19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er örstutt, að þessu sinni a.m.k.

Ég held að það sé mesti misskilningur hjá hv. 7. þm. Reykv. að það séu bara tveir þm. hér innan veggja sem þurfa sitthvað um þetta mál að segja og þó þeir væru ekki nema tveir er hv. 7. þm. Reykv. óhætt að trúa því og treysta að þeir munu tala hér lengi báðir, komi þetta mál með þessum hætti fyrir þingið.

Ég vil í áframhaldi af því óska eftir því og kalla eftir því hjá formönnum stjórnmálaflokkanna öllum, hvað líði efndum á þeim gefnu yfirlýsingum og fyrirheitum sem fylgdu í grg. um að jafna búsetuskilyrði hjá þeim sem verst eru settir til jafns við hina. Hefur ekkert verið gert í því máli í þá níu mánuði sem þetta frv. hefur legið fyrir? Ég óska eindregið eftir að formenn stjórnmálaflokkanna komi í stólinn og segi okkur hinum óbreyttu af því hvað hefur verið unnið í þeim málum. Ég heyri það á hv. þm. Alþb., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv., að þeir kæra sig ekkert um það mál. Það er einvörðungu kosningalagafrv. sem þeir eru með, sem hér var afgreitt á síðasta vori, en um hitt kæra þeir sig ekki, það er greinilegt. (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) Hv. þm. hefði átt að vera hérna inni áðan þegar verið var að tala um málið, en ekki rjúka á dyr. Það er alveg sjálfsagt að tala við hann lengur í dag til að koma honum í skilning um hvað er verið að tala um, hafi hann ekki skilið það til þessa. En ég ítreka jafnframt að hv. 3. þm. Reykv. sem formaður Alþb. segi okkur til um hvað hann hefur lagt til varðandi það sem var í grg. með frv. frá því í vor og átti að jafna búsetuskilyrði. Hvar eru hans tillögur í þeim efnum? Ég kalla eftir þeim (Forseti: Ég vona nú að þessum umr. um þingsköp megi ljúka. Ég held að öll sjónarmið hafi komið hér fram. — Hv. 7. þm. Reykv. lofar því að tala mjög stutt um þingsköp.)