19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

1. mál, fjárlög 1984

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Við 2. umr. um fjárlagafrv. rakti ég að hverju stefndi við afgreiðslu fyrstu fjárlaga hæstv. ríkisstj. og vakti athygli á helstu atriðum sem mundu auðkenna væntanleg fjárlög fyrir árið 1984. Það sem síðan hefur gerst í meðferð málsins hjá fjvn. hefur staðfest það sem fram kom af hálfu minni hl. fjvn. í nál. við 2. umr. Það er því ekki þörf á að fjalla svo mjög um þetta frekar að öðru leyti en því að árétta það sem bent var á og nú er verið að staðfesta við lokaafgreiðslu málsins. Það er nú staðfest, sem í nál. okkar var haldið fram, að þrátt fyrir 9 millj. kr. tölulegan rekstrarafgang, sem sýndur var í fjárlagafrv., var það lagt fram með raunverulegum halla, sem nú er ljóst að mun nema í væntanlegum fjárlögum um 375 millj. kr. eftir að meiri hl. fjvn. hefur þó teygt tekjuáætlunina upp um 50 millj. kr. umfram þá áætlun sem Þjóðhagsstofnun hefur fyrir fáum dögum lagt fyrir fjvn. um tekjur ríkissjóðs á næsta ári, miðað við þær forsendur sem fjárlög byggjast á.

Lánsfjáröflun til A- og B-hluta fjárlaga er aukin um ríflega 800 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum eða um nálægt 50%. Á sama tíma er gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að verðlagshækkanir á næsta ári nemi um 23– 26% frá árinu 1983. Hér er þó ekki sýndur nema hluti af dæminu, því að ekki eru færðir til gjalda á næsta ári vextir af yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann um næstu áramót, en sú skuld mun nema um 1100–1200 millj. kr. núna um áramótin. Auk þess verður ekki að finna í fjárlögum næsta árs það viðbótarframlag til Byggingarsjóðs ríkisins sem frv. um húsnæðismál, sem nú er til umr. á hv. Alþingi, er byggt á. Er því ljóst að annað hvort er að þessu leyti markleysa, fjárlögin eða loforðin til húsbyggjenda, þ.e. ákvæðin í húsnæðismálafrv. um 240 millj. kr. aukin framlög til húsnæðismála. Verði þeirrar fjárhæðar aflað með lánsfé, en það á reyndar eftir sem áður að koma fram í fjárlögum, aukast lántökur ríkissjóðs ekki aðeins um 50%, eins og ég áðan gat um, heldur um nálega 63% frá núgildandi fjárlögum.

Fleira mætti til nefna, sem vantar í útgjaldahlið væntanlegra fjárlaga, svo sem það, að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er vantalið um 30 millj. kr. Það er því staðfest nú við 3. umr., sem haldið var fram við 2. umr. um málið og kom fram í nál. minni hl. fjvn., að ríkisstj. mun ekki standa við þá stefnuyfirlýsingu sína frá því í sumar að miða gerð fjárlaga fyrir árið 1984 við að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er þvert á móti stefnt í verulegan hallarekstur og skuldasöfnun. Hrun kaupmáttar launa hjá almenningi í kjölfar leiftursóknar ríkisstjórnarflokkanna gegn lífskjörunum hefur skert tekjur ríkissjóðs og við því hefur hæstv. ríkisstj. brugðist með skuldasöfnun og seðlaprentun það sem af er árinu og afgreiðsla fyrstu fjárlaga hennar sýnir að þeirri stefnu á að halda áfram og taka upp þann háttinn sem á var hafður þegar Sjálfstfl. bar ábyrgð á ríkisfjármálum á árunum 1974–1978.

