19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

47. mál, frestun á greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 50 er flutt frv. til l. um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. sem gefin voru út skömmu eftir myndun núv. hæstv. ríkisstj. og fjölluðu brbl. um að ríkisstj. gæti að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og Seðlabanka Íslands ákveðið að fresta greiðslu á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingarþátta og vaxta verðtryggðra lána hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna og verðtryggðra íbúðalána banka og annarra lánastofnana er gjaldféllu á tilteknu tímabili eftir að lögin voru gefin út, ef lántakendur óskuðu.

Þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu í hv. Ed. án ágreinings þar. Á því var gerð ein breyting. Tvö orð voru felld niður úr 2. mgr., orðin „eftir þörfum“. Að öðru leyti féllst hv. Ed. á að samþykkja það frv. sem hér er til umr.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta frv., en leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.