19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

1. mál, fjárlög 1984

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er í raun og veru ekki ástæða til þess við lokaumr. um fjárlög að hafa um þau mörg orð, því eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni hefur allt staðist sem haldið var fram af hálfu minni hl. fjvn. og þar með stjórnarandstöðunnar við 2. umr. málsins. Þannig þarf ekki miklu við að bæta og ég skal ekki hafa um það mörg orð. Ég vil aðeins ítreka nokkur atriði hér sem liggja ljós fyrir.

Því var haldið fram við 2. umr., að fjárlög fyrir árið 1984, sem hér er nú verið að leggja síðustu hönd á að afgreiða, yrðu afgreidd með halla. Það er nú staðreynd. Það er einnig staðreynd að lántökur verða samkv. því sem hér er nú verið að leggja til verulega auknar á árinu 1984 og þótti þó mörgum ærið nóg. Skv. þessu munu lántökur verða um eða yfir 60%, nokkuð yfir 60% líklega, af þjóðarframleiðslu. Enn fremur er ljóst að skuld af yfirdráttarlánum hjá Seðlabanka Íslands er utan fjárlaga. Þar er um að ræða 1100–1200 millj. 30 millj. vantar til að standa við framlag ríkissjóðs í Atvinnuleysistryggingasjóð, þannig að þar sé lagaskyldu fullnægt, og 240 millj., sem lofað er í framlögðu húsnæðismálafrv. hæstv. ríkisstj., hafa ekki enn séð dagsins ljós. Enn sem komið er er þar um að ræða marklaus loforð vegna þess að það fé er ekki tekið með við afgreiðslu fjárlaga á sama tíma og frv. er til umr. í þinginu.

Það er einnig ástæða til þess að segja örfá orð um þær 355 millj. sem á að taka af sjúklingum í heilbrigðiskerfinu. Vonandi komast stjórnarflokkarnir ekki fram úr því máli að framkvæma það eins og áformað er. Ítrekað hefur verið beðið um að fá að sjá eða heyra fyrirætlanir ríkisstj. í sambandi við útfærslu á þessum sjúklingaskatti, en ekkert slíkt hefur a.m.k. borist í hendur fjvn. þannig að það mál er allt óljóst. Vonandi guggnar hæstv. ríkisstj. á áformum þessum. Þó að það þýddi enn stærra gat í fjárlögunum væri það vissulega til vinnandi að leggja ekki þyngri byrðar á bök þeirra sem verst eru settir.

Þá hefur einnig komið fram, og það er reyndar löngu ljóst, að verulega eru niður skornar fjárveitingar til framkvæmda hinna ýmsu mikilvægu þátta. Ég ætla ekki að rifja það hér upp. Það hefur verið gert rækilega við 2. umr. málsins og ekkert hefur breyst að því er þann málaþátt varðar.

Það er líka eftirtektarvert nú við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 að skipaútgerðina á ekki að reka samkv. fjárlögunum nema hálft árið. Hvað þá á að taka við veit enginn. En samkv. fjárlagafrv. eins og það líklegast verður afgreitt hér á ekki að reka Skipaútgerð ríkisins nema hálft árið 1984.

Það er óhugnanlegt ef fleira stefnir í þá átt sem mál Skipaútgerðar ríkisins við afgreiðslu frv. Er allillt ef stefnir í sömu átt í ýmsum mikilvægum málaflokkum sem varða ekki hvað síst fólk úti um land sem þarf vissulega á slíkri þjónustu að halda.

Ég hygg að hv. formaður fjvn. hafi gleymt að geta þess hér, þegar hann gerði grein fyrir brtt., að í sambandi við Framkvæmdasjóð aldraðra er hækkun um 15 millj. kr. Það er gert í ljósi þess að jafnhátt framlag komi á móti og það verði notað m.a. til B-álmu byggingarinnar hér í Reykjavík. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta sé ljóst, en ég heyrði ekki hv. formann geta þessa í framsögu. Ég hygg að það hafi gleymst.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þennan þátt, en nú vænti ég þess að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur því að á þskj. 260 flyt ég ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni brtt. við 4. gr. frv. Það er liðurinn 11 399, Ýmis orkumál.

