19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er framlenging á skattstofni sem vinstri stjórnin ákvað 1978, 1. sept. það ár, skattstofni sem síðan hefur verið viðurkenndur í hálfan áratug. Þetta er þriðja ríkisstjórnin sem yfirtekur það góða bú sem þessi skattstofn vísar til, þ.e. hinn mikli hagnaður verslunarinnar í landinu verði látinn skila einhverju til hinnar sameiginlegu neyslu landsmanna, og er það vel að núv. hæstv. fjmrh. skuli sjá að það er skynsamlegt að framlengja þennan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hæstv. fjmrh. greiddi alltaf atkv. gegn þessum skatti á síðustu árum og hélt yfirleitt mjög langar og ítarlegar ræður um að þessi skattur væri til marks um skilningsleysi á hag verslunarinnar og fjandskap við hana.

Þegar 2. umr. fjárlaga fór fram áttum við nokkur orðaskipti, ég og hæstv. fjmrh., um þennan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en þannig var að ég hafði lagt til að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði yrði tvöfaldaður frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og yrði gert ráð fyrir að hann skilaði 65 millj. kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í áætlunum hæstv. ríkisstj. Í tillögum Alþb. var gert ráð fyrir að breyting á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði kæmi á móti ákveðnum útgjaldatillögum sem við bárum upp, enda er það venja okkar í Alþb. að flytja eingöngu ábyrgar tillögur. Við erum ekki að flytja yfirboðstillögur út í loftið, heldur fluttum við tillögur um ákveðin útgjöld og um tekjustofna þar á móti. Er það alveg óvenjulegt núna á seinni árum að stjórnarandstöðuflokkar sýni slíka ábyrgð á þann hátt sem við höfum gert í Alþb. Það er býsna ólíkt því sem var t.d. hjá Íhaldinu á valdatíma síðustu ríkisstj. Oft flutti það brtt. upp á hundruð millj. kr. án þess að væri fimmeyringur í tekjuöflun á móti.

Þegar málið var til meðferðar í hv. Sþ. þegar 2. umr. fjári. fór fram mótmælti hæstv. fjmrh. hugmynd Alþb. um hækkun sérstaklega og sagði að hún væri í rauninni aftakavitlaus vegna þess að Sjálfstfl. væri á móti henni. Það þýddi þá að flokkar ættu aldrei að flytja tillögur um neitt annað en það sem Sjálfstfl. er samþykkur. Nú er það sem betur fer svo að menn spyrja ekki alltaf Sjálfstfl. áður en þeir flytja tillögur hér í þinginu og ekki einu sinni þm. Sjálfstfl. Þessi viðbára, þessi gagnrýni fjmrh., var því auðvitað út í hött, og auðvitað hefði verið eðlilegt að hann kæmi til móts við þau sjónarmið sem ég setti þar fram varðandi skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

En þrátt fyrir þá viðleitni fjmrh., sem ber að fara jákvæðum orðum um, að hann skuli vera kominn þó þetta langt á þroskabrautinni að sjá að það eigi að leggja skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og hann skuli vilja framlengja þannig þennan skattstofn vinstri stjórnarinnar 1978, er viðurkenning hans á mikilvægi þessa skattstofns örlítið í skötulíki því að hann leggur til að skatthlutfallið hér lækki úr 1.4% í 1.1% og þar af leiðandi lækki þær tekjur sem þessi skattur getur gefið af sér um þó nokkra upphæð. Af þeirri ástæðu var það sem minni hl. fjh.- og viðskn. í hv. Ed. flutti till. um að þessi sérstaki skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði næmi 1.4% af skattstofni en ekki 1.1%. Flm. þessarar till. voru hv. þm. Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds og sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Þessi till. var því miður ekki samþykkt í Ed., þar sem hæstv. fjmrh. á þó sæti. Það er bersýnilegt að hann vill ekki þær tekjur sem hér var lagt til að aflað verði.

Það væri fróðlegt að heyra rök hans fyrir því að það eigi á árinu 1984 að fara að lækka sérstaklega skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hvaða nauðung er það sem rekur hann til að leggja til að það verði sérstaklega lækkaður skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði meðan verið er að hækka ýmsa aðra skatta í landinu hlutfallslega, t.d. útsvörin? Það er bersýnilegt að þau muni hækka nokkuð á næsta ári og það er einnig bersýnilegt að það mun taka hinn almenna launamann í þessu landi miklu lengri tíma að vinna fyrir sköttum ríkisins á næsta ári en á þessu ári vegna þeirrar kjaraskerðingarstefnu sem ríkisstj. hefur rekið. En á sama tíma og menn verða lengur að vinna fyrir sköttunum sínum á næsta ári en á þessu ári á að létta sérstaklega á versluninni með því að lækka á verslunar- og skrifstofuhúsnæði úr 1.4% af skattstofni í 1.1%. Svona framkoma er auðvitað alveg yfirgengileg, að á sama tíma og verið er að þyngja stórkostlega byrðar á launafólki í landinu,sérstaklega vegna kjaraskerðingarinnar, skuli það gerast að ríkisstj. flytji tillögur um að lækka skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Þessi afstaða ríkisstj. kemur auðvitað ekki á óvart miðað við þann tillöguflutning sem hér hefur verið uppi t.d. varðandi það að lækka skatta í sambandi við fjárfestingu í hlutafélögum. Þar sér ríkisstj. ástæðu til að koma sérstaklega til móts við fólk, en þegar kemur að hinum almenna launamanni blasir við hið algera miskunnarleysi. Þessi stefna ríkisstj. birtist svo einnig í þessu undarlega frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, um það að lækka þann skatt úr 1.4% í 1.t%.

Ég tel, herra forseti, ástæðu til að ræða skattastefnu ríkisstj. mjög ítarlega og ég mun gera það hér þegar betra tækifæri gefst til. Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv., en ég boða að ég mun hér flytja till. um að skatturinn verði 1.4% eins og gerð var till. um í Ed., þannig að í ljós komi hvort einnig hér í Nd. sé þannig háttað að stjórnarliðið vilji ekki tekjur af þessum góða skattstofni vinstri stjórnarinnar, sem hæstv. fjmrh. er nú á góðri leið með að viðurkenna, þó að það sé heldur í skötulíki, eins og kannske við var að búast, því að það er ekki von að menn taki út allan sinn þroska í einu skrefi, allt tekur sinn tíma. Ég boða þessa brtt. hér, herra forseti. (Gripið fram í.) Það var dapurlegt að hæstv. fjmrh. skyldi ekki geta svarað þessari einföldu fsp. hvernig á því stendur að hann er sérstaklega að lækka skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Mér þætti vænt um ef ráðh. sæi sér fært að reyna að svara því. Ég geri ekki miklar kröfur í þeim efnum, en tilraunin væri betra en ekkert.