Þegar hagur ríkissjóðs er með þeim hætti sem við blasir, þar sem hvort tveggja veldur, ytri aðstæður og stefna ríkisstj., þá er að mínum dómi, eins og ég lýsti yfir við 2. umr., almennt ekki efni til þess að flytja brtt. í því skyni að draga úr þeirri stórskerðingu ríkisframlaga til framfaramála sem nú er stefnt að. Ég stóð þó að flutningi einnar till. við 2. umr. í þá veru að framlag til dagvistarheimila yrði 20 millj. kr. hærra en ríkisstjórnarflokkarnir höfðu ákvarðað. Jafnframt benti ég í ræðu minni við 2. umr. á útgjaldaliði, þ.e. önnur rekstrargjöld hjá tilteknum stofnunum, sem væri eðlilegt að lækka, þar sem þeim væri á næsta ári ættað rekstrarfé sem verður hærra að raungildi en það fé sem þessar stofnanir munu nota í ár. Þessar ábendingar um lækkun rekstrarútgjalda í þá átt að þau yrðu í samræmi við forsendur fjárlagafrv. námu hærri upphæð en sú viðbót sem gerð var till. um varðandi framlag til dagvistarheimila. Þessi till. var felld við 2. umr. Ég tel að það sé fullreynt að ekki er áhugi á því hjá stjórnarflokkunum að draga úr of háum fjárveitingum til rekstrarútgjalda og nýta það fé sem þannig sparaðist til að draga úr stórfelldri skerðingu til mikilsverðra framkvæmdaliða og mun því ekki flytja frekari brtt. við afgreiðslu þessara fjárlaga.

Hluti af þeirri stórkostlegu kjaraskerðingu sem launafólk býr nú við eru þær mjög miklu hækkanir sem stjórnvöld hafa ákveðið á þjónustugjöldum opinberra stofnana eftir að verðbætur á laun höfðu með lögum verið takmarkaðar og afnumdar eftir 1. okt. T.d. hafa gjöld Pósts og síma hækkað um 47.5% frá og með 1. júní s.l., en laun á sama tíma um nálega 13.5%. Við þennan mismun er launafólki ætlað að búa allt næsta ár

að öðru leyti en því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú ákveðið að launahækkanir skuli takmarkast við 4% á næsta ári, og dugir það því ærið skammt gagnvart þeim hækkunum sem þegar hafa orðið á þessum gjöldum þótt þau hækki ekki á næsta ári.

Með þessum risahækkunum samhliða afnámi verðbóta á laun sem Póstur og sími nýtur varðandi launaútgjöld hefur sú stofnun úr svo miklu meira fé að spila á næsta ári en áður að á sama tíma og framlög á fjárlögum til sveitarfélaga til verklegra framkvæmda eru rýrð um 10% að raungildi, þá eykur Póstur og sími framkvæmdir sínar að raungildi um 38%. Þótt hér sé um gagnlegar framkvæmdir að ræða kann ýmsum að þykja að nokkuð hallist á og þegar þetta er haft í huga kynni jafnvel að hvarfla að stuðningsmönnum stjórnarflokkanna að of langt hafi verið gengið í því hjá ríkisstj. að nota sér bann við verðbótum á laun þegar þessar gríðarlegu hækkanir á þjónustugjöldum voru ákveðnar s.l. sumar og haust. Þessar hækkanir eru afstaðnar og þær mælast því ekki lengur sem vísitöluhækkanir og verðbólga, en hækkanirnar haldast og munu hvíla áfram á launafólki sem býr við stórskertan kaupmátt launa.

Hækkanir á þjónustugjöldum annarra ríkisstofnana hafa þó jafnvel orðið enn meiri. T.d. eru afnotagjöld hljóðvarps og sjónvarps nú 117% hærri en á sama tíma í fyrra, en á þessu tímabili hafa laun hækkað um tæplega 43%.

Eitt ríkisfyrirtæki er þó skilið eftir með óleystan vanda við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. Skipaútgerð ríkisins. Framlag á fjárlögum til reksturs Skipaútgerðarinnar dugir ekki til þess að tryggja starfsemi hennar á næsta ári. Það vantar um 24.4 millj. kr., en það jafngildir um 22% af þeim tekjum sem Skipaútgerðin hefur allt næsta ár fyrir selda þjónustu. Verður naumast annað séð en að með nokkrum rétti megi bæta þessari upphæð við vantalin útgjöld ríkissjóðs á fjárlögum næsta árs og bætast þau þá við áætlaðan halla.