Það hefur svo oft verið talað um þann þátt fjármátanna hér á Alþingi, ekki bara að undanförnu heldur og mörg undanfarin ár, að í raun og veru ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um hann, en ekki verður annað séð en núv. hæstv. ríkisstj., þó undarlegt megi teljast miðað við fyrri yfirlýsingar sömu manna og tillöguflutning hér á Alþingi, síðast við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári, ætli enn að halda áfram að ráðstafa tekjum sem fást fyrir orkujöfnunargjaldið á allt annan hátt en lög gerðu ráð fyrir þegar þau voru samþykkt 1980. Enn er það aðeins brot af þessum skatti sem á að renna til þess sem hann var upprunalega ætlaður til. Það er ástæða til að rifja það upp hér og nú, að fyrir ári fluttu þáverandi stjórnarandstöðuþm. Sjálfstfl. með hæstv. iðnrh., hæstv. samgrh., hæstv. forseta Sþ. og fleiri í fararbroddi till. um að ráðstafa meira af þessum skattstofni til þess sem upprunalega var ætlað. Allt virðist þetta nú fyrir bí. Þessir sömu hv. þm. og hæstv. ráðh. virðast nú, þegar þeir hafa aðstöðuna til að gera betur en áður hefur verið gert, ætta sér enn að nota verulegan hluta þessa skatts til annarra hluta en upprunalega var ætlað.

Ég vona að ekki hafi farið fram hjá neinum hv. þm. hversu gífurlega stórt mál hér er um að ræða. Hæstv. iðnrh. orðaði það svo hér fyrir stuttu, að hann óttaðist að hér væri um að ræða eitt mesta byggðavandamál sem uppi hefði verið um langa tíð. — Nú sé ég að hæstv. iðnrh. gengur í salinn. — Ég er sammála hæstv. iðnrh. um þetta. Þetta, sem er að gerast nú og hefur verið að gerast í nokkuð langan tíma og fer vaxandi, hefur í för með sér að fólksflótti mun bresta á frá sumum svæðum, ef ekki þegar brostinn á frá ýmsum svæðum úti á landi, hingað á höfuðborgarsvæðið þar sem fólk þarf ekki að borga nema brot af þessum kostnaði heimilishaldsins samanborið við það sem er úti á landsbyggðinni víða. Þetta á ekki einvörðungu við um Vestfirði, þetta á miklu víðar við. Það er raunar furðulegt, svo mjög sem hér kreppir að, að hæstv. ráðh. úr dreifbýliskjördæmum, þar sem þetta er hvað þungbærast, skuli ekki hafa uppi burði til að láta þá peninga, sem eru teknir af skattborgurunum til þessa verkefnis, renna óskipta til að minnka þann gífurlega mun sem hér er á, létta þann gífurlega bagga sem fólk ber og er nú að sliga hundruð heimila í landinu, bara þessi þáttur einn, auk þeirrar kjaraskerðingar og annarrar plágu sem yfir gengur nú af hálfu hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis. Er með hreinum eindæmum að við afgreiðslu fjárlaganna skuli eiga að standa að þessu máli á þennan hátt.

Ég las í blaði, ég held í Morgunblaðinu, að hæstv. iðnrh. mundi gefa yfirlýsingu hér um að eitthvað skyldi nú gert á næsta ári og ég ætla að taka forskot á sæluna í trausti þess að hann komi á eftir og hafi eitthvað um málið að segja. Slíkar yfirlýsingar og margar yfirlýsingar í þá átt að nú skuli eitthvað gert höfum við heyrt hér á Alþingi mörg undangengin ár og undangengin þing. Og það er ástæða til að rifja upp þær umr. sem fóru fram hér fyrir hádegið og benda á að í sambandi við kosningalagamálið svonefnda voru líka gefin ótvíræð fyrirheit um að jafna búsetuskilyrði fólks í kjölfar breyttrar skipunar kosningalaga. Síðan eru níu mánuðir liðnir. Ekkert hefur gerst, ekki a.m.k. mér vitanlega, og ekkert liggur fyrir hér á þingi sem bendir til þess að það eigi að standa við gefin fyrirheit um að jafna búsetuskilyrðin.

