19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Virðulegi forseti. Mér er fullljóst að tími er skammur til umr. um þetta mál og ég skal ekki vera langorður. Það er ekkert launungarmál að mér líst ekki sem allra best á þetta mál og mundi sjálfsagt verða tvístígandi að greiða fyrir framgangi þess nú ef ekki vildi svo til að Alþingi kemur saman aftur fljótlega, og þó að það hafi nú sett lög er alltaf hægt að breyta þeim lögum og jafnvel afnema á meðan þing situr. Ef svo væri ekki hefði ég kannske lagt til að frestað yrði að afgreiða málið þar til þing kemur saman að nýju en mun ekki gera það heldur reyna að greiða fyrir því að það verði samþykkt með öllum þeim annmörkum sem á því eru. Ég held að allir séu sammála um að mikið vandamál verður að framkvæma þessa kvótaskiptingu.

Hv. þm. Skúli Alexandersson nefndi hér t.d. ungan aflaskipstjóra sem fer af Snorra Sturlusyni, og hafði víst fiskað um 5 þús. tonn þar, á annað skip sem hafði fiskað 2 þús. Og þó að málið sé mér skylt af því að þetta er reyndar systursonur minn, en það skiptir ekki máli, er þetta táknrænt dæmi um það hve erfitt er að framkvæma slík lög og þetta verður auðvitað allt saman tekið til endurskoðunar.

En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var sú að mig langar að vekja athygli á tveim hugmyndum sem ég setti fram í utandagskrárumræðum í Sþ. fyrir skemmstu. Önnur var þá að vísu kannske lítt hugsuð en hún var um það að við mundum hreinlega stöðva allar fiskveiðar t.d. frá miðjum desembermánuði og út janúarmánuð. Ég rökstuddi þetta með því að á þessum árstíma eru veiðar yfirleitt litlar. Vegna veðurs er oft mikið veiðarfæratjón, venjulega mikil olíunotkun og afli oftast lítill eins og ég sagði. Þetta er óhagstæðasti tíminn til að stunda sjóinn hérlendis, en það sem alvarlegast er, þetta er langsamlega hættulegasti tíminn. Þegar við þurfum að leggja flotanum hvort sem er svo og svo mikið á hverjum árstíma eða takmarka veiðar með þeim hætti sem hér er lagt til sýnist mér liggja í augum uppi að við eigum einmitt að gera það á þessum tíma og þá að skipuleggja, þó að það orð sé mér alltaf heldur leitt í munni.

Hv. þm. Skúli Alexandersson talaði hér áðan og sagði svo margt sem var eins og talað út úr mínu hjarta að við brostum báðir, en engu að síður held ég að þetta liggi í augum uppi. Raunar tók sá ágæti þm. undir þessa hugmynd í ræðu sinni áðan og það gladdi mig mjög. Ég hef talað um þetta við allmarga sjómenn og raunar landverkafólk líka. Þá kem ég aftur að þessu orði að skipuleggja. Það yrði þá með þeim hætti að landverkafólk mundi taka sér eitthvert frí á þessum árstíma og þá kannske eitthvað skemmra sumarfrí.

Raunar kemur fram og er til athugunar líka að stöðva veiðar alveg einhvern tíma að sumarlagi eins og hv. þm., sem ég áðan nefndi, kom inn á. Auðvitað yrði þá að sjá fyrir því að fólkið hefði einhver laun á þessum tíma, en það er alveg eins hægt að leysa og t.d. orlof o.s.frv. Hægt er að koma því öllu fyrir. Mér er fullkunnugt um að fiskvinnslustöðvarnar tapa líka á þessum tíma. Það er svo slitrótt vinna þar yfirleitt að allir tapa í rauninni á því. Það eru tiltölulega lítil laun sem fólk hefur oft, t.d. við uppskipun o.s.frv., en húsin tapa á þessum árstíma.