Eins og ég rakti við 2. umr. er í áætlunum um framkvæmdir í vegamálum á næsta ári gert ráð fyrir að gjöld af bensíni hækki til jafns við breytingar á byggingarvísitölu, þótt verðbætur á laun séu bannaðar með lögum í eitt og hálft ár enn. Verða þessi gjöld að meðattali 44.4% hærri á hvern bensínlítra á næsta ári en í ár, en hækkanir kauptaxta eru áætlaðar um 13% milli ára. Jafnframt ætla stjórnarflokkarnir að láta ríkissjóð njóta góðs af þessum hækkunum á bensíni með auknum tekjum af tollum og söluskatti af bensíni og í stað þess að framfylgja þeirri stefnu, sem Sjálfstfl. hefur haldið á loft, um að tekjur ríkissjóðs af bensíni eigi að renna til vegamála, verður framlag úr ríkissjóði til viðbótar við markaða tekjustofna Vegasjóðs hlutfallslega minna á næsta ári en í ár. Er þó látið líta svo út að sú ákvörðun ríkisstj. að af heildartekjum af bensíni, þ.e. mörkuðum tekjustofnum og tollum og söluskatti af bensíni, skuli 50% að lágmarki renna í Vegasjóð jafngildi hækkun á framlagi ríkissjóðs frá því sem verið hefur.

Staðreyndin er hins vegar sú, miðað við þær tölur sem ég hef fengið frá fjárlaga- og hagsýslustofnun um tekjur af bensíni í ár, að framlag ríkissjóðs verður hlutfallslega lægra á næsta ári en í ár, þ.e. ríkissjóður heldur stærri hluta bensíntekna eftir en á þessu ári. Vegagerð ríkisins áætlar að á næsta ári nemi heildartekjur af bensíni 1706 millj. kr., þar af markaðir tekjustofnar Vegasjóðs 663 millj. Í væntanlegum fjárlögum er því gert ráð fyrir að bæta við mörkuðu tekjurnar 190 millj. kr. af hluta ríkissjóðs af bensínsköttum, þannig að til vegamála verði varið alls af bensínsköttum 853 millj. kr., sem eru 50% af heildarsköttunum, 1706 millj. kr.

Ef skoðað er hvernig þessu er háttað í ár, áður en 50% reglan var tekin upp, eru heildartekjur af bensíni áætlaðar í ár 1182 millj. Þar af fær Vegasjóður af mörkuðum tekjustofnum 469 millj. Þá hefði þurft að bæta við af öðrum tekjustofnum, þ.e. tollum og söluskatti af bensíni sem renna í ríkissjóð, 122 millj. kr. til þess að til vegagerðar rynnu alls 591 millj. kr., sem eru 50% af heildarsköttum af bensíni, sem eins og ég áðan nefndi eru 1182 millj. Framlag ríkissjóðs á þessu ári verður á hinn bóginn ekki 122 millj. heldur 152.4 millj. kr., þannig að í Vegasjóð renna á þessu ári 52.6% af heildarsköttum af bensíni. Ef sama hlutfall, þ.e. 52.6%, ætti að gilda á næsta ári, en ekki 50% eins og áætlað er, þá rynni í Vegasjóð 44.3 millj. kr. hærri upphæð en hér á að fara að ákvarða við afgreiðslu fjárlaga.

Hv. formaður fjvn. hefur gert grein fyrir því sem fram kom af hálfu fulltrúa Þjóðhagsstofnunar þegar þeir komu á fund fjvn. eftir 2. umr. Samkv. því sem fram kom á fundinum er ekki gert ráð fyrir því að áætlun um að draga úr launahækkunum um 2 prósentustig frá því sem áætlað var við gerð fjárlagafrv. hafi áhrif til lækkunar á áætluðu verðlagi, heldur er við það miðað að verðlagshækkanir verði jafnmiklar og áður var áætlað vegna þess að gengi krónunnar taki þeim mun meiri breytingum en ráðgert var. Kjaraskerðingar miðað við fyrri áætlanir verða því meiri en minni launahækkanir en áætlað var mundu einar sér valda.

