19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að sjálfstfl. geri einnig kröfu til þess að þetta mál verði tekið hér til 1. umr. áður en þing fer heim í jólaleyfi og vil ég þakka hv. þm. Ólafi G. Einarssyni fyrir þá yfirlýsingu. Þar með liggur fyrir að meiri hl. þm. hér á hv. Alþingi óskar eftir því að þetta mál verði tekið hér fyrir og afgreitt til nefndar fyrir jólaleyfi. Þar með liggur einnig fyrir að það er ekkert samkomulag innan ríkisstj. um að þessu máli verði frestað hér og nú, eins og hæstv. forsrh. var að gefa til kynna.

Hæstv. forsrh. sagði að samið hefði verið um það í ríkisstj. að þetta mál yrði afgreitt áður en næstu kosningar færu fram. Því miður er það nú þannig, hæstv. forsrh., að sú yfirlýsing er harla léttvæg vegna þess að hæstv. forsrh. fer með þingrofsvaldið og hann getur þess vegna rofið þing hvenær sem honum sýnist, nánast á fullkomlega löglegan og stjórnskipulegan hátt, án þess að þetta mál verði afgreitt. Sjálfstfl. hefur staðið þannig að þessari stjórnarmyndun að Framsfl. getur með þingrofsvaldið í hendi sér hvenær sem honum sýnist efnt hér til kosninga án þess að breyting á kjördæmaskipuninni sé afgreidd sem fullgild lög. Og það er einmitt staðreynd málsins, sem þetta hv. þing er að leitast við að fyrirbyggja, en sem Framsfl. er augljóslega að leitast við að tryggja, að hann hafi það áfram algerlega í hendi sér með þingrofsvaldinu, sem forsrh. hefur, hvort þessi kjördæmabreyting verður afgreidd eða ekki. Þess vegna er óhjákvæmilegt að Alþingi tryggi með lagasetningu að þessi breyting nái fram að ganga sem allra fyrst svo að þessi breyting verði ekki fórnarlamb í þingrofshendi núv. hæstv. forsrh. Það er þess vegna sem ég fagna því að Sjálfstfl. skuli nú hafa lýst því yfir, eins og gert var fyrir nokkrum mínútum, að hann vilji standa að því að þetta mál sé tekið til umr. og til nefndar fyrir jólaleyfi. Það gefur okkur til kynna að sjálfstfl. hefur áttað sig á þeirri miklu hættu sem fólgin er í því að þetta mál geti drukknað með beitingu hæstv. forsrh. á þingrofsvaldinu. Að vísu veit ég að sjálfsagt hefur verið gert við myndun þessarar ríkisstj., eins og oft áður, samkomulag um að þingrofsvaldinu sé beitt með samþykki allra stjórnaraðila, en það eru hins vegar fordæmi og leiðir til þess að komast í kringum það atriði með því einfaldlega að reka þann aðila út úr stjórninni sem á móti því er og rjúfa síðan þingið þar á eftir. Um það eru ýmis dæmi úr íslenskri stjórnmálasögu, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér. (Iðnrh.: Ýmis dæmi? Það er eitt einasta dæmi til.) Það eru til tvö dæmi a.m.k. sem sýna hvernig þessu má beita, bæði frá 1974 og 1931. Þess vegna er ljóst að eins og málinu er nú háttað hefur Framsfl. þetta mál algerlega í hendi sér vegna valds hæstv. forsrh. Ég er þess vegna ekki hissa á því að hann gæfi þá yfirlýsingu sem hann gaf hér því að hún er liðurinn í því að tryggja að Framsfl. hafi algert vald á kjördæmaskipunarmálinu. Ég vil því ítreka þau tilmæli, sem hér hafa komið fram og hv. þm. Ólafur G. Einarsson studdi hér áðan, að leitað verði samkomutags í fundarhléi um að taka málið á dagskrá og koma því til nefndar.

Hitt er svo merkilegt, að menn skuli koma hér upp í ræðustólinn, eins og hæstv. forsrh., og telja að kjördæmamálið sé eitthvað skiptimál á móti frv. um tekju- og eignarskatt. Það sýnir nú best viðhorf Framsfl. til kjördæmamátsins, að ef menn vilja ekki afgreiða eitthvert ómerkilegt skattafrv. frá fjmrh., sem ríkisstjórnarliðið er búið að velkjast með í nokkra daga, verði kjördæmamálið ekki afgreitt. Ég spyr hv. þm. Sjálfstfl.: Ætla þeir að láta fara svona með kjördæmamálið, að það sé gert að ómerkilegri skiptimynt fyrir minni háttar frv. um tekju- og eignarskatt, frv. sem er aðeins fyrir 3–4 dögum komið til þingsins í þeim búningi sem ríkisstjórnarliðið vill fá það samþykkt í? (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að stytta ræðu sína?) Já, ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. Það frv. sem hér hefur verið um rætt hefur legið fullbúið og þm. kunnugt í níu mánuði, en sú útgáfa frv. um tekju- og eignarskatt, sem hér á að fara að ræða, sást fyrst á borðum s.l. föstudag.

Hitt er svo alveg ljóst, að það eru hér innan þings 2– 3 menn, eins og hv. þm. Karvel Pálmason og eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem sjálfsagt ætta að beita ræðuvaldi sínu til að reyna að skemma fyrir þessu kjördæmamáli eins og þeir geta. En það væri náttúrlega alveg út í hött ef þingið léti nokkra menn, sjálfsagt velflesta nema e.t.v. Karvel Pálmason innan Framsfl., komast upp með það að koma í veg fyrir að vilji meiri hl. þingsins gagnvart meðferðinni á kjördæmamálinu næði fram að ganga.