25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég ætla nú að vona að menn fari ekki að þjarka hér um fortíðina eða hver hafi skrifað hverjum bréf eins og mér fannst jafnvel gæta hér um tíma. En það vekur hins vegar furðu eftir allar þessar bréfaskriftir og allar þessar athuganir að allar götur frá 1979 skuli það enn ekki liggja fyrir samkv. því sem hæstv. ráðh. lýsti hér yfir um hvers konar kostnað sé að ræða. Og það finnst mér harla lítill gangur og lítil skilvirkni eins og menn segja stundum í athugunum á bréfaskriftum ef það liggur ekki fyrir eftir fjögurra ára starf.

Ég verð hins vegar að segja það að af þeim gögnum, sem ég hef séð, þá verður þetta að teljast tiltölulega lítill kostnaður sem skilar sér fljótt, þó að sjálfsagt sé úr því að það hefur ekki verið kannað nægilega vel áður að skoða allar kostnaðaráætlanir mjög vel. Auðvitað hlýtur okkur öllum að vera það ljóst að ef lagt er í kostnað af þessu tagi þá bitnar það að einhverju leyti á öðrum. En þetta sýnist vera skynsamleg framkvæmd sem skilar sér fljótt til ríkisins og á þess vegna að njóta mikils forgangs.

Menn hafa talað um það hér að það væru ekki bara peningamálin sem hér kæmu til skoðunar, heldur líka hinn mannlegi þáttur vegna tungumálaerfiðleika og þvíumlíks. En ég held að það geti líka verið, og sé ekki síður ástæða að hafa það í huga, að það geti verið að einhverjir fari ekki í aðgerð eða dragi það óþarflega lengi að fara í aðgerð við þær aðstæður sem menn búa við nú, en mundu fara og njóta þessarar þjónustu hér ef þjónustan væri veitt hér á landi. Þetta held ég að menn ættu líka að hafa í huga og það mælir enn frekar með því að framkvæmdum verði flýtt af því tagi, sem hér eru til umr.