19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur vakið mikla athygli hvað tekið hefur langan tíma að koma því í verk að þetta frv. væri lagt hér fram og er rétt að rifja upp í þessu sambandi að á s.l. vori fluttum við ýmsir þm. Alþb., Sjálfstfl. og Alþfl. sérstaka till. um að Alþingi kæmi saman 18 dögum eftir kosningar til að fjalla um breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipan. Röksemdin fyrir því var sú, að þar sem þingið væri orðið sammála um að núverandi kjördæmaskipan væri ekki réttlát lengur væri óviðunandi að þjóðin byggi lengi við kjördæmaskipan sem þingið væri orðið sammála um að væri óréttlát.

Nú gerðist það að þingflokkur Sjálfstfl. hljóp algerlega frá þessu samkomulagi, sem gert hafði verið, og myndaði ríkisstj. þar sem Framsfl. setti það að skilyrði að þetta mál yrði ekki tekið fyrir þá strax. Forusta Sjálfstfl. samþykkti að fórna kjördæmamálinu fyrir þessa ríkisstj. Það hefur svo verið fróðlegt að fylgjast með því hér í haust hvernig Framsfl. hefur áfram getað kúgað Sjálfstfl. í kjördæmamálinu. Það er greinilega alveg nýtt í stjórnmálasögu þessa lands að Framsfl. takist að kúga Sjálfstfl. í kjördæmamálinu. Forustumenn Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors, hefðu örugglega talið það einhvern tíma tíðindi.

Nú kemur greinilega í ljós að þessi kúgun nær ekki eingöngu svo langt að Sjálfstfl. samþykkti að geyma málið hér til haustþings, heldur virðist Sjálfstfl. ætla að láta Framsfl. komast upp með það að fyrst sé dregið vikum saman að leggja málið fyrir og síðan að koma í veg fyrir að málið færi til 1. umr. fyrir jólaleyfi. Ég vil spyrja hv. þm. Ólaf G. Einarsson, formann þingflokks Sjálfstfl.: Er það með samþykki Sjálfstfl. sem forsrh. hefur beitt sér fyrir því að 1. umr. fari ekki hér fram og er Sjálfstfl. þar með enn og einu sinni að samþykkja frestunar- og tafarkröfur Framsfl. í kjördæmamálinu?