Ég rifjaði upp áðan að hæstv. núv. iðnrh., málafylgjumaður mikill, var í broddi fylkingar sem flutti tillögu hér á Alþingi fyrir um ári þegar fjárlög ársins í ár voru afgreidd. Nú virðist hafa orðið héraðsbrestur í þeim herbúðum. Ekkert slíkt er sjáanlegt í þeim efnum þó að nú séu völdin komin í hendur hæstv. iðnrh., hæstv. samgrh., hæstv. forseta Sþ. og svo mætti lengi telja, sem hefðu til þess tækifæri að standa við góðu fyrirheitin, gefnu loforðin.

Þetta er nauðsynlegt að rifja upp hér því að enn eina ferðina á nú, að því er sýnist, að fara í þá átt að svíkja allt það sem lofað hefur verið. Í raun og veru á að taka ófrjálsri hendi skattpeninga almennings, sem ætlaðir voru til þessa þáttar, og ráðstafa þeim á annan veg. Og síst hefði ég trúað því að hæstv. iðnrh. gengi í broddi fylkingar þegar að því kæmi að taka slíka peninga ófrjálsri hendi. Hann veit þörfina á því að hér sé reynt að leiðrétta og létta byrðar. Honum er það mætavel kunnugt, eins og ég vona að hv. þm. öllum sé ljóst, og hversu brýn þörfin er á að hér verði bót á ráðin.

Ég hef því á þskj. 260 leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni brtt. við liðinn Ýmis orkumát, þ.e. jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar samkvæmt lögum nr. 53/1980, sem ég hef gert hér að umræðuefni. Í staðinn fyrir 3 millj. komi 232,5 millj., sem er bara ráðstöfun á þessum skatti til þess verkefnis sem honum var ætlað. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að núv. hæstv. ráðh. sem hafa hér völdin og geta ráðið ef þeir vilja, hafi svo snúist hugur frá því sem var fyrir um ári að þeir ætli nú að standa gegn því að þetta réttlætismál nái fram að ganga.

Hæstv: iðnrh. sagði í umr. um daginn að hann réði þessu ekki einn. Það er út af fyrir sig rétt. En ég vil gjarnan í ljósi þeirra orða óska eftir því hvort og þá hverjir þm. stjórnarliðsins það eru sem ekki fást til að ganga þennan veg og samþykkja að þessir peningar fari til jöfnunar hitunarkostnaðar. séu einhverjir þann veg klæddir í dag að vilja ekki þetta réttlætismál fram er nauðsynlegt að fá það upplýst. — Ég sé að hæstv. fjmrh. gaf merki. Líklega táknar það að hann væri einn þeirra. En ég minni þá á að hæstv. núv. fjmrh. var einn af flutningsmönnum brtt. við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári. Það þýðir ekki, hæstv. ráðh., að hrista hausinn. Þessu er hægt að fletta upp í þskj. Núv. hæstv. fjmrh. var meðal flm.brtt. um að skila meira af þessu gjaldi til réttra aðila en þá átti að gera. Ég bendi hæstv. fjmrh., trúi hann þessu ekki, á að fletta upp í þskj. varðandi tillöguflutning við fjárlagaafgreiðslu í fyrra.

Þó að margt sé hægt að segja og margt hafi miður farið í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu sem hér á nú að fara fram, margt sé þar miður, er þessi þáttur ekki hvað síst svo gífurlegt vandamál fyrir svo mörg heimili í landinu að Alþingi getur ekki skotið sér undan því lengur að hér verði bót á ráðin. Með engum hætti er það hægt miðað við hvernig málið hefur æxlast, hverju hefur verið lofað og til hvers þeir peningar sem af atmenningi eru teknir voru ættaðir. Ég treysti því að hæstv. iðnrh., helst í broddi fylkingar stjórnarliðsins, gefi a.m.k. ótvíræða yfirlýsingu um að ekki skuli stefnt að eða reynt, heldur verði bætt um betur. Beiti hann sér ekki fyrir úrbótum núna við afgreiðslu fjárlaga verði hans orð a.m.k. ekki misskilin, þau verði rétt skilin, um að bætt verði úr þegar á næsta ári.