leggur til þjóðarbúsins sem höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar. En hvernig kemur það frv. sem við hér ræðum heim og saman við þau grundvallaratriði sem ég hef vikið að? Kvótafyrirkomulagið eða skipting hámarksafla milli skipa, sem hér er lagt til, gengur þvert á þau grundvallaratriði sem ég hef hér vikið að. Þetta kvótafyrirkomulag á að stuðla að því að halda sem flestum skipum á veiðum. Þetta er í raun gert á kostnað þeirra sem m.a. vegna aflasældar hafa haft þolanlegastan rekstrargrundvöllinn þó að þau skip séu ekki aflögufær, heldur þvert á móti hafi barist í bökkum. Afleiðingin verður augljóslega sú, að rekstri þessara skipa verður stefnt í tvísýnu.

Á hinn bóginn verður þetta ekki heldur til að tryggja hlut þeirra sem verst voru settir áður. Þar þarf meira að koma til. Afleiðingar kvótafyrirkomulagsins, sem hér er lagt til, gætu vissulega orðið kvíðvænlegar. Stefnt er að jöfnuði með því að vængstýfa þá sem möguleika hefðu til að bjarga sér og stungið tálbeitu að hinum sem ekki geta hvort sem er náð sér til flugs nema meira komi til. Þegar útgerðin hefur verið þannig leikin með stjórnvaldsráðstöfunum á hún ekki annars úrkosti en að segja við stjórnvöld að þau verði að taka afleiðingunum af eigin gerðum og skapa skipunum rekstrargrundvöll, því að nauðsyn krefur að róið sé til fiskjar. Þegar svo væri komið gæti kvótakerfið, sem hér er lagt til, orðið örlagaríkt skref til þjóðnýtingar í sjávarútvegi með þeim afleiðingum sem þá blasa við. Ekki yrði þá öruggt nema síður sé að við nytum þeirra yfirburða í þessari atvinnugrein gagnvart öðrum þjóðum sem við höfum gert fyrir framtak einstaklinga og félagssamtaka þeirra.

Það er vissulega ástæða til að vara við þeirri stefnu sem frv. þetta felur í sér með skiptingu hámarksafla milli skipa. Það er aðalatriðið. Umræður hafa orðið miklar um framkvæmd þessa kvótafyrirkomulags. Það er að vonum því að þar er margt óljóst svo að ekki sé meira sagt. Það er deginum ljósara að þar munu vegast á margvíslegir sérhagsmunir, stofnað verður til úlfúðar og illinda milli einstakra útgerða, einstakra útgerðarstaða og landshluta. Hætt er við að ýmis samtök, sem hingað til hafa gagnað útgerðinni best, geti í þeim leik orðið rifin á hol engum til gagns.

Í umr. um þetta mál hefur allmikið verið talað um að misráðið væri að fela í hendur sjútvrh. svo mikið vald sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Í mínum huga er þetta ekki aðalatriðið. Raunar hygg ég að best gæti farið á því að þetta vald sé einmitt hjá ráðh. sem ber pólitíska ábyrgð á gerðum sínum. Ég tek fram að ég ber fullkomið traust til núv. hæstv. sjútvrh. í þessum efnum. En framkvæmdin er ekki aðalatriðið fyrir mig heldur hitt, að stefnan sjálf er röng. Kannske hafa einhverjir fleiri haft sínar efasemdir. A.m.k. er gert ráð fyrir, ef frv. þetta verður að lögum, að þau gildi aðeins eitt ár. Er þá gjarnan á það bent að sjálfgert sé að fella kvótakerfið niður, ef reynslan verði ekki góð, þar sem lögin falli úr gildi í árslok 1984. Ég dreg ekki í efa heilindi þeirra sem ábyrgð bera á þessu atriði en bendi á að oft er það svo, eins og haft er eftir miklum lagaspekingi, að það sé varanlegast í lagasmíði sem fyrst er sett til bráðabirgða. Við þekkjum hér í okkar störfum á Alþingi hin ýmsu lög sem við framlengjum frá ári til árs. Ég legg því ekki mikið upp úr því að nokkru breyti þó að gert sé ráð fyrir aðeins eins árs gildistíma. Aðalatriðið er að við förum ekki inn á þá braut sem frv. stefnir á með því kvótafyrirkomulagi sem ég hef gert að umræðuefni. Við eigum ekki einu sinni að taka fyrsta skrefið í þá átt.

