19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom hér fram að samið hefur verið um að áður en þessi ríkisstj. færi frá yrði gengið frá afgreiðslu þessa máls. (ÓRG: Það sagði forsrh. ekki.) Það voru orð forsrh. Hv. þm. hefði þurft að hlusta betur. (ÓRG: Ég hlustaði mjög vel.) Nú, ekki er það efnilegt hvernig hann hlustar þegar hann hlustar illa. (ÓRG: Hann sagði fyrir næstu kosningar.) En hitt vil ég undirstrika, að ég hef ekki spurt Alþb. að því hverjar þeirra tillögur séu varðandi efndirnar á yfirlýsingum í grg. Ég hef ekki átt von á neinum tillögum frá þeim og geri mér engar vonir um að þaðan komi neinar tillögur í jafnréttisátt í þessum málum. Það er alger misskilningur að ég muni nokkurn tíma spyrja hv. 7. þm. Reykv. hvað hann leggi til í þessum efnum. Undan slíkum spurningum kemst hann. Hann verður ekki að því spurður. (ÓRG: En hefurðu spurt forsrh.?) En svikararnir, sem ætla sér að koma kjördæmamálinu í gegn án þess að jafnréttismálin komist á dagskrá, eru órólegir núna. Þeir láta sig dreyma um það, að ef þeir geti komið þessu máli áfram með slíku móti komi hitt aldrei fram. (Gripið fram í.) Það verður gengið eftir því innan Framsfl. við forsrh. hvaða tillögur eigi að setja þarna fram. En ég vil undirstrika það enn einu sinni að ég tel enga von til þess að Alþb. leggi fram neinar tillögur í því máli.