19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ekki kemur mér á óvart þó að þeir séu sammála um ýmsa hluti sem varða atvinnulíf og atvinnurekstur, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og hv. þm. Skúti Alexandersson. Ég þekki þá báða nokkuð og veit að þeirra sjónarmið falla að ýmsu leyti í sama farveg. Ég er þeim ósammála um ýmis atriði í þessu sambandi en þó get ég alveg tekið undir þá till. sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson reifaði áðan, að sú hugmynd yrði athuguð nánar að fiskveiðar yrðu hreinlega stöðvaðar frá miðjum des. og eitthvað töluvert fram eftir jan., tími sem allajafna er ódrjúgur af ýmsum ástæðum. Svartasta skammdegi og veður oft válynd. Þó að engu síður geti kannske komið harðari veður á útmánuðum held ég að þessi till. sé fyllilega athugunar virði.

En annað vildi ég segja í upphafi máls míns, virðulegur forseti. Nú er fundum hér fram haldið af miklum þunga. Hér hefur verið fundað frá kl. 10 í morgun og ekki gefið matarhlé sem er næsta óvenjulegt í störfum þingsins. Þm. eru sjálfsagt bærilega haldnir og þola vel að sleppa úr einni máltíð. Ég geri ekki ráð fyrir að það komi neitt að sök hér en þetta eru fremur óvenjuleg vinnubrögð og ég tek fram að ég er ekki að áfellast virðulegan forseta fyrir þetta. Ég veit að mjög er knúið á um að þetta mál geti náð fram að ganga. Hins vegar vil ég að hér komi fram og sé alveg tvímælalaust að mér finnst nokkuð mikil tilætlunarsemi að ætlast til að Ed. afgreiði þetta mál nánast á einum degi. Nd. hefur tekið sér afar rúman tíma til að fjalla um þetta mál sem er stærsta mál þessa þings og kannske langstærsta málið sem komið hefur til kasta Alþingis í mörg ár. Þá er ætlast til að við sem sitjum í þessari hv. deild slökum þessu í gegn heldur betur snarlega og það eiginlega bara á einum degi.

Nú veit ég að vísu að sjútvn. þessarar hv. deildar var búin að fjalla nokkuð um málið meðan það var í meðförum Nd. En það eitt dugir ekki til. Mér finnst það ansi mikil tilætlunarsemi og satt best að segja alls ekki nægilega gott að Ed. skuli ekki fá meira ráðrúm til að ræða þetta mikilsverða mál og þá fyrst og fremst meira ráðrúm til að ná samkomutagi sem ég held að sé alls ekki útilokað. Ég held að á síðustu sólarhringum hafi menn færst nær hver öðrum í þessu og ég held að alls ekki sé útilokað að um þetta megi ná samkomulagi ef menn gefa sér tíma og svolítið andrúm til þess og ég held að það skipti höfuðmáli. Það er grundvallarmunur á því hvort þetta mikilsverða mál er afgreitt út úr þinginu sem ágreiningsmál eða hvort unnt er með því að gefa sér örlítið lengri tíma að ná um það samkomulagi.

Þetta er frá mínu sjónarmiði meginatriði málsins núna á þessum stundum þegar á að knýja þetta í gegnum hv. Ed. án mjög mikilla umr. Auðvitað gætum við stjórnarandstæðingar valið þann sama hátt og þm. Alþb. höfðu í Nd. að þvælast fyrir þessu endalaust með linnulausu málþófi en það er ekki leiðin til að leysa þetta mál. Við leysum þetta mál ekki hér í ræðustóli frekar en önnur, það eru alveg hreinar línur. Við leysum þetta með því að leita samkomulags á fundum. Ég legg ríka áherslu á að nú þegar þessu máli verður vísað til nefndar, væntanlega áður en mjög langt um líður — við erum ekki miklir málþófsmenn hér í Ed. — verði þess freistað til hlítar að ná samkomulagi.

Menn hafa talað mikið um að verði þetta frv. samþykkt fari fram eitt mesta valdaafsal sem hér hafi átt sér stað. Það er sjálfsagt nokkuð djúpt í árinni tekið en nokkuð er þó til í því. Nú vil ég að skýrt komi fram sem raunar fleiri hafa hér sagt að ég vantreysti ekki hæstv. núv. sjútvrh. til að vinna þetta vandasama mál af alúð og samviskusemi. Hins vegar er ekki hægt að persónugera mál með þeim hætti og miða afstöðu við það. Það er alveg ljóst að þegar farið verður nánar ofan í saumana á þeirri úthlutun sem hér er gert ráð fyrir að fari fram muni koma fram nánast óteljandi vandamál, óteljandi ólík tilvik, sem taka verður tillit til, óteljandi matsatriði og úrskurðaratriði. Þeir eru sannarlega ekki öfundsverðir sem við þau þurfa að fást. Öllum er ljóst að einhvers konar stjórnun verður hér að koma til. Spurningin er bara hvernig og hverjir eiga helst að hafa þar hönd á. Gerð hefur verið grein fyrir sjónarmiðum míns flokks í málinu. Ég ætla engu við það frekar að bæta en ítreka aðeins að við munum ekki þæfa þetta mál hér. En ég legg ríka áherslu á að samkomulags verði leitað og legg enn ríkari áherslu á að málið fái hér þá eðlilegu umfjöllun að menn geti talað eins og þeim þurfa þykir, en því verði ekki hespað í gegn á óeðlilega skömmum tíma þannig að ekki gefist tími til að ræða málið eins og þm. þessarar hv. deildar þykir þurfa.