En lítum þá nánar á hvað eigi að vinnast að því er varðar þorskveiðarnar með fyrirhugaðri löggjöf á þessu eina ári, árinu 1984. Á því ári sem nú er að líða, 1983, er gert ráð fyrir að veidd verði 290 þús. tonn af þorski. Af þessu magni veiðir loðnuflotinn 25 þús. tonn, bátaflotinn sem stundar bolfiskveiðar og togaraflotinn veiða því samkv. þessu 265 þús. tonn á árinu 1983. Nú hefur sjútvrn. ákveðið að kvótahámark fyrir þorsk á árinu 1984 verði 220 þús. tonn. Skv. þessum tölum er gert ráð fyrir að minnka sóknina í þorskinn á næsta ári um 45 þús. tonn frá því sem er í ár. Þá er gert ráð fyrir að loðnuflotinn fari ekki á þorskveiðar á næsta ári og því ekki reiknað með loðnuflotanum bæði árin. Skv. þessu er það 45 þús. tonna minnkun á þorskafla sem á að ná með því að lögfesta það frv. sem við nú ræðum. Ef að líkum lætur má ætla að þessi 45 þús. tonna tala geti lækkað ef svo fer sem oft áður að aflakvóti verði hækkaður síðar á árinu frá því sem áætlað var í ársbyrjun. Enn fremur ber að hafa í huga að kvótakerfið stuðlar að því að fleygt verði meira af smáfiski en áður. Á það atriði hefur verið rækilega bent af ræðumönnum hér á undan mér. Ætla má því að það sem á að nást með ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður, geti orðið að raungildi miklu minna en 45 þús. tonna skerðing á þorskveiðum eða jafnvel óveruleg frá árinu í ár. Það er þá til að ná m.a. slíkum árangri sem frv. þetta er flutt. Til þess eru refirnir skornir.

Það er látið svo sem kvótakerfið, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, sé eina leiðin eða a.m.k. besta leiðin. Það á að koma upp kerfi sem gengur þvert á líftaug fiskveiðanna sem fært hefur okkur Íslendingum yfirburði yfir aðrar þjóðir með því að atorka íslenskra sjómanna hefur fengið að njóta sín í keppni við öflun verðmætanna. Til að ná samsvarandi aflasamdrætti í þorskveiðum og stefnt er að þarf ekki að grípa til slíkra örþrifaráða sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Það er hægt að ná slíkum árangri í varðveislu þorskstofnsins með þeim heimildum í lögum sem fyrir hendi eru. Þannig er hægt t.d., eins og vikið hefur verið að í þessum umr. af öðrum, að beita þeim heimildum sem nú eru í lögum til að koma við auknum veiðibönnum bæði togara og báta. Þannig má lengja páskabann netabátanna. Þannig má koma við almennu veiðibanni að sumarlagi og samrýma sumarleyfum sjómanna og verkafólks í fiskiðjuverunum einmitt á þeim tíma þegar átan er mest í fiskinum og hann er erfiðastur til vinnslu. Það er og hægt að hafa veiðibann í háskammdeginu þegar sjósókn er erfiðust vegna veðurfars og búa þannig betur að öryggi sjómanna um leið og sjómönnum verði betur tryggð þau mannréttindi að geta haft sín jólaleyfi með fjölskyldu sinni og ástvinum til jafns við annað fólk í landinu.

Það sem ég hef hér nefnt sem úrræði er ekkert nýtt. Það er raunar ekki framtíðarlausn á aðalvanda sjávarútvegsins. En það er heldur ekki úrræði þess frv. sem við hér ræðum nema síður sé. Eftir er hinn raunverulegi vandi sjávarútvegsins, sem ekki verður leystur nema með kerfisbreytingum og bættri skipan, svo sem á fiskverðsákvörðunum og á Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins.

Með tilvísun til þess sem ég hef þegar sagt tel ég hyggilegt að mál þetta verði ekki afgreitt áður en Alþingi frestar fundum sínum vegna jólahátíðarinnar. Auk þess er sú málsmeðferð ekki með öllu óeðlileg þegar litið er til þess hve lítill tími er til stefnu fyrir þessa hv. deild til að afgreiða málið ef það á að verða fyrir jól. Að vísu er það ekki nýtt fyrirbrigði að fljótaskrift geti orðið á þingstörfum síðustu daga fyrir þingfrestun eða þingslit. En hafa ber í huga alvöruþunga þessa máls, sem hér um ræðir og grundvallarþýðingu þess fyrir undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Við skulum og minnast þess að stjórnskipunarlög okkar búa svo um með deildaskiptingu Alþingis að lagagerðin megi verða sem vendilegast unnin. Það getur svo best verið gert að síðari þingdeild, sem fær frv. til meðferðar, gefist ráðrúm til þess að vega og meta það sem frá fyrri þingdeildinni kemur og leiðrétta og breyta því sem efni standa til. Skv. þessu gætu það ekki talist óeðlileg vinnubrögð að við hefðum þann hátt á að afgreiða þetta frv. nú til 2. umr. og n. þar sem það yrði til meðferðar þar til Alþingi kemur saman í janúarmánuði að loknu jólaleyfi.