19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu tefjast þingstörf þegar varaþm. sem birtast hér á Alþingi eru svo viðþolslausir af þörf fyrir að tjá sig að það verður að halda uppi næturfundum til þess að hægt sé að fullnægja óskum þeirra. Hv. 7. þm. Reykv. talaði um að það ætti ekki að gera þetta mál að skiptimynt. Hverjir gerðu þetta mál að skiptimynt í viðskiptunum í vor? Hverjir gerðu þetta mál að skiptimynt í viðskiptunum þegar þurfti að ræða um raforkumál? Var það ekki Alþb. sem gerði þetta að skiptimynt? Var það ekki það sem hv. 9. landsk. þm. var að vekja athygli á áðan í umr.? Auðvitað gerðu þeir þetta mál að skiptimynt á sínum tíma.

En hitt er athyglisvert, að það hefur verið upplýst hér hverjir ætla að svíkja þau fyrirheit sem gefin voru í grg. með þessu frv. Það er upplýst að Alþb. ætlar að svíkja öll þau fyrirheit, hvert einasta. Mannréttindamál dreifbýlisins skipta það engu máli. Alþb. ætlar að svíkja. Það er búið að afgreiða það að svíkja, hver einasti maður, ef trúa má hv. 7. þm. Reykv. Þeir svikarar skulu úthrópaðir um land allt. Og það mun ekkert þýða hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að ætla að leika einhverja brúðu í þeim efnum. Hann verður spurður að því beint fyrir norðan hvort hann ætli að svíkja í þessu máli eða hvort hann ætli að virða það sem stóð í grg. Hér er verið að takast á um hvort það eigi að vera tvöfalt kerfi í þessu landi gagnvart mannréttindum eða ekki.

Það er athyglisvert að hv. 7. þm. Reykv. telur sjálfgert að hann sé talsmaður fyrir Sjálfstfl. hér í ræðustól af og til. Hann er reiðubúinn að túlka hvernig sjálfstæðismenn standa að málum. Hann er búinn að lýsa því yfir að hann sé fulltrúi fyrir þá hér með því að undirstrika að hver einasti maður í liði Sjálfstfl. ætli að svíkja í þessu máli. Ég vil upplýsa hann um að það er öruggt mál að til eru menn innan Sjálfstfl. sem hafa hugsað sér að virða þessa grg., hafa hugsað sér að koma í veg fyrir að þannig verði að málum staðið að svikið verði það sem þar kemur fram. En það er ekki undarlegt þó að hv. 7. landsk. þm. telji að það séu svikararnir úr hans liði sem muni fá að ráða þessu. Þeir eru vanir að halda hér uppi málþófi þegar þeim sýnist til að koma í veg fyrir að meiri hl. Alþingis komi málum sínum áfram. Það eru vinnubrögðin sem þeir telja eðlileg í lýðræðisþjóðfélagi.

Ég skora á hv. 7. þm. Reykv. að gera sér grein fyrir því, að það er til þó nokkuð mikið skrifað um þessi efni og það væri hægt að sitja nokkuð lengi á tali ef menn nýttu sér það sem þar er að finna. Það er ekki víst að flytja þyrfti tvisvar sömu ræðuna til að koma þeim málum áfram.