Í viðbót má kannske færa það fram sem rök að auðvitað þarf að gera við þessi skip, það þarf að gera við húsin og halda þeim við og lítil vinna er hjá iðnaðarmönnum og jafnvél verkamönnum einmitt á þessum árstíma. Það gæti kannske greitt fyrir atvinnu þessa fólks sem er meira og minna atvinnulaust í mesta skammdeginu ef þessi háttur yrði upp tekinn. Þá yrði viðhald húsanna framkvæmt, þá yrði gert við skipin og þeim komið í gott lag o.s.frv. Ég held sem sagt að þessi till. hafi kannske ekki verið eins vitlaus og ég sagði í umr. að hún kannske væri, a.m.k. vilji menn hugsa alvarlega um hana. Ég nefni hana hér af því að hæstv. sjútvrh. er hér viðstaddur, að hann hafi í huga — þó að ég viti að ekki sé hægt að koma því á í einni svipan — hvort þarna væri kannske ekki ein af þeim leiðum sem heppilegt væri að fara.

Hin hugmyndin var kannske svolítið meira hugsuð og enn þá mikilvægari. Hún er sú að við beitum núna krafti okkar og afli — því afllaus erum við ekki orðin — til að byrja í alvöru hagnýtingu fiskstofna á þeim hafsvæðum þar sem við eigum hafsbotnsréttindi og munum öðlast fiskveiðiréttindi ef rétt er á haldið. Vil ég þar fyrst nefna Reykjaneshrygg, að þar verði farið að stunda veiðar. Tilraunaveiðar verða þær að kallast og kannske þarf að styrkja þær eitthvað fyrst í stað. Farið verði að stunda veiðar á svæðinu vestur af Rokknum, á Rockallhásléttunni allri og þar með talið Hattonbanka.

Um það komu t.d. fréttir að nú í okt.- og nóvembermánuði hefði norskur línuveiðari farið þangað og komið með fullfermi af boltaþorski, ýmist söltuðum eða flökuðum. Það finnst mér engin smáfrétt þó þetta sé bara eitt skip. Af hverju í ósköpunum senda Íslendingar ekkert skip á þessi mið? Á Rockall-hásléttunni fiskaði norskur línuveiðari og kom með fullfermi af frystum flökum og saltfiski til Noregs eftir tiltölulega stutta veiðiferð nú um mánaðamótin okt.-nóv. minnir mig. Enginn íslenskur bátur eða skip hefur farið þarna suður. Að vetrarlagi eru veður þarna líklega ekki eins hættuleg, a.m.k. ekki ísingarhættan, og hér á norðlægustu miðunum.

Það er heldur ekki lítils um vert, það er nánast algerlega nauðsynlegt að við byrjum á að hagnýta betur Jan Mayen-miðin. Eftir okkar samningum við Norðmenn tel ég ótvírætt að ef rétt er á málum haldið eigum við þarna helmings fiskveiðiréttindi á móti Norðmönnum. Samning okkar við Norðmenn ber að skilja með þeim hætti. Við eigum meira en helmingsréttindi að því er loðnuveiðarnar varðar vegna þess að við getum einir og höfum einir ákveðið aflahámarkið á loðnunni. Við eigum að hagnýta aðra fiskistofna á þessu svæði strax. Jafnvel þó að útgerðin verði með tapi á ríkið að koma þar inn í. Það eru að skapast réttarreglurnar í hafréttinum á þessu sviði og við þurfum að gæta okkar réttinda og halda þeim til haga.

Síðan ég hélt þessa ræðu fyrir hálfum mánuði eða svo í Sþ. hafa komið upplýsingar sem ég vissi ekki um þá frá okkar sérfræðingum og einum helsta sérfræðingi í hafréttarmálum í allri veröldinni, sem er að vinna fyrir okkur, sem staðfesta að við eigum réttindi á öllum þessum hafsvæðum sem ég hef verið að nefna. Þeim ber að halda til haga og vera nú ekki að tvínóna við þetta lengur. Þetta er búið að velkjast núna í 4 eða 41/2 ár frá því að fyrsta till. í Alþingi var um þetta samþykkt. Nú er ekki lengur til setunnar boðið. Þegar okkar fiskstofnar eru í hættu, því í ósköpunum reynum við þá ekki að hagnýta þessi fiskimið sem eru okkar framtíðarfiskimið? Hér erum við ekki að deila um eitt ár. Látum vera hvernig þetta fer væntanlega meira og minna úrskeiðis. Ég treysti kannske engum manni betur en hæstv. sjútvrh. núv. til að framkvæma þetta af réttsýni því að ég þekki störf með honum lengi og vel. Þetta verður aldrei nema til eins árs, þessi ósköp sem við væntanlega samþykkjum hér, en þær tvær hugmyndir sem ég hef þegar gert grein fyrir eru þess eðlis að menn verða að hugsa um þær.