Þjóðhagsstofnun hefur endurmetið tekjuáætlun fyrir ríkissjóð vegna nýrra upplýsinga er lágu fyrir þegar upphaflega áætlunin var gerð svo og vegna nýrra forsendna varðandi launabreytingar. Í þessari endurskoðuðu tekjuáætlun Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aðrar en tekjur af mörkuðum tekjustofnum lækki um 100 millj. kr. frá áætlun þeirri sem fjárlagafrv. er byggt á. Meiri hl. fjvn. hefur þó talið sig hafa ástæðu til að hækka tekjuáætlunina frá nýrri áætlun Þjóðhagsstofnunar um 50 millj. kr. Hvort áætlun þessara hv. nefndarmanna reynist réttari en spá Þjóðhagsstofnunar á tíminn eftir að leiða í ljós og þá um leið hvort þessi ákvörðun þýðir í reynd að rekstrarhalli ríkissjóðs á næsta ári reynist vanmetinn á væntanlegum fjárlögum.

Afgreiðsla fyrstu fjárlaga hæstv. ríkisstj. er markverð að ýmsu leyti. Horfið er frá yfirlýstri stefnu ríkisstj. um jafnvægi í ríkisfjármálum á næsta ári, en þess í stað ákveðin skuldasöfnun og hallarekstur sem leystur er með seðlaprentun.

Til viðbótar við þá stórfelldu skerðingu kaupmáttar launa sem þegar er að sliga þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu er gert ráð fyrir aukinni skattheimtu, m.a. með hækkun vísitölutengdra skattstofna, en verðbætur á laun eru á hinn bóginn bannaðar með lögum. Og ríkisstj. hefur talið ástæðu til þess, einmitt þegar kaupmáttur er skertur svo sem raun ber vitni, að afnema allar hömlur á verðlagningu hvers kyns þjónustu, m.a. með þeim afleiðingum, sem ég nefndi dæmi um við 2. umr., þar sem t.d. kom fram að þeir sem hafa lífsframfæri af ellilífeyri og tekjutryggingu gátu í desember í fyrra keypt 66.5% meira magn af heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur fyrir lífeyrinn en á sama tíma á þessu ári. Og nú fær gamla fólkið og aðrir neytendur þann jólaglaðning að fyrirhuguð sé 25% hækkun þessara útgjalda, þannig að eftir þá hækkun standa mál svo, að í des. í fyrra dugði mánaðarlífeyririnn fyrir 973.4 lítrum af heitu vatni, en eftir boðaða hækkun mun hann aðeins duga fyrir 467.9 lítrum, þ.e. í fyrra fékkst 108% meira magn fyrir lífeyrinn en eftir þá hækkun sem verið er að boða þessa dagana fyrir jól.

Enn eitt einkenni þessara fjárlaga er niðurskurður félagslegra framkvæmda á sama tíma og verið er að efna til ríflega 600 millj. kr. erlendrar lántöku til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þá er ljóst að fjárveitingar til fjölmargra stofnana ríkisins eru með þeim hætti að þeim er ætlað fjármagn til rekstrarútgjalda sem er hærra að raungildi en það fjármagn sem þær nota á þessu ári.

Það sem þó fyrst og fremst gerir þau fjárlög sem hér er verið að afgreiða einstök, svo að þau marka tímamót, er sú ákvörðun Sjálfstfl. og Framsfl. að hefja aðför að því tryggingakerfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum áratugum — aðför sem er upphafið að því að rífa niður þá afkomutryggingu sem hver og einn þjóðfélagsþegn hefur búið við með því að eiga rétt á ókeypis sjúkrahúsvist. Sú ákvörðun að ætla með-þessum hætti að leysa tímabundinn vanda með að ná saman endum við afgreiðslu fjárlaga tryggir fjárlagaafgreiðslunni nú sérstakan sess í sögunni svo og þeim hv. alþm. sem að því ætla að standa.